Greinar

Birt þann 8. febrúar, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

PS4 partýleikir sem allir geta spilað

Það er alltaf gaman að geta skellt góðum partýleik í gang þegar vinahópur kemur saman. Úrval partýleikja í PS4 er nokkuð gott en mætti þó vera aðeins betra. Sony er þó að reyna að bjóða upp á fjölbreyttara úrval slíkra leikja undir nafninu PlayLink. Hér er lisi yfir nokkra partýleiki sem eiga það allir sameiginlegt að vera auðveldir í spilun (svo allir geti tekið þátt – líka þeir sem spila vanalega ekki tölvuleiki), eru stuttir í spilun og leyfa fleiri en þrjá spilara.

OVERCOOKED

… allt það besta sem kasúal samvinnuleikur getur mögulega boðið upp á.

Án efa besti leikurinn á þessum lista! Þennan verðið þið að prófa! Overcooked er 1 til 4 manna samvinnuleikur þar sem spilarar vinna saman að því að elda mat og bera hann fram. Hópurinn þarf að skipta með sér verkum; taka við pöntunum, undirbúa matinn, elda matinn, setja matinn á disk, bera diskinn fram og þrífa óhreina diska. Auk þess koma stundum upp óvænt atriði, eins og borðið fer að hreyfast til og frá, eða eldur fer að breiðast út. Borðin í leiknum eru þannig sett upp að samvinnan þarf að vera í lagi og er nauðsynlegt að leikmenn tali vel saman til að skipuleggja sig sem best og undirbúa. Leikurinn er klárlega skemmtilegastur í 4 manna spilun, en einnig í 2 og 3 manna. Undirbúið ykkur undir gól og garg og skemmtilega stressandi samvinnuleik sem nær að kalla fram allt það besta sem kasúal samvinnuleikur getur mögulega boðið upp á.

SKOÐA SÝNISHORN Á YOUTUBE

JACKBOX PARTYPACK 1-4

… partýpakkar frá Jackbox sem bjóða upp á nokkra stutta partýleiki.

Til eru fjórir mismunandi partýpakkar frá Jackbox sem bjóða upp á nokkra stutta partýleiki. Leikirnir eru misgóðir en hver pakki inniheldur eitthvað gott (Drawful teiknileikurinn er sérlega skemmtilegur). Best er að prófa einn lotu í hverjum leik til að fá tilfinningu fyrir úrvalinu. Það er mjög auðvelt að spila leikina þar sem spilarar nota símana sína (eða spjaldtölvu eða tölvu) sem fjarstýringu og nota tækið sitt sem teikniborð, til að svara spurningum í leiknum, greiða atkvæði og fleira. Óþarfi er að sækja app til að spila leikinn þar sem spilarar slá einfaldlega inn vefslóð í símann til að tengjast leiknum. Misjafnt er milli leikja hve margir geta tekið þátt en margir leikir leyfa allt að 8 spilara og sumir leikir enn fleiri.

SKOÐA SÝNISHORN ÚR PAKKA 4 Á YOUTUBE

YAMAYAMA

Skemmtilegur og fjölbreyttur leikur með eftirminnilega grafík.

YamaYama er partýleikur frá íslenska leikjafyrirtækinu Lumenox Games með súrealísku þema. Hver keppandi stjórnar sínum karakter og á að komast í gegnum nokkra míní-leiki sem ganga út á að safna sem flestum stigum. Þitt helsta vopn í leiknum er „fat-suit“ sem er búningur sem karakterinn þinn er klæddur og getur blásið upp og hrint öðrum leikmönnum til og frá. Í einu borðinu eiga leikmenn að synda á móti straumnum og forðast sprengjur, og um leið reyna að hrinda andstæðingum sínum í átt að þeim. Í öðru borði eiga leikmenn að halda sér inn á tilteknu svæði í borðinu í ákveðinn tíma á meðan aðrir leikmenn geta truflað þig. Skemmtilegur og fjölbreyttur leikur með eftirminnilega grafík.

SKOÐA SÝNISHORN Á YOUTUBE

THAT’S YOU!

… vel heppnaður og fallega uppsettur spurningaleikur sem gengur út á að þekkja andstæðingana þína.

Einn af PlayLink leikjunum sem eru fáanlegir á PlayStation 4 er That’s You! sem er virkilega vandaður og fallega uppsettur spurningaleikur sem gengur út á að þekkja þína andstæðinga. Hver af ykkur er líklegastur til að fá sér tattú? Eða hver er trúðurinn í hópnum? Leikurinn er mjög flottar miðað við spurningaleik og sömuleiðis heldur rólegur. Flestir aldurshópar eiga að geta haft gaman af þessum. Þessi leikur hentar þó illa í hópa þar sem fólkið þekkist lítið. Til að spila leikinn er nauðsynlegt að ná í sérstakt app í símann og nota leikmenn símann til að svara spurningum í leiknum.

SKOÐA SÝNISHORN Á YOUTUBE

JUST DANCE

Dansleikurinn Just Dance er kannski ekki fyrir alla en hann er klárlega eitthvað fyrir þá sem vilja hreyfa sig.

Dansleikurinn Just Dance er kannski ekki fyrir alla en hann er klárlega eitthvað fyrir þá sem vilja hreyfa sig. Leikurinn er jafn auðveldur í spilun og gamli góði SingStar. Plug and play. Þú kveikir á leiknum, velur þér lag til að dansa við, stillir þér fyrir framan skjáinn og búmm! Dansar af þér rassinn. Allt að fjórir geta dansað á sama tíma og auk þess getur fimmta manneskjan sungið lagið sem dansað er við (stundum hægt að græða aukastig út á sönginn og fylgir texti þá með laginu). Til að skynja hreyfingarnar er nauðsynlegt að a) sækja sér app í símann og halda á honum meða dansað er, b) nota PlayStation Move eða c) nota PlayStation Camera. Eftir að hafa prófað allar leiðir virðist Move vera nákvæmasta leiðin, en PlayStation Camera hentar partýinu lang best (engar snúrur og tæki!), svo framarlega sem að góð lýsing er til staðar. Þá þurfa spilarar ekki að halda á neinum skynjara heldur dansa bara fyrir framan sjónvarpið.

SKOÐA SÝNISHORN ÚR JUST DANCE 2018 Á YOUTUBE

KNOWLEDGE IS POWER

Leikurinn er flottur fyrir spurningarleik en verður nokkuð fljótt þreyttur.

Þessi er svolítið froðukenndur, en þó þess virði að kíkja í og hentar vel í partýið þegar það er í fyrsta eða öðrum gír. Þetta er PlayLink spurningaleikur sem hittir misvel í mark með spurningunum sínum. Leikurinn er flottur fyrir spurningarleik en verður nokkuð fljótt þreyttur. Það líður stundum heldur langt á milli spurninga svo hér þarf stundum að sýna smá þolinmæði og fylgjast með – eitthvað sem hentar partýum misvel. Samt sem áður þess virði að kíkja á og spila tvær eða þrjár lotur áður, en eftir það verður hann frekar þreyttur. Svolítið Buzz-legur. Líklega hægasti partýleikurinn á þessum lista. Til að spila leikinn er nauðsynlegt að ná í sérstakt app í símann og nota leikmenn símann til að svara spurningum í leiknum.

SKOÐA SÝNISHORN Á YOUTUBE

PUSH ME PULL YOU

Leikurinn bíður upp á frekar stutt gaman, en á meðan gamaninu stendur er hann stórkostlega skemmtilegur.

Þessi er áhugverður! Öðruvísi partýleikur þar sem 2-4 spilarar geta spilað á móti hvort öðru. Í leiknum stjórnar hvert lið einum… mann-ormi? Ef tveir eru saman í liði stýra þeir sitthvorum enda ormsins sem getur  flækt málin, þó á skemmtilegan hátt. Í borðinu glíma sumsé tveir mann-ormar á móti hvort öðru og keppast um að halda boltanum, andstæðingurinn reynir sömuleiðis að ná boltanum og notar orma-líkama sinn til að ýta hinum frá. Ég veit, þetta hljómar einstaklega furðulega! Leikurinn bíður upp á frekar stutt gaman, en á meðan gamaninu stendur er hann stórkostlega skemmtilegur. Spilun leiksins er frekar einhæf en hugmyndin mjög skemmtileg og frumleg. Varúð; möguleg uppskrift að martröð.

SKOÐA SÝNISHORN Á YOUTUBE

Forsíðumynd: Karakter úr YamaYama

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑