Leikjarýni

Birt þann 3. nóvember, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Besti FM hingað til

Besti FM hingað til Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: FM 24 er vel heppnuð lok á 20 ára tímabili og lofar góðu upp á framtíðina

4,5

Einn leik enn!


Football Manager leikjaserían er fótboltaunnendum vel kunnug og er FM 24 sá tuttugasti frá  Sports Interactive síðan að Championship Manager serían leið undir lok.

Við hjá Nördinum höfum fjallað um leikina síðustu árin, bæði á PC og síðan leikjavélum Microsoft og Sony. Hérna má lesa okkar umfjallanir um þá leiki FM19 FM21 Xbox Edition FM22 FM23 og FM23 console

Hvað er nýtt í FM 24?

Hegðun, kaup og sölur leikmanna ásamt breytingu á spilun eins og aukaspyrnur og horn er það helsta sem stendur upp úr þetta árið. Hægt er að halda áfram með FM 23 vistun í FM 24 og síðan að Japönsku deildirnar bætast við í fyrsta sinn.

Það fyrsta sem fólk tekur eftir þegar nýr leikur er byrjaður er að nú er hægt að velja á milli þriggja möguleika

  • Original er það sem fólk er vant, öll kaup og sölur leikmanna hafa átt sér stað í upphafi tímabils, jafnvel þó að þau eigi sér stað nokkrum vikum eða mánuðum eftir að nýtt fótbolta tímabil byrjar.
  • Real World endurspeglar í hvaða liði leikmenn eru í raunveruleikanum og ef þeir skipta um lið þá er það uppfært í leiknum.. Fjárhagur liðanna og hvað þau geta eytt uppfærist einnig.
  • Your World þá eru bara þeir leikmenn sem voru hjá liðinu fyrir byrjun tímabilsins til staðar. Þetta gefur leikmönnum möguleikann að endurskapa tímabilið og eyða peningum liðsins betur en þáverandi stjóri gerði.

Þessi breyting býður upp á að gjörbreyta tímabilinu fyrir mörg lið, með að selja ekki vissa leikmenn eða kaupa ekki aðra sem þér líst ekki á eða henta ekki leikstíl þínum. Tilkoma Sádí-rabísku fótboltaklúbbanna og nær ótakmarkað peningaflæði þeirra hefur einnig gríðarleg áhrif á leikinn. Alveg eins og hefur sést síðustu mánuðina þar sem mörg af stærstu nöfnum fótboltaheimsins hafa fært sig yfir á stjarnfræðilegum launum. Þetta er auðvitað tvíeggja sverð fyrir liðin í leiknum þar sem þetta getur gefið þér tækifæri að losna við gamla stjörnu liðsins á háum launum fyrir metfé, en á sama tíma er nær ógerlegt fyrir flest lið að keppa við launin sem eru í boði í Sádí-Arabíu.

Fjármál liða hafa verið uppfærð og hvernig þau þurfa að uppfylla vissar fjármálareglur. Þetta er gert til að gera þetta aðeins raunverulegra, og já Man City og PSG eru ennþá kjánalega rík en þurfa að fylgja reglunum betur en virðist vera í raunveruleikanum.

Milliliðir eru ein af stærri nýjungunum í FM 24. Það getur stundum oft verið ergjandi að reyna að losna við vissa leikmenn og reyna að bjóða þá út til annarra liða. Nú er hægt að ráða millilið sem tekur vissa prósentu af kaupunum fyrir sinn snúð og hjálpar til að vekja athygli á leikmanninum og miðla til um sölu þeirra. Það er einnig hægt að spyrja umboðsmann leikmannsins um áhuga á honum frá öðrum liðum.

Þjálfarar og annað starfsfólk eru með tölfræði og getu sem breytist með tímanum eins og gerist með leikmenn. Möguleikinn að geta ráðið ákveðinn  þjálfara sem einblínir á aukaspyrnur og horn liðsins er mikil breyting og eitthvað sem hefur verið óskað eftir í mörg ár af þeim sem spila reglulega FM leikina. Það er hægt að sérsníða sitt eigið kerfi fyrir liðið eða treysta á þjálfarana að mæla með hvað hentar best.

Nú er hægt að setja leikmönnum, sem annað hvort eru ekki að spila undir væntingum eða eru lánaðir  til annarra liða, takmörk til að ná. Takmarkið getur verið það að ná vissri tölfræði í markvörslu, mörkum, stoðsendingum, meðal tölfræði (average rating) o.s.frv.. Þetta getur hjálpað að rífa framherja í gang sem gengur illa að skora mörk, eða ungan lánsmann að velgengni hans á láni hjá öðru liði, muni mögulega skila sér í sæti í þínu liðinu á næsta tímabili.

Gervigreind tölvugerðu andstæðinganna hefur verið slípuð til og nú er hún  líklegri t.d að velja ungstirni í liðið en áður þar sem núverandi hæfileiki var ekki nógu hár, í stað þess að skoða einnig hve möguleg geta getur orðið að í framtíðinni samkvæmt leiknum. Rótering á leikmönnum er nú raunverulegri og tekur meira tillit til þeirra leikja sem eru framundan sem minnkar líkurnar að liðin ofkeyri stjörnurnar sínar í leikjum sem skipta minna máli eða gegn veikari andstæðingum.

Landsliðin og National Pool (þeir sem geta spilað fyrir landsliðið), leikmanna hefur verið uppfærður og hjálpar það upprennandi landsliðsþjálfurunum að finna bestu nýju leikmennina til að kalla upp til að spila fyrir landið sitt.

Hreyfingar leikmanna og endurbætt grafík

Hvernig leikmenn hreyfa sig á vellinum með og án boltans hefur verið endurbætt, einnig hefur hvernig boltinn sjálfur hagar sér verið slípað til. Með þessu verða mörkin eða skotin framhjá raunverulegri að sjá í þrívíddar grafíkvél leiksins. Lýsing leiksins á leikvöngunum hefur verið bætt og hjálpar þetta til að skapa betra andrúmsloft.

Inverted Full backs er nýtt í ár, gott dæmi er leikmaður eins og Kyle Walker hjá Man City. Leikmaður sem lagar sig að hvort að liðið er í sókn með boltann eða þarf að verjast andstæðingunum.

Er eitthvað varið í FM24?

Fyrir þá sem hafa spilað CM eða FM áður þá er auðvelt að mæla með þessum leik og ég hef sökkt í yfir 130 tíma í Early Access útgáfu leiksins síðustu 2 vikur og mun klárlega bæta ófáum tímum við þessa útgáfu. Viðbótin að geta valið ólíka byrjun á leiknum mun hjálpa mikið við að búa til skemmtilegar tilraunir með hin ýmsu lið, breytingarnar og endurbætur eru margar smærri í sniðum en hjálpa til að gera þetta einn af bestu Football Manager leikjum síðustu ára.

Helstu gallarnir þetta árið sem  verða örugglega lagaðir fljótlega, er að leikmenn eiga til að verða of fúlir alltof snemma og það er aðeins of mikið um meiðsli, sérstaklega hjá markmönnum.

Fjölspilun leiksins með Rivals, Create-a-Club, Online Career og Fantasy Draft veldur því að það skortir ekki hluti til að gera. Þessari seríu verður seint ruglað saman við FIFA/EA FC leikina en það verður samt spennandi að sjá FM 25 á næsta ári. SI Games og útgefandin SEGA hafa sagt að sú útgáfa verði stærsta breytingin á seríunni í langan tíma og mun Unity grafíkvélin keyra þá útgáfu í stað þeirrar sem SI Games bjuggu til sjálfir og hefur keyrt alla leikina þeirra. Þetta verða kaflaskipti eftir 20 ár og stærsta stökk leikjanna síðan að 3D grafíkvélin var kynnt til leiks í FM 09. Þetta á að hjálpa til með að keyra leikinn á PC og leikjavélunum ásamt að hjálpa til með viðmót leikjanna, grafík, útlit leikmanna og margt meira. Stærri viðbót en Unity að mínu mati er að kvennafótboltinn er loksins að mæta á völlinn í FM 25.

Svo það er ekki til betri leið að ljúka þessum 20 ára kafla leikjanna með FM 24 og undirbúa framtíð seríunnar á næsta ári. FM 24 er virkilega vel heppnuð útgáfa og ætti að gleðja flesta næstu mánuði og fram að útgáfu næsta leiks. Ef þið hafið mig afsakið, ég þarf að undirbúa nýtt „save“ með uppáhalds litla liðinu mínu Bromley F.C.

Leikurinn verður fáanlegur í mismunandi útgáfum þann 6. nóvember á PC, Mac, Linux, Apple Arcade (fyrir áskrifendur), PS5, Xbox One og Mobile útgáfan er í boði fyrir Netflix áskrifendur þetta ári. Hægt verður að spila FM 24 í gegnum Game Pass þjónustu Microsoft á PC og Xbox.

Eintak var í boði útgefanda

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑