Greinar

Birt þann 2. júní, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Fyrstu hughrif: The Witcher 3: Wild Hunt

Það er einkennilegt að skrifa grein um fyrstu hughrif þegar maður er búinn að spila leikinn í nægan tíma til að klára flesta aðra leiki, en svona er Witcher 3 langur og leikjaheimurinn stór. Fyrir þá sem ekki vita þá fjalla Witcher leikirnir um Geralt of Rivia, skrímslaveiðimann með meiru og byggja á skrifum pólverjans Andrzej Sapkowski. Þetta er hlutverkaleikur af bestu gerð með áherslu á bardaga og sögu. Hann kom út á PC, PS4 og Xbox One en undirritaður er að spila hann á PS4.

Þar sem þetta eru fyrstu hughrif þá ætla ég að taka saman helstu punktana varðandi leikinn:

Stærð

Það vantar eitthvað gott lýsingarorð á íslensku fyrir hversu stór Witcher 3 er en á ensku höfum við fín orð eins og “colossal”, “gargantuan”, “humongous”, “of lovecraftian proportions” o.s.frv. en þið skiljið hvað ég á við. Heimurinn er semsagt mjög stór og snemma í leiknum færðu aðgang að honum næstum því öllum. Það vaknar samt stundum sú spurning hvort hann sé of stór, hvort að CD Projekt RED hefði átt að gera hann minni og slípaðri, en þeim einfaldlega tekst svo vel upp í að gera aukahlutina áhugaverða að þetta gengur upp. Heimurinn einfaldlega virkar sem heild og hver staður er ný upplifun (ef maður lítur framhjá að maður getur einstaka sinnum séð sömu andlitin oftar en einu sinni hjá aukapersónum).

Witcher3_01

Söguþráður

Það er greinilegt að þetta er byggt á bókum því að söguþráðurinn er betri en í sambærilegum leikjum. Fyrsti hlutinn sem tengist Blóðuga Baróninum svokallaða er einstaklega vel skrifaður; reyndar það vel skrifaður og seinni hlutar leikjarins blikna dálítið í samanburði. En það er greinilegt að það hefur verið hugsað vel út í jafnvel smæstu verkefni því að þau eru einnig vel skrifuð (dagbókarstíllinn er notaður þar sem spilarinn finnur gamlar dagbækur eða bréf sem lýsa fyrri aðstæðum).

Ákvarðanir eru stór hluti Witcher 3 upplifuninnar því að þær geta haft miklar afleiðingar seinna í leiknum. Það er heldur ekki alltaf auðvelt að spá fyrir hvað mun gerast; stundum þegar maður heldur að maður hafi tekið rétta ákvörðun getur hún haft skelfilegar afleiðingar. Þarna finnst manni CD Projekt RED hafa tekið þennan leikjaþátt, sem byrjaði líklega með Mass Effect, skrefinu framar, það er ekki strax hægt að sjá hvort ákvarðanir eru góðar eða slæmar rétt eins og í raunveruleikanum.

Witcher3_02

Tæknilega hliðin

Tökum grafíkina fyrst en mér skilst að leikurinn líti best út á góðri PC tölvu en kemur það ekki á óvart. Hann lítur samt mjög vel út á PS4 en mér fannst samt Dragon Age Inquisition líta aðeins betur út. Þeir virðast hafa dregið aðeins úr grafíkina eins og hún átti að vera upprunalega en lýsingin er sérstaklega góð. Hleðslutímar geta verið langir sem er væntanlega bein afleiðing af þessu.

Hvernig Geralt hreyfir sig er hreinlega ekki nógu gott. Maður festist iðulega í landslaginu, sérstaklega í einhverjum litlum greinum og trjám sem er nóg af. Geralt getur alltaf kallað á hestinn sinn í stíl við Red Dead Redemption en oft sleppi ég því  og hleyp bara því að hesturinn er enn líklegri til að festast einhvers staðar.

Annað sem er alveg óskiljanlegt er umsýslan allra hlutanna sem maður sankar að sér (inventory). Það er hægt að vera með fullt af hlutum s.s. vopn og fatnað, efni til að búa til hitt og þetta, mat, hausa af skrímslum o.s.frv. en það er engin leið til að raða þessu. Þetta er slæm yfirsjón fyrir leik sem er með svona mikið af dóti.

Witcher3_03

Bardagakerfi

Witcher 3 hefur tekið framförum frá Witcher 2 því að bardagakerfið er mun betra og fjölbreyttara. Það eru ýmsir möguleikar hverju sinni; það er hægt að nota lásboga, galdra, sprengjur, veikar og sterkar árásir, gagnárásir og síðast en ekki síst þá er mikilvægt að kynna sér veikleika andstæðingsins og nýta sér þá. Auðvitað á bardagakerfið ekkert í Bloodborne og fyrri From Software leiki en hvaða leikur á eitthvað í þá? Til þess eru bardagar í Witcher 3 of auðveldir, jafnvel á hærri erfiðleikastigum, því að oft dugir bara að hamra á tökkunum. En það er ekki algilt, einstaka sinnum þarf maður að nýta sér ákveðna taktík en alltof sjaldan.

Witcher3_04

Verkefni

Hverju sinni þá eru fimm meginhlutir fyrir Geralt að dunda sér við. Hann getur fylgt meginsögunni, gert aukaverkefni, barist við skrímsli sem hrella bændurna (og notað leynilöggueiginleika sína í stíl við Batman), leitað eftir fjársjóðum eða spilað Gwent sem er Hearthstone / MTG þessa heims (og er ansi góður). Þetta gerir leikinn skemmtilega fjölbreytilegan. Eflaust vilja sumir fylgja bara sögunni en það er erfitt að neita sér um allt hitt því að það er svo vel úr garði gert.

Lokaorð

Eins og er (þar til ég klára leikinn og skrifa endanlega gagnrýni) þá er Witcher 3 fjögra og hálfrar stjörnu leikur og því vel þess virði að grípa í eintak, sérstaklega ef þú kaupir bara einn leik á ári því að þessi gæti hæglega dugað allt árið þar sem CD Projekt RED hefur lofað alls konar viðbótum. Hann er ekki alveg gallalaus en er samt besti leikur sinnar tegundar á markaðinum í dag.

 

Höfundur er
Steinar Logi Sigurðsson

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑