Greinar

Birt þann 19. apríl, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

0

Tölvuleikjaspilun og ábyrgð foreldra – Svar við pistli Óttars Guðmundssonar

Þann 8. apríl síðastliðinn birti Fréttablaðið og Vísir.is bakþanka eftir Óttar Guðmundsson geðlækni þar sem hann segir skoðun sína á tölvuleikjum, leikjaiðnaðinum og tölvuleikjaspilun ungra karlmanna. Hann er ekkert að skafa af því þegar hann lýsir áliti sínu á tölvuleikjum; þeir eru hættulegir og ræna unga karlmenn ævintýraþránni. Í pistlinum talar Óttar út frá eigin reynslu sem geðlæknir og segir meðal annars: „Í starfi mínu hef ég haft afskipti af fjölmörgum strákum sem voru algjörlega týndir í þessari furðuveröld [í tölvuleikjum]. Ungir menn sem áður vildu kanna heiminn og leita nýrra ævintýra, sitja nú bergnumdir fyrir framan tölvuskjáinn.“ Ég myndi einmitt segja að tölvuleikir gefi spilurum einstakt tækifæri til að komast í kynni við framandi ævintýraheima og nýjungar, þar er hægt að fljúga um ókannaða heima í geimskutlu eða þjálfa upp bardagakappa sem berst við tröll og dreka, en það er önnur saga. Í þessu svari mínu vil ég einblína á sjálfa tölvuleikjafíknina og þá sérstaklega ábyrgð foreldra í því samhengi.

Aftur á móti er fíknin undantekning. Lang flestir þeirra sem spila tölvuleiki verða ekki háðir þeim.

Tölvuleikjafíkn er vissulega raunverulegt vandamál og má segja að ákveðin vitundarvakning hafi átt sér stað um fíknina undanfarin ár. Tölvuleikjafíkn er gjarnan skilgreind sem ein af undirflokkum netfíknar þar sem tölvuleikjafíkn virðist fyrst og fremst tengjast spilun netleikja (fjölspilunarleikja). Aftur á móti er fíknin undantekning. Lang flestir þeirra sem spila tölvuleiki verða ekki háðir þeim. Nú er ég alls ekki að gera lítið úr vandanum heldur einfaldlega að benda á hve rangt er að dæma heilann iðnað og stóran hóp fólks út frá undantekningunum líkt og Óttar gerir.

Upplýsingar um tölvuleikjaspilara. Mynd tekin úr skýrslu ESA frá 2016.

Til að gefa skýrari mynd af því hverjir það eru sem spila tölvuleiki í dag er rétt að rýna ì rannsóknir og skýrslur frá ISFE (The Interactive Software Federation of Europe) og ESA (Entertainment Software Association). Þar kemur fram að í kringum 50% þeirra sem búa í hinum vestræna heimi spili tölvuleiki. Kynjahlutfall meðal tölvuleikjaspilara er nokkuð jafnt, þ.e.a.s. það eru álíka margir karlmenn og kvenmenn sem spila tölvuleiki. Meðalaldur tölvuleikjaspilarans er í kringum 30-35 ára og hefur hinn týpíski tölvuleikjaspilari spilað tölvuleiki í u.þ.b. 10 ár. Tölvuleikjaiðnaðurinn sinnir þar af leiðandi fjölbreyttum markaði, ekki eingöngu unglingsstrákum. Stór markhópur þeirra sem kaupa og spila tölvuleiki er fullorðið fólk. Til að mynda eru fleiri konur eldri en 18 ára sem spila tölvuleiki en strákar undir 18 ára aldri.

Það er siðferðisleg og lagaleg skylda foreldra að vernda börnin sín frá óæskilegu efni, eins og til dæmis ofbeldi og klámi.

Heilbrigður fullorðinn einstaklingur á að þekkja sín takmörk þegar kemur að tölvuleikjaspilun, netnotkun, samfélagsmiðlum og öðru. Í grein Óttars kennir hann tölvuleikjum og leikjaiðnaðinum um fíkn unglingsstráka og sleppir því alfarið að ræða ábyrgð foreldra og forráðamanna. Það er siðferðisleg og lagaleg skylda foreldra að vernda börnin sín frá óæskilegu efni, eins og til dæmis ofbeldi og klámi. Meiningin er ekki að henda allri ábyrgð tölvuleikjafíkla undir lögaldri yfir á foreldra, en hlutverk foreldra er mjög mikilvægt í þessu samhengi. Eru foreldrar meðvitaðir um hverskonar tölvuleiki barnið er að spila? Ef ekki – hvers vegna ekki? Og sömuleiðis, fær barnið að spila tölvuleiki hvenær sem er og eins lengi og það vill? Eða setja foreldrar ákveðnar reglur um takmarkanir? Tölvuleikjaflóran er afar fjölbreytt þar sem hægt er að finna allt frá fræðandi námsleikjum fyrir krakka yfir í blóðuga hryllingsleiki sem ætlaðir eru eldri spilurum. Sömuleiðis má ekki gleyma því að í netleikjum geta þátttakendur gjarnan tjáð sig með skilaboðum í opnu spjalli og þar af leiðandi eru margir netleikir bannaðir börnum þar sem spjallið í þeim er ekki alltaf síað og geta blótsyrði og athugasemdir sem ekki eru við hæfi barna verið hluti af því spjalli.

PEGI merkingar gefa upplýsingar um innihald tölvuleikja

Það getur vissulega verið tímafrek vinna fyrir foreldra að kynna sér alla þá leiki sem barnið er að spila. Þess vegna er kjörið að styðjast við PEGI (Pan European Game Information) flokkunarkerfið sem segir til um innihald leiksins; meðal annars hvort leikurinn innihaldi ofbeldi, nekt, blótsyrði eða netspilun og hvaða aldurshópi leikurinn er ætlaður. Hægt er að finna PEGI merkingar á leikjahulstrum og á heimasíðu PEGI þar sem hægt er að fletta upp leikjatitlum með einföldum hætti. Önnur góð, og jafnvel enn betri aðferð, er að sýna áhugamáli barnsins áhuga með því að spila tölvuleiki saman. Þannig ná foreldrar að kynna sér innihald tölvuleiksins og fá á sama tíma tækifæri til að verja tíma með barninu. Með því að fylgjast með því hvaða leiki barnið spilar og hve lengi það spilar tölvuleiki er auðveldara að grípa fyrr inní ef um fíkn er að ræða. Ef barnið fær tækifæri til að spila tölvuleiki í marga klukkutíma, dag eftir dag, án eftirlits eru afleiðingarnar alfarið á ábyrgð foreldra, ekki tölvuleikjafyrirtækja.

Ef barnið fær tækifæri til að spila tölvuleiki í marga klukkutíma, dag eftir dag, án eftirlits eru afleiðingarnar alfarið á ábyrgð foreldra, ekki tölvuleikjafyrirtækja.

Óttar heldur því einnig fram í pistlinum að leikjafyrirtæki framleiði ofbeldisfulla tölvuleiki sérstaklega með unglingsstráka í huga þar sem „Leikandinn tekur áhættu, drepur, nauðgar og stelur og kemur sér undan á hættulegum flótta.“ eins og Óttar orðar það. Sem betur fer get ég ekki nefnt einn vinsælan tölvuleik þar sem markmiðið er að nauðga (og ég hef spilað tölvuleiki í ansi mörg ár) en vissulega eru til fjölmargir leikir þar sem ofbeldi og þjófnaður spila stórt hlutverk. Líkt og í kvikmyndum. Og bókmenntum. Og tónlist. Og teiknimyndasögum. Og… já, þið skiljið væntanlega hvert ég er að fara með þetta. Tölvuleikir eru hluti af okkar menningu og endurspegla okkar samfélag, og öfugt. Tölvuleikjaflóran er fjölbreytt og fjölmargir tölvuleikjaflokkar fyrir utan skotleiki sem njóta mikilla vinsælda, og henta mögulega yngri spilurum. Meðal annars pallaleikir, þrautaleikir, íþróttaleikir, bílaleikir, ævintýraleikir, herkænskuleikir svo eitthvað sé nefnt.

Líkt og með kvikmyndir er ómögulegt er að tala um tölvuleiki sem einsleitann miðil. Tölvuleikir í dag eru svo ótrúlega fjölbreyttir. Fjölmargir tölvuleikir hafa náð miklum vinsældum þrátt fyrir að einblína ekki á ofbeldi eða glæpi. Þó svo að skotleikurinn Doom sé tölvuleikur líkt og Candy Crush, þá eiga tölvuleikirnir fátt annað sameiginlegt en að tilheyra sama miðli. Líkt og kvikmyndin Algjör Sveppi à ekki heima í sama flokki og Insidious hrollvekjan, eða Harry Potter bækurnar í sama flokki og Fifty Shades of Grey, þó hvoru tveggja séu bækur.

Forsíðumynd: Wikimedia Commons (Grumiauxl)

TENGT EFNI

Nörd Norðursins: Yellow, skjámenning og foreldrar
Nörd Norðursins: Tölvuleikir breyta þér ekki í skrímsli
Nörd Norðursins: Breivik og byssurnar
Stundin: Tölvuleikir eru ekki „verkfæri andskotans“
Kjarninn: Spilum saman!
SAFT.is – Samfélag, fjölskylda og tækni

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑