Leikjarýni

Birt þann 4. september, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Leikjarýni: Pro Evolution Soccer 2019 – „tækifæri fyrir Konami til að taka stærri sénsa“

Leikjarýni: Pro Evolution Soccer 2019 – „tækifæri fyrir Konami til að taka stærri sénsa“ Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: PES 2018 var skref áfram fyrir seríuna og hefði verið gott að sjá nýja leikinn taka hlutina lengra áfram.

3.5

Nokkuð góður


Haustið er að byrja og það þýðir bara eitt fyrir okkur sem spila tölvuleiki, og það er að nýir PES og FIFA fótboltaleikir koma út og fjörið í kringum allar þær leikjaútgáfur sem væntanlegar eru fram að jólum hefst fyrir alvöru.

Eins og í fyrra þá er PES eða Pro Evo (Pro Evolution Soccer eins og hann heitir fullu nafni) fyrstur á teiginn, mánuði á undan FIFA 19. Hvernig mun það koma út fyrir Konami og er leikurinn nógu góður til að berjast við risann frá EA Sports?

Við fyrstu sýn virðist ekki vera mikil breyting á milli ára þegar leikurinn er keyrður upp. Valmyndir og viðmót lítur nær eins út og í fyrra og þarf að kafa dýpra til að sjá nýjungarnar. Eitt af því sem fólk mun þó fljótlega taka eftir þegar komið er inn á völlinn er útlit leiksins. Konami hefur nýtt tímann í að uppfæra FOX Engine leikjavélina þetta árið og þurfa því ekki að eyða jafn miklum tíma og áður í Meistara- og Evrópudeildirnar sem eru ekki með að þessu sinni. Nánar um það síðar.

Að spila leikinn á sjónvarpi með 4K upplausn, 60 römmum á sekúndu og stuðning við HDR litatæknina er virkilega flott og sér maður meiri nákvæmni í umhverfinu og leikmönnum en áður. Að sjá leikvang eins og Camp Nou fullan af fólki þegar þú ert að spila sem Barcelona er hrikalega flott og eykur upplifunina í leiknum. Fólk sem spilar á venjulegri PS4 eða Xbox One fær samt alveg flotta upplifun í 1080p upplausn og auðvitað 60 römmum á sek, sem er nauðsynlegt fyrir svona leik.

Lýsingin í leiknum hefur verið uppfærð talsvert og sést það helst í skuggum leikmanna á vellinum, betra útliti á áhorfendum leiksins, flottara grasi á vellinum og raunverulegra veðri, eins og til dæmis snjókomu.

Peter Drury og Jim Beglin mæta aftur til leiks til að lýsa leikjunum og er það almennt fínt, en stundum pínu kjánalegt. Enn það er við því að búast kannski útaf hve leikirnir geta breyst þegar fólk er að spila og lýsingin passar ekkert alltaf við það sem er að gerast á vellinum.

Stóri missirinn fyrir PES seríuna þetta árið er að þeir endurnýjuðu ekki samninginn við UEFA um Meistara- og Evrópudeildirnar og er það stórt skarð í seríuna…

Stóri missirinn fyrir PES seríuna þetta árið er að þeir endurnýjuðu ekki samninginn við UEFA um Meistara- og Evrópudeildirnar og er það stórt skarð í seríuna sem hafði það til að vega upp á móti skort leyfa fyrir deildir eins og þá ensku þar sem Manchester United heitir Man Red og er ekki með rétta búninga eða annað slíkt. Það reyndar er hægt að bæta úr því á PC og PS4 með að kíkja á þessar leiðbeiningar á GamesRadar og notast við USB kubb. Xbox eigendur eru því miður fastir með óbreytt ástand.

Til að bæta þetta upp þá samdi Konami við hin ýmsu lið eins og m.a. Barcelona, Liverpool, Arsenal, Schalke, AC Milan, Inter Milan, Monaco, Celtic, Ranger um að vera með þeirra búninga, leikvanga og annað slíkt. Nýjar deildir bætast við þetta árið og eru þær 12 talsins; danska, skoska, hollenska, belgíska, rússneska o.fl. og gefur það fólki gott tækifæri t.d. að upplifa ríginn á milli Celtic og Rangers í Skotlandi eða prufa sig áfram í Suður Ameríku.

Það er líka auðvelt að bæta úr þessu með aðgangi að internetinu og USB kubbi til að laga nöfnin, lógóin og búningana. Þetta er ekki fullkomin lausn, en þó gott fyrir þá sem vilja.

Sería Konami hefur oft verið sú sem er skrefi á eftir í útliti og öðru, en unnið það upp með spilun og helst formúlan óbreytt þetta árið.

Þar sem PES bætir sig milli ára er með hreyfingum leikmanna og þeirri tilfinninginu sem fylgir að spila leikinn. Sería Konami hefur oft verið sú sem er skrefi á eftir í útliti og öðru, en unnið það upp með spilun og helst formúlan óbreytt þetta árið. Það er þó ekki hægt að segja 100% til um hvernig þetta allt mun heppnast þar sem að FIFA 19 er ekki enn komin út.

Sérstakar hreyfingar vissra leikmann er ný viðbót þetta árið og kallast þetta „Magic moments“. Þetta á við að þú ert líklegri til að sjá sérstök tilþrif fyrir ákveðna leikmenn eins og t.d hörkuskot Kevin De Bruyne hjá Man City eða hvernig Neymar keyrir í gegnum leikmenn (og dettur eins og blaut tuska). Þetta er gaman að sjá og fá þeir sem fylgjast með fótbolta líklega mest út úr því að sjá leikmenn sem þeir kannast við leika listir sínar á vellinum.

Eitt sem ég tók eftir þegar ég var að spila leikinn er hve oft mér fannst dómarinn vera of ákafur að vara mann við eða spjalda þegar ég var að reyna að ná boltanum af andstæðingnum. Stundum langaði mig að benda honum á að þetta er fótbolti og það er viðbúið að þá sé eitthvað um snertingar eða væga pústra.

myClub inniheldur nú co-op spilun sem ætti að gleðja marga vinina og eru vikuleg verðlaun í boði fyrir þá leikmenn sem spila vel víðs vegar um heiminn vikulega ásamt „Legends“ leikmenn eins og David Beckham og fleiri stjörnur frá fyrri árum sem er gaman að sjá á vellinum á ný. Þessi hluti leiksins er þó talsvert á eftir Ultimate Team í FIFA.

Master League er á ný kjarni leiksins ásamt myClub, nú er hægt að spila á undirbúningsmótum áður en deildin byrjar til að koma liðinu þínu í gang og sjá hvað gengur upp í leikskipulaginu hjá þér. Flestar breytingarnar á hlutum PES 2019 eru litlar og ekki alltaf auðvelt að sjá við fyrstu kynni.

Þetta ætti að vera tækifæri fyrir Konami til að taka stærri sénsa og koma með eitthvað nýtt í samkeppninni við FIFA, en í stað virðast þeir hafa spilað þetta „öruggt“ og stefnt á jafntefli þetta árið.

PES 2018 var skref áfram fyrir seríuna og hefði verið gott að sjá nýja leikinn taka þetta lengra áfram, sérstaklega þar sem vantar Meistaradeildina o.fl. Þetta ætti að vera tækifæri fyrir Konami til að taka stærri sénsa og koma með eitthvað nýtt í samkeppninni við FIFA, en í stað virðast þeir hafa spilað þetta „öruggt“ og stefnt á jafntefli þetta árið. Grunnspilun leiksins er enn mjög góð og eitthvað sem harðir fótboltaunnendur ættu að hafa mjög gaman af í marga mánuði, en fyrir marga aðra er þetta spurning um hvort að það sé nógu mikið nýtt þetta árið til að réttlæta kaupin eða bara halda áfram í gamla leiknum þangað til á næsta ári eða skoða nánar samkeppnina?

Það er vonandi að Konami mæti enn sterkari til leiks á næsta ári og taki PES seríuna áfram í nýja átt svo að hún hreinlega verði ekki eftir enn og aftur í skugga FIFA leikjanna.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑