Leikjarýni

Birt þann 5. apríl, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjaumfjöllun: Day of the Tentacle Remastered

Árið 1993 kom út stórmerkilegur leikur með nafnið Day of the Tentacle. Þessi leikur var gefinn út af LucasArts og náði þó nokkrum vinsældum. Núna er búið að endurútgefa leikinn og var það fyrirtækið Double Fine sem tók það að sér. Þeir fóru í gegnum gríðarmikið ferli til að fegra þennan æðislega leik til að við gætum spilað leikinn í háskerpu og með hágæða hljóði.

Leikurinn byrjar á því að Purple Tentacle ætlar að fá sér að drekka úr læk til að svala þorsta sínum. Hann veit ekki að verið er að dæla eiturefnum í lækinn og hann stökkbreytist við að drekka mengaða vatnið. Áður fyrr var hann bara keilulaga, en núna hefur hann hendur og því lítið sem getur stöðvað hann og hans áform um að taka yfir heiminn!

dott-remaster_01

Eins og margar vélar sem vísindamenn hafa í kjallaranum sínum þá virkaði hún ekki alveg sem skyldi, og tímaflakkararnir enduðu á mismunandi tímum.

Vísindamaðurinn Edison kallar á Bernard, Laverne og Hoagie til að fá aðstoð við að stöðva Purple Tentacle og áform hans til heimsyfirráða. Lausn Edisons er að senda Bernard og vini aftur til fortíðarinnar, bara einn dag, og slökkva á vélinni sem var að menga vatnið. Auðveld lausn, ekki satt? Eins og margar vélar sem vísindamenn hafa í kjallaranum sínum þá virkaði hún ekki alveg sem skyldi, og tímaflakkararnir enduðu á mismunandi tímum. Hoagie fór 200 ár aftur í tímann, Bernard hélst í nútímanum en Laverne endaði 200 árum inn í framtíðinni. Hvernig stoppa þau núna vélina og koma í veg fyrir að Purple Tentacle drekki mengaða vatnið?

dott-remaster_03

Leikurinn er svokallaður „Point & Click“ leikur þar sem spilari smellir á hluti í umhverfinu til að finna út hvort að hægt sé að nota þá í einhverjum tilfellum. Day of the Tentacle: Remastered er leikur þar sem þú þarft að skoða hvern einasta krók og kima, í fortíð, nútíð og framtíð. Leysa þarf vandamálið að laga tímavélina til að allir komist aftur á rétta tímalínu, og auðvitað þarf að stoppa Purple Tentacle. Vert er að minnast á að leikurinn gengur mikið út á að vera með húmorinn í lagi og þarf spilari oft að hugsa vel út fyrir kassann til að finna lausnir á vandamálum.

Vert er að minnast á að leikurinn gengur mikið út á að vera með húmorinn í lagi og þarf spilari oft að hugsa vel út fyrir kassann til að finna lausnir á vandamálum.

Day of the Tentacle, og nýja Remastered útgáfan spilast alveg eins nema með uppfærðri grafík og hljóði. Hægt er að ýta á takka í leiknum til að sjá hvernig upprunalegi leikurinn leit út. Það er ótrúlega gaman að skipta á milli og sjá muninn.

Ég ætlaði upphaflega að skrifa gagnrýni um þennan leik en eftir að hafa skrifað nokkur uppköst og hent þeim öllum, þá komst ég að því að það er ekki eitthvað sem ég get gert. Þessi leikur hafði það mikil áhrif á mig þegar ég var að byrja í tölvuleikjaferlinum mínum að hann er einn af leikjunum sem mótaði mig í þá persónu sem ég er í dag. Það er því ómögulegt fyrir mig að segja annað en að það þurfa allir að spila þennan leik, og alls ekki fletta upp lausnum ef það situr fast á einhverjum stað, heldur reyna allt fyrst! Það er svo góð tilfinning að finna loksins rétta lausn eftir að hafa setið fastur í langan tíma að það er eitthvað sem maður má ekki eyðileggja með smá Google leit.

Frábær leikur með frábæra sögu. Samtöl og þrautir eru frábærar og skemmtileg þróun í gegnum leikinn. Þetta er leikur sem maður dundar sér í frekar en að flýta sér, maður hugsar um lausnir og prófar allt.

Ef þú hefur áhuga, þá tala Double Fine um hvernig ferlið var að endurgera leikinn og hvaða hindranir þeir þurftu að komast yfir til að ná því, smelltu hér.

Daníel Páll Jóhannsson

Deila efni

Tögg:


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑