Leikjarýni

Birt þann 23. september, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Crookz: The Big Heist

Leikjarýni: Crookz: The Big Heist Nörd Norðursins

Samantekt: Þessi leikur er kannski ekki fyrir alla því að það þarf að hugsa um svo marga hluti í einu.

3.5


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Jósef Karl Gunnarsson skrifar:

Leikurinn Crookz: The Big Heist kom út fyrir skömmu á Steam fyrir tölvur með stýrikerfin Windows, Macintosh og Linux. Crookz er framleiddur af Skilltree Studios sem er partur af útgefandanum Kalypso Media Group og eru þau bæði staðsett í Þýskalandi. Leikurinn gerist í San Francisco á áttunda áratugnum og fjallar um fimm þjófa sem ætla að hefna sín fyrir svik Murray, fyrrum samstarfsfélaga þeirra. Á ákveðnum tímapunkti komast þau að því að hann er með djöfullegt ráðabrugg í vændum sem þau verða að stöðva.

Það má segja að Crookz sé þrautaleikur því leikurinn reynir mjög mikið á athyglisgáfuna og þann eiginleika að sjá marga leiki fram í tímann. Stór hluti leiksins fer fram í pásu þar sem maður getur hætt við, bætt við eða framkvæmt nýjar aðgerðir ásamt því að fylgjast með hreyfingum varðanna og hvaða rofar stjórna hvaða hurðum eða öryggisbúnaði. Ef spilarinn vill ekki þurfa að spinna alla leiki á staðnum, sem er ekki hentugt til lengdar, er betra er að hafa gott plan. Spilarinn stjórnar frá tveimur til fjórum þjófum og hægt er að kaupa alls kyns tæki og tól til að hjálpa við verkefnin sem eru framundan. Gallinn er hinsvegar sá að hver þjófur getur aðeins haldið á þremur hlutum í einu og því þarf að vanda valið. Það er þó alltaf hægt að skoða borðin vel og vandlega áður en leikurinn hefst, sjá hvar allir hlutir, peningar, verðir og öryggiskerfi eru staðsett. Þjófarnir hafa síðan sína sérhæfileika sem aðskilja þau frá hvort öðru; Cleopatra er snögg, Bishop er lásasmiður, Rufus er sterkur, Rocket er liðug og Lobkowitz er tæknimaður. Þau byrja með einn hæfileika og þegar líður á leikinn enda þau með fjóra. Ekki nóg með að þjófarnir bæti sig heldur er í sumum borðum hægt að finna plön sem hjálpa þeim að uppfæra vissa hluti sem bætir virkni hlutanna og hjálpar þeim enn frekar.

Crookz01

Þjófarnir gegna skipunum spilarans í einu og öllu. Hreyfingar og aðgerðir fara í gegnum línu sem spilarinn stillir upp og fer þjófurinn strax af stað nema honum sé sagt að bíða. Þegar stjórna þarf fjórum þjófum og línur komnar útum allt borð getur þetta orðið flókið. Þetta kerfi er einfalt en ekki fullkomið því það kemur fyrir að línan fari ekki þá leið sem spilarinn vildi þannig að oft er betra að gera stuttar línur, því leikurinn gerir ekki grein á milli leiða sem eru greiðar eða ófærar.

Þegar stjórna þarf fjórum þjófum og línur komnar útum allt borð getur þetta orðið flókið. Þetta kerfi er einfalt en ekki fullkomið því það kemur fyrir að línan fari ekki þá leið sem spilarinn vildi þannig að oft er betra að gera stuttar línur, því leikurinn gerir ekki grein á milli leiða sem eru greiðar eða ófærar.

Gervigreind varðanna er sem betur fer ekki mikil því spilarinn á í fullu fangi með öryggisbúnað borðanna sem tefur þjófana. Verðirnir eru með skynjunar radíus í kringum þá og Cleopatra er sú eina sem getur verið innan radíusarins án þess að notast við gúmmísóla. Sjóndeildarhringur varðanna miðast við gólfið og í sumum tilfellum er það gott og stundum ekki. Í einu tilfelli þá sér vörður ekki þjóf sem er bakvið handrið þó svo að í raunveruleikanum ætti hann að sjá hann. Í öðru tilfelli þá sér vörður þjóf bakvið opnar dyr. Ef verðirnir sjá þjóf þá elta þeir hann uppi en ef þeir missa sjónar af honum þá fara þeir á ákveðna punkta og skanna svæðið í kringum þá. Þannig ef þjófur nær að fara í gegnum dyr þá stoppar vörðurinn oftast fyrir framan dyrnar og leitar út frá því svæði þó svo að í raunveruleikanum ætti hann að hafa séð þjófinn fara í gegnum dyrnar. Það er mjög gefandi að læsa verði inní herbergjum, tala ekki um herbergi með rofum sem geta opnað dyrnar en gervigreindin er blessunarlega ekki svo mikil hjá vörðunum svo þeir fatta ekki að opna dyrnar. Maður er bara mjög feginn að þeir hafa þessa veikleika því sum borðin eru yfirfull af vörðum og oft byrjar maður að tauta við sjálfan sig: „hvernig fer maður nú að þessu?“.

Crookz02

Saga leiksins er keyrð í gegnum teikningar og talsetningu fyrir og eftir hvert borð. Raddirnar passa nokkuð vel við persónurnar og talsetningin er yfirleitt góð, í versta falli sæmileg þegar kemur að vörðunum. Tónlistin í leiknum, sem er samin af Johannes Semm, kemur manni í rétta fönkí gírinn og passar vel við tímabilið sem leikurinn á að gerast á. Öll hljóðin í leiknum koma einnig vel út og ekkert hægt að setja út á það. Einnig er ekki hægt að segja að leikurinn líti eitthvað illa út en það er hægt að stilla grafíkina í leiknum ef maður vill. Fannst skondið að þegar leikurinn er í pásu þá er margt í umhverfinu sem er enn á hreyfingu. Tók líka eftir því að einn ljósastaur var í gegnum einn bíl fyrir utan bygginguna sem þjófarnir voru að ræna.

Crookz03

18 borð eru í leiknum en hvert borð getur innihaldið nokkra hluta með sínum takmörkum sem þarf að ná áður en þjófarnir mætast saman á endapunkti borðsins. Það tekur sinn tíma að klára eitt borð, til að mynda er síðasta borðinu skipt í fjóra hluta og það tók undirritaðann fimm tíma að klára herlegheitin en sjálfur spilunartíminn hjá þjófunum var einn klukkutími. Maður er mjög oft að gera mistök útaf stjórnunarkerfinu eða að misreikna hlutina svo það er vel þegið að leikurinn vistast reglulega ef maður er latur við að vista leikinn sjálfur.  Svo eru líka 10 þrautaborð sem notast við borðin sem eru í leiknum en með vissum takmörkunum á persónum og hlutum sem er farið með í hvert borð ásamt tímamörkum sem þarf að vera undir. Skorið sem maður fær úr þrautaborðunum fer á topplista þar sem allir sem eiga leikinn berjast um að eiga heiðurinn á að vera besti þjófurinn. Það er alltaf hægt að endurspila borðin þegar persónurnar hafa öðlast nýja hæfileika, þá opnast fyrir nýja möguleika og nýjar leiðir sem hægt er að fara í borðinu. Og þar sem á endanum verða þjófarnir sex og yfirleitt er valið á milli tveggja til fjögurra þjófa þá er endurspilunargildi leiksins hátt ef viljinn er fyrir hendi hjá spilaranum.

Það er ekkert grín að vera þjófur því þessi leikur er tímaþjófur en það tekur tíma að plana verkefnið sem þjófarnir eiga að framkvæma. Það er mjög ánægjulegt þegar hlutirnir ganga vel því oft eru það sekúndubrot sem aðskilur sigur og ósigur í þessum leik.

Það er ekkert grín að vera þjófur því þessi leikur er tímaþjófur en það tekur tíma að plana verkefnið sem þjófarnir eiga að framkvæma. Það er mjög ánægjulegt þegar hlutirnir ganga vel því oft eru það sekúndubrot sem aðskilur sigur og ósigur í þessum leik. Þessi leikur er kannski ekki fyrir alla því að það þarf að hugsa um svo marga hluti í einu, sem er ástæðan sem undirritaður hefur ekki mikið gaman af leikjum í anda Warcraft og Command & Conquer. Þar sem þeir leikir eru í rauntíma og þessi ekki gerir það að verkum að allir geta spilað á sínum hraða og hvort sem hver krókur og kimi er skoðaður áður en farið er af stað eða ekki. Þessir þjófar stelast í þrjár og hálfa stjörnu frá Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑