Greinar

Birt þann 7. júní, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Sex týpur Rocket League spilara

Ég hef spilað Rocket League grimmt undanfarna mánuði og hef spilað með og á móti alls konar spilurum. Yfir höfuð eru Rocket League spilarar í góðu jafnvægi og fer ekki mikið fyrir þeim, en reglulega lendir maður á… öðruvísi týpum. Hér er listi yfir sex týpur Rocket League spilara sem eru nokkuð áberandi í leiknum.

Jákvæði fyrirliðinn

Rocket_League_01b

Jákvæði fyrirliðinn er duglegur að skapa færi og skjóta á markið. Hann hikar ekki við að hrósa liðsfélögum sínum og fyrirgefur auðveldlega mistök annara. Þennan spilara vill maður hafa í liðinu sínu þar sem hann er duglegur að peppa upp liðsandann. Uppáhaldslínurnar hjá þessum eru: „I got it!“, „Wow!“, „Great shot“ og „Great pass“.

Leyniskyttan / markmaðurinn

Rocket_League_06

Markmaðurinn, eða leyniskyttan, heldur sig aftarlega á vellinum og bíður eftir rétta augnablikinu til að stinga sér inn og skjóta löngu skoti í átt að marki andstæðingsins. Þar sem leyniskyttan heldur sig aftarlega á vellinum til að hafa góða yfirsýn yfir það sem er að gerast hleypur hann einnig oft í markmannsstöðuna og ver markið þegar hitt liðið gerir skyndisókn.

Loftfimleikastjarnan

Rocket_League_03

Þessir tækla boltann í loftinu eins og fagmenn. Það tekur tíma að ná góðri stjórn í loftinu og frábært að vera með svona snillinga til að ná boltanum þar sem aðrir spilarar bíða á jörðinni eftir að boltinn lendi. Loftskot geta breytt leiknum hratt og breytt vörn snögglega í sókn. Þessar týpur eru að fíla Hoops viðbótina mjög vel.

Neikvæði spilarinn

Rocket_League_04

Þessi byrjar strax á því að dæma aðra liðsfélaga og vælir yfir því hversu ömurlegir og lélegir þeir eru. Að hans mati eru allir í liðinu núbbar, nema hann auðvitað. Þetta er bitur tilfinningavera sem hefur enga stjórn á skapi sínu og ælir neikvæðri orku yfir aðra. Í lok leiks kemur oft í ljós að þessi spilari er með fæst stig – og er í raun sjálfur lélegi spilarinn. Það þarf oft lítið til svo að þessi týpa gefist upp og hætti í leiknum. Algengar setningar hjá þessari týpu spilara eru; „$#@%!“ og aðrar sérhannað setningar á borð við „my team mate sux!“ og „n00b team“.

Tröllið

Rocket_League_05

Tröllið gerir ekki annað en skíta á aðra í spjallinu og tekur ekki beinan þátt í leiknum og fylgir ekki leikreglum. Til dæmis fer hann að gera eitthvað allt annað í ; lætur bílinn sinn liggja á hvolfi og snýr sér í hringi á miðjum velli, reynir að skora sjálfsmark eða klessa viljandi á liðsfélaga sína. Hann notar spjallið mikið og öskrar á athygli. Þessi fær mest út úr því þegar aðrir taka eftir honum og tala um hann, sama hvort það er á jákvæðu eða neikvæðu nótunum. Hér gildir klassíska internet-reglan; ekki gefa tröllinu að borða.

Uppvakningurinn

Rocket_League_02

Þessi gleymdi að slökkva á leiknum eða hefur hoppað frá leiknum. til að sinna öðrum verkefnum í raunheimum. Bíllinn hans er þarna – en hreyfist ekki. Engin viðbrögð. Þessum spilara er vanalega sparkað úr leiknum vegna þess að hann er óvirkur en einstaka sinnum gerist það að uppvakningurinn vaknar til lífsins og byrjar skyndilega að spila!

 

Kannast þú við þessar týpur?

Hvaða týpu finnst þér vanta á listann?

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑