Fréttir

Birt þann 3. maí, 2016 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

This War of Mine borðspil væntanlegt á Kickstarter

Árið 2014 kom út lítill indie tölvuleikur að nafni This War of Mine á Steam. Leikurinn naut gríðarlega vinsælda og nældi sér í þónokkur verðlaun.

Leikurinn er byggður á raunverulegum atburðum eða nánar tiltekið í Bosníu stríðinu í kringum 1990 í borginni Sarajevo. Í stað þess að spilarinn spili hermann sem tekur þátt í stríðinu stjórnar hann óbreyttum borgurum sem hafa holað sig saman í niðurníddu húsi og þurfa að vinna saman til að lifa af kaldan veturinn og þar til að vopnahlé næst.

Leikurinn setur þig í þær ömurlegu aðstæður sem fórnarlömb stríðs þurfa að kljást við.

Ég spilaði þennann leik og aldrei hefur mér liðið eins vel að klára einn tölvuleik einsog mér leið ömurlega við að spila hann. Leikurinn setur þig í þær ömurlegu aðstæður sem fórnarlömb stríðs þurfa að kljást við. Þú þarft að velja á milli þess hverjir fá að borða, hver verður heima að verja húsnæðið og byrgja það upp og hvern ætlar þú að senda út til að hætta lífi sínu í skjóli myrkurs til þess að safna vistum, vopnum og ýmsu skrani, til þess eins að reyna lifa af einn dag í viðbót!

Stríð er helvíti og þessi leikur kemur þeim skilaboðum algjörlega til skila.

This_war_of_mine_spil_01

Þrátt fyrir þetta varð ég mjög spenntur þegar ég rakst á grein þar sem frumtýpa af borðspili byggt á fyrrnefnudum leik var til sýnis á PAX East sem var haldið núna fyrir tveimur vikum síðan.

This War of Mine borðspilið er samvinnuspil fyrir 1-6 leikmenn sem rétt einsog í tölvuleiknum þurfa að lifa af í stríðshrjáðu svæði. Spilinu er skipt í tvö stig: Dag og Nótt. Á daginn eru leikmenn að safna styrk með því að hvílast, borða, byrgja upp húsið og leggja á ráðin hver gerir hvað þegar kemur að nóttu.

Leikmenn þurfa að kljást við ýmisskonar hættur svo sem aðra óbreytta borgara, leyniskyttur og þjófagengi. Spilið virðist vera undir miklum áhrifum frá Dead of Winter og Robinson Crusoe þar sem mikil og rík áhersla er lögð á sögu og upplifun spilara. Notastst er við „Scripts“ gangverk sem svipar, að því er virðist, til crossroads spilana í DoW og Sögubókarinnar í Tales of Arabian Nights eða Betrayal at House on the Hill.

This_war_of_mine_02

Kickstarter söfnun mun hefjast þann 10. maí og verður að teljast ansi líklegt að ég komi til með að grýta peningum í áttina að skjánum mínum þegar sú söfnun fer af stað.

Ef þú hefur ekki spilað This War of Mine tölvuleikinn þá mæli ég hiklaust með því. Fyrir þau ykkar sem hafa nú þegar prófað leikinn hversu spennt eru þið fyrir þessu spili? Endilega látið skoðun ykkar í ljós.

Að lokum er svo myndband af teaser sem sýnir enn betur hverju spilarar eiga von á:

Myndir: BoardGameGeek og This War of Mine the Board Game á Facebook

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑