Fréttir

Birt þann 7. febrúar, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

66% Íslendinga spilar tölvuleiki – 41% spilar reglulega

Origo bauð upp á umræður um rafíþróttir í dag í tengslum við UTmessuna sem hefst formlega á morgun. Áður en umræður hófust kynnti Gallup nýjar tölur varðandi tölvuleikjaspilun Íslendinga, en þetta er í fyrsta sinn sem slík könnun hefur verið lögð fram með formlegun hætti og því ekki hægt að bera þessar nýju tölur með beinum hætti við niðurstöður eldri kannana. Niðurstöður Gallup sýna að 66% Íslendinga sem hafa náð 18 ára aldri spila tölvuleiki, en 41% Íslendinga á sama aldri spila tölvuleiki reglulega, það er að segja einu sinni í viku eða oftar. Hér fyrir neðan er að finna tölfræðina sem Gallup kynnti fyrr um daginn.

 • 66% Íslendinga spila tölvuleiki (hér er ekki gerður greinamunur á því hvort viðkomandi spila tölvuleik einu sinni á ári eða daglega). Þetta eru um 154.000 Íslendingar. Fleiri Íslendingar spila tölvuleiki en taka lýsi (56%) eða nota Instagram (51%).
 • 41% Íslendinga spila tölvuleiki vikulega eða oftar, eða álíka margir og lesa bækur (45%).
 • Flestir spila tölvuleiki í síma (50%) eða borðtölvu eða fartölvu (39%), færri spila leiki í leikjatölvu (27%) eða í spjaldtölvu (25%).
 • Þeir sem spila leiki í síma eða borðtölvu eða fartölvu eru líklegri til að spila lengur en þeir sem spila leiki í spjaldtölvu eða leikjatölvu.
 • Af þeim sem spila tölvuleiki vikulega spila flestir leiki í síma (26%) og þar á eftir í borðtölvu eða fartölvu (18%), færri spila tölvuleiki í leikjatölvu (9%) eða spjaldtölvu 8%).
 • Algengt er að þeir spilarar sem spila tölvuleiki a.m.k. einu sinni í viku spili frá hálftíma og upp í sjö klukkutíma á viku (72%). Aðrir (28%) spila í sjö klukkutíma eða meira í viku hverri. Virkir spilarar verja að meðaltali 54 mínútum í spilun á dag.
 • Þeir sem spila tölvuleiki í borðtölvu eða fartölvu eða í leikjatölvu verja að meðaltali 5,5-6 klst. í spilun á viku á meðan þeir spilarar sem spila leiki í síma eða í spjaldtölvu verja áberandi minni tíma í spilun, eða 2-2,5 klst. á viku.
 • Yngri aldurshópar spila meira en þeir eldri. Virkasti aldurshópurinn er 18-30 ára þar sem 86% spila tölvuleiki og 62% spila vikulega. Í aldurshópnum 31-45 ára spila 78% tölvuleiki og 53% spila vikulega. 55% á aldrinum 46-60 ára spila tölvuleiki og 31% vikulega. Um helmingur þeirra sem eru eldri en 60 ára spila tölvuleiki og 28% spila vikuleg.
 • Álíka margar konur og karlar spila tölvuleiki. 65% kvenna spila tölvuleiki og 40% spila tölvuleiki vikulega. 67% karla spilar tölvuleiki og 42% spilar vikulega. Karlar verja þó meiri tíma í tölvuleiki og spila að meðaltali 7 klst. á viku á meðan konur spila 5 klst. á viku.
 • Konur spila leiki aðeins meira en karlar í síma eða í spjaldtölvu á meðan karlar spila leiki töluvert meira en konur í borðtölvu eða fartölvu eða í leikjatölvu.
 • 14% barna á aldrinum 0-2 ára spila tölvuleiki (enginn 0 ára var þó skráður á lista, svo hér má gera ráð fyrir aldrinum 1-2 ára). Tveir þriðju barna á aldursbilinu 3-5 ára spila tölvuleiki og lang flesti börn á aldrinum 6-17 ára spila tölvuleiki. 94% barna á aldrinum 6-12 ára spila leiki á meðan 86% barna á aldrinum 13-17 spilar leiki.
 • Stelpur og strákar yngri en 18 ára spila álíka mikið tölvuleiki í síma og í spjaldtölvu en strákar eru áberandi fleiri þegar kemur að spilun í borðtölvu eða fartölvu eða í leikjatölvu.
Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑