Menning

Birt þann 16. janúar, 2017 | Höfundur: Nörd Norðursins

Yellow, skjámenning og foreldrar

AÐSEND GREIN: HELGA DÍS ÍSFOLD,
DÓSENT Í VÍSINDA- OG TÆKNIFRÆÐI VIÐ NORD-HÁSKÓLANN Í NOREGI

helga

„Það er komið app sem virkar eins og Tinder fyrir krakka“ sagði 13 ára dóttir mín, með greinilega vanþóknun í röddinni. Þetta var það fyrsta sem ég heyrði um Yellow. Yellow er eins konar stefnumóta-app fyrir börn og unglinga, þó að það gefi sig út fyrir að vera „vina-app“ fyrir 17 ára og eldri. Ég ætla ekki að eyða tíma ykkar hér og nú í að útskýra hvers vegna ég tek ekki „vina-app“ yfirskynið alvarlega. Sjón er sögu ríkari. En ég get upplýst ykkur um að aldurstakmarkið er samt bara „tillaga“ enn sem komið er – og það tók mig í heild um 2 mínútur frá því að ég fór inn á Play Store og sótti appið og þar til ég var búin að skrá mig inn með fæðingarárið 2003 og farin að blaða í gegnum myndir af fettum og brettum unglingum. Appið er ekki nýtt, en það er í gríðarlegri uppsveiflu á Íslandi og í nágrannalöndunum akkúrat núna.

Reglurnar eru einfaldar – spurning hversu ýtarlega þeim er framfylgt?

Vegna starfs míns er ég stundum bókuð í skóla, á foreldrafundi og á fundi ýmiss konar faghópa, sem vilja fá innspil um hvað sé til ráða varðandi börn og skjánotkun. Það er rétt að taka það fram að ég veiti ráð út frá uppeldis- og menningarfræðilegum sjónarmiðum, fólk verður að sækja beina tæknilega aðstoð annað. Án þess að vilja alhæfa um væntingar alls þess frábæra fólks sem ég hef fengið að hitta á slíkum viðburðum, þá verður að segjast eins og er að það er ósjaldan búist við að ég staðfesti hinn illa orðróm um að skjánotkun skerði heilastarfssemi barna og ungmenna, ræni þau siðferðisvitund, stöðvi félagsþroska… hugsanlega allt ofangreint, eða jafnvel þaðan af verra. Þar stend ég því miður ekki undir væntingum. Stafrænir miðlar eru nefnilega heillandi viðfangsefni, yfirfullir af óendanlegum möguleikum. Við getum öll lært gríðarlega mikið í gegnum stafræna miðla, um umheiminn, okkur sjálf og aðra.

Stafrænir miðlar eru nefnilega heillandi viðfangsefni, yfirfullir af óendanlegum möguleikum. Við getum öll lært gríðarlega mikið í gegnum stafræna miðla, um umheiminn, okkur sjálf og aðra.

Þá er ég komin að erfiða partinum, bón minni til ykkar, foreldrar. Sem foreldri er ég sjálf meira en yfirþreytt á öllum bónunum, ráðleggingunum og hótununum sem dynja á okkur foreldrum úr ólíklegustu áttum. Við eigum að vera ströng en samt ekki ströng, bestu vinir þeirra en samt alls ekki vinir þeirra, vernda þau fyrir öllu illu en alls ekki ofvernda þau því þá verða þau aumingjar og… já, þið þekkið þetta. Listinn er endalaus. Þannig að já, ég hika áður en ég ber fram bón mína, en góðu fréttirnar eru að ég ætla ekki að skipta mér af uppeldinu að öðru leiti. Það eina sem ég ætla að biðja ykkur um er að setja ykkur inn í þeirra skjámenningarheim.

Það er á köflum ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í skjálífi barnanna, en ég viðurkenni alveg að það getur verið pínu þreytandi líka. Það getur tekið á þolinmæðina að blaða í gegnum filterflippið hjá Snapchat-nýgræðingunum þar til nýjabrumið fer af, það er auðvelt að fá á tilfinninguna að öll Musical.ly vídeó séu eins (ein löng handapatslangloka með stútvarir), jafnvel mestu harðjöxlum hættir við að svima á ferðalagi í gegnum hvern Minecraftheim afkvæmisins á fætur öðrum og ég viðurkenni að ég hef rosalega takmarkað úthald í Fifa. Þær fórnir sem hér þarf að færa eru samt svo örsmáar í samanburði við það sem við fáum í staðinn, ekki bara börnin, heldur líka við foreldrarnir.

Skjáheimurinn er kominn til að vera, þó að engin leið sé að vita hvernig hann kemur til að vera. Við getum valið að hunsa hann og ýmist banna allt sem auga á festir, eða leyfa allt sem auga á festir án ígrundunar, en með hvoru tveggja stimplum við okkur ákveðið og örugglega út úr mikilvægum hluta lífs barnanna okkar – og það á mikilvægum mótunarárum. Ekki nóg með það, heldur er skjáveröldin enn tiltölulega ný, hún er dýnamísk og í stöðugri þróun. Það er í senn spennandi og yfirþyrmandi, en umfram allt er það krefjandi viðfangsefni að fylgja litlu krílunum þar til þau eru orðin að þaulreyndum og ábyrgum netverjum.

Til eru fjölmörg öryggisatriði sem foreldrar geta sett sig inn í, filterar, lásar/lykilorð og annað slíkt til þess að barnið geti ekki stolist til að næla sér í öpp eða sörfa um óæskileg svæði án ykkar vitneskju, en það verður hver að meta fyrir sig. Til eru ótalmargar góðar greinar og netsvæði sem gefa greinagóðar leiðbeiningar þar að lútandi, sem ég hvet foreldra til að kynna sér. Mér er hins vegar meira umhugað um uppeldis- og félagslegu hliðina og hér eru nokkrir punktar, sem kunna að koma að gagni:


YouTube er ekki barnapía

Látið ung börn byrja hægt, þ.e.a.s. fyrst fá þau að leika í takmarkaðan tíma með vel valin öpp í ykkar tækjum – og þegar þau fá eigin tæki þá er nóg að byrja með 2 – 3 öpp og læra vel á þau fyrst.

Horfið á myndefni, þ.m.t. barnasjónvarp með börnunum – ekki endilega hvern einasta þátt frá upphafi til enda, en allavega nóg til að kynna ykkur höfuðinntakið. Ekki venja ung börn á að nota myndefni á bak við lokaðar dyr eða annars staðar þar sem þið sjáið ekki til.

Fyrir ykkur sem eigið börn sem eru ekki enn komin með síma; gerið þeim ljóst frá fyrsta degi að síminn sé ekki alfarið þeirra einkamál. Þá er ég ekki að segja að þau megi ekki á einhverjum tímapunkti, þegar þau hafa þroska til, eiga einkamál á símanum sínum. En ekkert 9 ára barn, til dæmis, á að vera með eitt einasta app eða inni á einni einustu síðu sem að foreldrar vita ekki um. Gerið börnunum ljóst (frá fyrsta degi ef þið eigið kost á) að þið hafið hugsað ykkur að taka þátt í þeim þætti lífs þeirra sem fram fer í gegnum skjá, ekki síður en öðrum.

Og þetta atriði sem ég tæpti á hér að ofan verðskuldar alveg að vera sjálfstæður punktur; ekki láta börnin fá leyfi til þess að hlaða niður neinum öppum án þinnar vitneskju. Gefðu þér 10 mínútur til þess að meta hvert app sem það biður um. Smá gúggl getur skilað ljómandi árangri.

Notið YouTube eða aðrar myndbandaveitur til þess að kynna ykkur hvernig ákveðin öpp/netsvæði eru notuð – þetta getur sérstaklega komið sér vel þegar þið eruð að vega og meta tölvuleiki.

Takmarkið fjölda fylgjenda fyrir byrjendur á samskiptaöppun á borð við Instagram og Snapchat. Til að byrja með er alveg nóg fyrir fáeinar móðursystur (eða aðra þolinmóða aðstandendur) að fylgjast með filteraflippinu. Farið vel í gegnum vinabeiðnir með þeim og kennið þeim að vega og meta. Því reyndara sem barnið verður á ferð sinni um netið, því meiri fjölda „vina“ ætti að það tækla.

Ég mæli eindregið með því að þið hlaðið sjálf niður einhverjum af þessum öppum/leikjum, til þess að fá allavega smá tilfinningu fyrir því um hvað málin snúast.

Það skiptir engu máli hversu mikið þú kannt sjálf/-ur í stafrænum kúnstum. Þú munt sennilega kunna meira en barnið um sumt og svo aftur minna um eitthvað annað – biddu barnið þá að leiða þig í gegnum appið, leikinn, síðuna eða það sem um ræðir. Það er meira að segja hægt að gera leik úr því.

Finnið gjarnan myndaflokka eða þáttaraðir sem þið hafið ánægju af að horfa á saman, gjarnan öll fjölskyldan – en ef það er erfitt að finna myndefni sem passar öllum barnahópnum, þá verðið þið skipta ykkur eitthvað, til dæmis eftir aldri.

Ræðið við þau um netsamskipti, ekki síst það sem fram fer skriflega.

Spyrjið opinna spurninga og veltið gjarnan fram hugsanlegum siðferðislegum álitamálum – forðist að predika.

Setjið mörk í kringum skjánotkun, gjarnan í samráði við krakkakrílið. Mörkin þurfa ekki endilega að vera þröng eða ströng, þið sníðið þau bara að því sem annars viðgengst á ykkar heimili. Hið mikilvæga í þessu sambandi er að barnið fái tilfinningu fyrir því annars vegar að skjár á ekki alltaf við og hins vegar að ekki eru allar stundir skjástundir.

Farið aldrei í síma barnanna ykkar án þeirra vitneskju.


Og fyrst ég er að skrifa – og fyrst þú ert búin(/-n) að lesa þetta langt, þá verð ég að koma því að, að enginn þekktur tölvuleikur er, einn og sér, fær um að gera barn ofbeldisfullt. Eða þunglynt. Eða félagslega heft – eða þar fram eftir götunum. Hins vegar hefur komið í ljós að börn sem búa við vanrækslu, eiga við andleg vandamál að stríða eða hafa orðið fyrir ofbeldi eða áföllum svo dæmi séu tekin, eru líklegri en önnur til þess að verða fyrir neikvæðum áhrifum af tölvuleikjum og öðrum félagsmótunaröflum. Lykilatriði hér eru því hóf og heilbrigð skynsemi– ásamt því að þekkja barnið sitt, taka þátt í lífi þess og hjálpa því að sníða sér stakk eftir vexti.

Og fyrst ég er að skrifa – og fyrst þú ert búin(/-n) að lesa þetta langt, þá verð ég að koma því að, að enginn þekktur tölvuleikur er, einn og sér, fær um að gera barn ofbeldisfullt. Eða þunglynt. Eða félagslega heft – eða þar fram eftir götunum.

Dóttir mín sem á heiðurinn af því að hafa upplýst mig um tilvist Yellow segist ekki hafa áhuga á að fá sér Yellow. Ef hún hefði áhuga, þá myndi ég sennilega leyfa henni það, þó að hún sé aðeins 13 ára og þó að ég sé full efasemda og gagnrýni. Þessa efablöndnu yfirlýsingu (um að ég myndi leyfa henni það) byggi ég á tvennu. Annað er hennar fyrri þekking og færni í skjáheimum. Ég hef séð hana vaxa og eflast frá því að hún fékk fyrst að byrja að fikta við skjá, ég hef á köflum séð hana tækla erfiðar umræður af ótrúlegum þroska og yfirvegun – auk þess sem hún oftar en einu sinni stuðlað að því að stoppa neteinelti með því að gera viðvart. Hitt er sú staðreynd að hún á mjög opin og gagnvirk samskipti við okkur foreldrana um það sem fram fer á skjáum hennar. Það væri engin leið fyrir mig að hindra að barnaníðingur setti sig í samband við hana sem „Emma, 14 ára“ (eða rosa sætur strákur á áþekkum aldrei, eða annað slíkt), en við myndum tækla það saman.

Samskiptamiðlar, öpp, tölvuleikir og annað sem birtist á skjáunum okkar geta verið gríðarlega skemmtileg fyrirbæri, þar sem vinátta blómstrar, þekking kraumar og sköpun grasserar. Eins og í öllu öðru skemmtilegu leynast einhverjar hættur og það er okkar að þekkja þær og kenna krílunum okkar að varast þær og kljást við þær áskoranir sem upp kunna að koma.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑