Menning

Birt þann 5. júní, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Forsetaframbjóðendur taka á móti geimverum

Hvernig myndu forsetaframbjóðendur bregðast við óvæntri heimsókn frá geimverum sem myndu vilja lenda á Snæfellsjökli – og forsetinn einn hefði heimild til að veita slíkt leyfi? Hvernig myndu þeir meta áhættuna, án þess að vita hvort þær koma í friðsamlegum tilgangi eða ekki? Við sendum eftirfarandi fyrirspurn á forsetaframbjóðendur. Svör frambjóðenda eru birt fyrir neðan í handahófskenndri röð.

Árið er 2026. NASA og ESA hafa áreiðanlegar upplýsingar í höndunum um að geimskipafloti sé á leið til jarðar. Geimverurnar hafa sent frá sér skilaboð þar sem þær segjast vilja fá að lenda á Snæfellsjökli eftir 48 klukkutíma og hefur forseti Íslands einn heimild til að veita slíkt leyfi.

Ekkert er vitað um tilgang heimsóknarinnar, eða hvort geimverurnar komi í vinalegum eða fjandsamlegum tilgangi. Sumir fræðimenn segja að geimskipin séu vopnum búin og tilgangurinn sé augljóslega að ná völdum yfir jörðinni þar sem þeir munu sprengja þá sem á vegi þeirra verða, á meðan aðrir vilja meina að vopnin séu aðeins þarna svo geimverurnar geti varið sig gegn árásum frá mannfólkinu og að geimverurnar séu að öllum líkindum komnar hingað til að deila dýrmætri þekkingu með okkur.

Öll helstu stórríki hafa samþykkt að veita Íslandi alla þá aðstoð sem forseti Íslands óskar eftir, þar með talið aðgang að sérfræðingum, vopnum, her og tækjum.

Sem forseti Íslands, hver yrðu þín viðbrögð við þessum aðstæðum?
Hvað myndir þú gera til að verja hag Íslands, Íslendinga og jarðarbúa?

Forseti_blatt

Forseti_hallaHalla Tómasdóttir

Ég fagna fjölbreytni og myndi taka vel á móti geimverum. Ég myndi nálgast þær með varfærni en á góðan og manneskjulegan hátt. Ég myndi eflaust þiggja tækniaðstoð til að ná sambandi við þær til að reyna komast að ástæðunni fyrir komu þeirra áður en ég byði þær velkomnar.

„Komi upp sú staða að markmið þeirra sé að þurrka út mannfólkið þá tel ég að reynsla mín sem mannauðstjóri geti komið vel að notum.“

Komi upp sú staða að markmið þeirra sé að þurrka út mannfólkið þá tel ég að reynsla mín sem mannauðstjóri geti komið vel að notum. Ég hef leitt saman marga ólíka hópa og einstaklinga og fengið þá til að lifa og starfa í sátt og samlyndi og það yrði örugglegga engin breyting á því með geimverurnar. Ég myndi bjóða þeim á Bessastaði og saman myndum við setjast niður yfir kaffibolla og eiga samtal um framtíðina.

Forseti_graent

Forseti_elisabetElísabet Kristín Jökulsdóttir

Ég býst við að þar sem ég er sjálf geimvera og var send hingað í vinsamlegum tilgangi, það verður nú ljóst við þessa lendingu, og verður að hafa það, enda veit ég að þær komu í friðsamlegum tilgangi til að deila þekkingu. Og ég get semsagt veitt lendingarleyfi.

„Ég býst við að þar sem ég er sjálf geimvera og var send hingað í vinsamlegum tilgangi, það verður nú ljóst við þessa lendingu, …“

Þetta er eitt svarið. En svo er hitt. Hér um árið 5. nóvember var boðuð heimsókn af geimverum á Snæfellsjökul, fullt af fólki mætti á jökulinn til að hitta geimverurnar og þar var mikil stemmning í nokkra daga. En þær létu ekki sjá sig. Svo bar það til að 5. nóvember á Dröngum á Ströndum voru nokkrir útselsveiðimenn að slappa af eftir veiðidag þegar allt uppljómaðist og þeim sýndist skip vera komið uppí fjöruna, en hún er skerjótt svo enginn skip geta komist, en þeir misstu tímaskyn um stund. Kenning mín er sú að geimverum hafi þótt of mikil traffík á Snæfells og viljað lenda frekar á Ströndum. Það gæti gerst aftur núna 2026 og þá veit forsetinn hvar þær lenda.

Forseti_rautt

Andri Snær Magnason

Forset_AndriSnaerAð forsetinn geti einn veitt þetta leyfi hlýtur að byggja á drögum sem ég hef ekki enn séð í stjórnarskrá en ég væri hlynntur því að klausa af þessu tagi verði sett um leið og menn skerpa hlutverk forsetans. Þessi spurning er áhugaverðari en spurningin um „tösku Sigmundar“ sem má líkja við íslenska útgáfu af ketti Schrödingers. Var þingrof í töskunni eða ekki? Eða var hvort tveggja samtímis í töskunni? Í tilfelli Sigmundar hefði ég hringt í formenn þingflokkanna til að átta mig á hvort þingrof var í töskunni.

Í þessu tilfelli er aðeins um 48 tíma að ræða og því ekki til umræðu að boða þjóðaratkvæðagreiðslu, nema rafræn þjóðaratkvæði verði komin í gagnið. En komum okkur að efninu. Í þessu tilfelli myndi ég kalla til tvo ráðgjafa: Annars vegar Sævar Helga Bragason, sem ég geri ráð fyrir að ég muni hafa unnið talsvert með árið 2026 og hins vegar myndi ég kalla til mín stelpu sem er 10 ára í dag – en verður orðin mikill snillingur árið 2026. Hún mun læra eitthvað og skilja eitthvað sem er ekki til í dag – en verður til árið 2026 og hún verður með lykilinn að samskiptum við geimveruflotann. Síðan hugsar maður stöðuna: Ef þeir eru komnir hingað um ljósára veg – með allan þennan flota – þá hljóta þeir að hafa yfir að ráða tækni sem jafnast á við einhverskonar helstirni. Varla fara þeir að snúa við ef við skjótum á þá með okkar baunabyssum? Og ekki getur SpaceX með nokkra lúxusferðamenn úti í geimnum barist gegn þeim? Þannig að sá sem velur hernaðarleiðina myndi að öllum líkindum kalla yfir sig geisla frá Helstirninu eða væna dembu af kjarnorkusprengjum, banvænum sýklum eða öðrum fjára.

„Þannig að sá sem velur hernaðarleiðina myndi að öllum líkindum kalla yfir sig geisla frá Helstirninu eða væna dembu af kjarnorkusprengjum, banvænum sýklum eða öðrum fjára.“

Hin leiðin væri að biðja þá um að fara, segja þeim að við viljum vera í friði og að það sé hvort eð er ekkert hægt að læra af þeim. Og ef þeir myndu fara myndi það skilja eftir sig svo mikinn trega í sálum allra – hvað ef? Hvað voru þeir með í farteskinu? Þeir fóru – og þá voru þeir greinilega friðsamir. Þannig að ég gæti eiginlega ekki beðið þá um að fara. Mannkynið hefur alltaf viljað sjá hvað er handan við sjóndeildarhringinn, svo tekst það á við afleiðingarnar. Þannig að þetta er eflaust óhjákvæmilegt. Bjóða þeim að lenda.

Forseti_graent

Forseti_GudniThGuðni Th. Jóhannesson

Fyrst geimverurnar virðast það kurteisar að þær nánast biðja um lendingarleyfi og heimsækja herlausa þjóð virðist best að ætla að þær komi í friði, í það minnsta þar til annað kæmi í ljós. Leyfið verður því veitt enda erfitt að sjá að geimverurnar myndu einfaldlega hafa sig á brott þótt þeim yrði meinuð lending.

„Fyrst geimverurnar virðast það kurteisar að þær nánast biðja um lendingarleyfi og heimsækja herlausa þjóð virðist best að ætla að þær komi í friði, í það minnsta þar til annað kæmi í ljós.“

Næst myndi ég ávarpa þjóðina, biðja hana um að sýna stillingu og taka því sem að höndum kynni að bera. Síðan kæmi í ljós að gestirnir hefðu ekkert illt í hyggju, færðu okkur áður ókunna tækni, lækningar við sjúkdómum og færðu samfélag okkar til betri vegar. Snæfellsjökull hefði orðið fyrir valinu vegna þess að hann hefði verið lendingarstaður til forna og þar lægi leiðin til miðju jarðar eins og menn hefðu reyndar lengi vitað en haft í flimtingum síðustu aldir. Öll yrði heimsóknin því til góðs.

Forseti_blatt

Hildur Þórðardóttir

Forseti_hildurÉg mundi reikna með að hinir erlendu gestir komi í friðsamlegum tilgangi og bjóða þau velkomin. Það að þau biðji um leyfi til lendingar gefur til kynna að þau séu komin hingað til að starfa með okkur jarðarbúum og skiptast á þekkingu. Ef þau ætluðu að ráðast á okkur myndu þau ekki biðja um leyfi til lendingar. Þá myndi ég róa hræðsluraddir í landinu og hvetja til stillingar og yfirvegunar, því ótti skilar engu. Miklu betra er að sýna stillingu og taka því sem kemur. Þarna höfum við tækifæri til að opna hugann og læra af öðrum menningarheimum.

„Miklu betra er að sýna stillingu og taka því sem kemur. Þarna höfum við tækifæri til að opna hugann og læra af öðrum menningarheimum.“

Á sama tíma væri gífurlega mikilvægt að halda erlendum herjum í skefjun og róa erlenda ráðamenn, því margir ráðamenn láta stjórnast af ótta og eru í sífelldri vörn. Sumir leiðtogar trúa hins vegar á hið góða í öðrum og eru alltaf tilbúnir að miðla málum og rétta út sáttahönd. Ég tel að það væri ráðlegast að halda þessu smáu í sniði í þetta skiptið. Gestirnir eru að koma í fyrsta sinn í opinberum erindagjörðum. Þess vegna myndi ég forðast að bjóða erlendum leiðtogum eða öðrum útlendum gestum.

Ég mundi reyna að haga málum þannig að umferðaröngþveiti skapaðist ekki á Snæfellsnesi og benda landsmönnum á að ef að hinir erlendu gestir væru tilbúnir til myndum við standa fyrir fundum eða einhvers konar samskiptaleiðum þar sem við gætum haft opið samtal við þá. Þá myndi ég fara fram á að allri flugumferð verði haldið frá á svæðinu, því ekki viljum við styggja hina erlendu gesti. Fjölmiðlar fengju aðgang með þeim fyrirvara að fari eitthvað öðruvísi en ætlað var yrðu þeir að taka tillit til þess og hætta jafnvel útsendingum. Ætli ég myndi svo ekki bíða á Arnarstapa eða þar í kring til að sjá þegar gestirnir kæmu og nálgast svo þegar ljóst er hvernig þetta lítur út.

Ef gestirnir eru þroskaðri en við gætum við haft samskipti með hugsanaflutningi svo það þarf enga túlka eða tæki til að skilja hvert annað. En það væri gaman að sjá hvernig þeirra veröld er og eflaust mikið sem við gætum lært af þeim. Mér finndist gleðilegt ef þetta myndi gerast einhvern daginn.

Forseti_rautt

Forseti_SturlaSturla Jónsson

Þetta eru óþekktar aðstæður fyrir mér sem forseta, þannig að ég get lítið sagt um þetta annað en að það yrði að bregðast við eins og hægt væri á hverjum tíma.

Forseti_graent

Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson og Guðrún Margrét Pálsdóttir kusu að svara ekki fyrirspurninni.

 

Hvaða frambjóðandi er með besta svarið?

  • Andri Snær Magnason (41%, 60 Votes)
  • Guðni Th. Jóhannesson (25%, 36 Votes)
  • Elísabet Kristín Jökulsdóttir (12%, 18 Votes)
  • Halla Tómasdóttir (9%, 13 Votes)
  • Sturla Jónsson (9%, 13 Votes)
  • Hildur Þórðardóttir (4%, 6 Votes)

Total Voters: 146

Loading ... Loading ...

 

Tengt efni: Árið 2012 spurðum við forsetaframbjóðendur hvernig þeir myndu bregðast við uppvakningaárásum á Íslandi. Einn þeirra þekkir víst tíbetskan munk sem kann á uppvakninga – hægt er að lesa svör forsetaframbjóðenda frá 2012 hér.

Mynd: Mars Attacks!

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑