Leikjarýni

Birt þann 17. október, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

FIFA 22 kemur lítið á óvart

FIFA 22 kemur lítið á óvart Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Á heildina litið er þetta góður fótboltaleikur en skortir nýjunga sem gerir upplifunina ferska og áhugaverða.

3.5

Góður


FIFA fótboltaleikurinn kemur árlega út og nú í byrjun október kom sá nýjasti, FIFA 22, í verslanir. Leikirnar hafa yfirleitt náð að standast væntingar FIFA spilara og þannig náð að gera flesta ánægða – en þó aldrei alla. Í ár er engin breyting þar á. Leikurinn býður upp á fjölbreytta spilun þar sem flestir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi; FUT fyrir þá sem vilja setja saman sitt eigið lið, Career Mode fyrir þá sem vilja stjórna fótboltaliði eða rísa á toppinn sem fótboltastjarna í Player Career, Volta fyrir þá sem vilja spila götubolta og fíluðu FIFA Street og svo býður leikurinn einnig upp á fjölda leiða til að spila staka leiki gegn tölvuandstæðingi, félaga í sófanum eða í gegnum netið.

Eitt af því sem EA, tölvuleikjafyrirtækið sem annast gerð og útgáfu leiksins, hefur hreykt sér af í auglýsingum sínum fyrir FIFA 22 í ár er notkun á svokallaðri Hypermotion-tækni. Með tækninni hefur fyrirtækið náð að kortleggja hreyfingar atvinnumanna í fótbolta á nákvæmari hátt en áður og á útkoman að skila mýkri og raunverulegri hreyfingum leikmanna í leiknum. Til að fá þessi gögn í hendurnar fékk EA leikmenn til að spila 11 á móti 11 fótbolta á raunverulegum fótboltavelli og notaði hreyfiföngunartækni, skynjara og gervigreind til að púsla gögnunum saman. Hypermotion-tæknin fær aðeins að njóta sín í nýju leikjatölvunum (PS5, Xbox Seris X|S eða Google Stadia), eldri leikjatölvur eða PC fá því miður ekki útgáfu af leiknum sem styðst við þessa tækni. Útkoman er góð og skilar tæknin sínu en þó ekki þannig að um stóra byltingu sé um að ræða.

Hypermotion-tæknin fær aðeins að njóta sín í nýju leikjatölvunum (PS5, Xbox Seris X|S eða Google Stadia), eldri leikjatölvur eða PC fá því miður ekki útgáfu af leiknum sem styðst við þessa tækni. Útkoman er góð og skilar tæknin sínu en þó ekki þannig að um stóra byltingu sé um að ræða.

Fjölmargir hafa gagnrýnt hegðun markmanna í fótboltaleikjum og virðist vera töluvert flóknara að ná þeim vel en öðrum leikmönnum á vellinum. Markmaðurinn í FIFA 22 á sína hápunkta og lágpunkta, í sama leik getur hann náð að verja hin ótrúlegustu skot en korteri síðan læðist boltinn óþægilega asnalega framhjá honum. Eflaust mun hegðun markmannsins og annara leikmanna breytast með tímanum þar sem leikurinn er uppfærður með reglulegu millibili og sífellt verið að fínpússa hreyfingar og hegðun leikmanna.

Leikurinn stenst væntingar hins hefðbundna FIFA spilara en kemur lítið á óvart …

Á heildina litið er þetta góður fótboltaleikur. Það getur verið heldur flókið að gefa leik á borð við FIFA einkunn þar sem markmiðið er einfaldlega að herma eftir fótboltaleik eins vel og hægt er en á sama tíma bjóða upp á vel smurða spilun. Leikurinn stenst væntingar hins hefðbundna FIFA spilara en kemur lítið á óvart og skortir nýjunga sem gerir upplifunina ferska og áhugaverða. Einnig er að finna eitthvað af tæknilegum atriðum sem þarf að skoða betur, eins og til dæmis frammistöðu markmanna.

Nánar er fjallað um FIFA 22 í Leikjavarpinu, þætti 30.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑