Leikjarýni

Birt þann 2. nóvember, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fjölbreyttur fótbolti í FIFA 20

Fjölbreyttur fótbolti í FIFA 20 Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Leikur sem fótboltaáhugamenn og spilarar ættu alls ekki að láta framhjá sér fara.

4

Mjög góður


Nýr FIFA fótboltaleikur er árlegur viðburður og kom sá nýjasti FIFA 20 í verslanir í seinasta mánuði. Nýi leikurinn býður upp á fjölbreyttan fótbolta, allt frá suður-amerískum götubolta yfir í stórleiki meistaradeilda. 

Fókusinn í FIFA hefur lengi vel verið að bjóða upp á skemmtilega spilun sem er á sama tíma sem næst raunveruleikanum. Tæknin þróast á milli ára og býður sífellt upp á fleiri og flóknari möguleika; snúningsbolta, tæklingar, snertingar og fleira. Sjaldan sjást stórar breytingar milli ára á FIFA-leikjum þar sem mikil áhersla er á fínpússun þar sem litlum hlutum er breytt og öðru bætt við, en beinagrind leiksins helst að mestu óbreytt.

Það finnst og sést að FIFA 20 er sá nýjasti í seríunni, leikurinn er vel pússaður og spilunin góð, leikmannadeildir uppfærðar og útlit leikmanna raunverulegra. Íslenska karlalandsliðið er enn í leiknum en liðið birtist fyrst í FIFA 18 eftir eftirminnilega frammistöðu í EM og HM. Flesta leikmenn er hægt að þekkja á útlitinu en til dæmis er Hannes Þór markvörður ekkert voðalega líkur sjálfum sér, líkt og í FIFA 18.

Fjölbreyttnin er það sem gerir FIFA 20 svo skemmtilegan.

Spilun leiksins er fínpússaðri útgáfa þess sem við þekkjum úr fyrri FIFA leikjum. Það er auðvelt að hoppa beint í leik eða að taka sér tíma til að fara í flóknari nálgun. Fjölbreyttnin er það sem gerir FIFA 20 svo skemmtilegan. Hægt er að spila hefðbundna staka stórleiki á frægum fótboltavöllum, götubolta (líkt og í FIFA Street) um allan heim, kvennabolta, karlabolta og sem stjórnandi þar sem áhersla er meðal annars lögð á að kaupa og selja leikmenn.

Undanfarin ár hafa FIFA leikirnir boðið upp á söguþráð þar sem spilarinn fylgir persónunni Alex Hunt í gegnum ákvarðanir sínar og spilar leiki sem hafa áhrif á frammistöðu og framtíð sögupersónunnar. Að þessu sinni er söguhlutinn alveg ferskur og gerist á götunni þar sem götuboltinn ræður ríkjum og er ekki sama nálgun og á stóru völlunum. Spilarinn fær að búa til sína eigin persónu sem gerir söguna persónulegri og er útkoman góð og skemmtileg tilbreyting frá söguþræði Alex Hunts.

Leikurinn hefur ekki verið gallalaus en það eru nokkur tæknileg atriði sem hafa hrjáð leikinn, þó ekkert sem hefur bein áhrif á upplifun leiksins. Í mínu tilfelli var stærsti gallinn sá að leikurinn hreinlega vildi ekki starta sér og tók hátt í 1-2 klukkutíma í að útiloka alla möguleika sem gætu verið að trufla leikinn. Ekkert virtist virka en leikurinn virkaði skyndilega mjög vel daginn eftir. Ekki spyrja mig af hverju. Önnur tæknileg atriði eru minniháttar en eru þó til staðar; einstaka hökt og truflanir í hreyfingum leikmanna þegar þeir fagna eftir að hafa skorað mark og ég hef tvisvar lent í því að stuðningsmenn í stúkunni halda á hvítum fánum, en þá virðist leikurinn ekki finna réttu myndina (texture) til að setja á fánana svo þeir birtast allir sem tómir hvítir friðarfánar.

Á heildina litið ættu fótboltaáhugamenn og spilarar alls ekki að láta FIFA 20 framhjá sér fara. Þarna er að finna öll helstu fótboltaliðin og stjörnurnar. Leikurinn er skemmtilegastur þegar spilað er á móti öðrum í gegnum netið eða með eða á móti vini í sófanum.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑