Retró

Birt þann 18. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Retro: Mortal Kombat (1992)

eftir Kristinn Ólaf Smárason

Ég var ekki nema tíu ára gamall þegar ég sá Mortal Kombat fyrst, en vinur minn hafði fengið hann lánaðan hjá frænda sínum og sett hann upp á tölvunni sinni. Við sátum klukkustundunum saman fyrir framan Pentium 486 tölvuna hans, berjandi á lyklaborðið á meðan Scorpion og Sub-Zero spörkuðu hvorn annan í spað á tölvuskjánum. Við höfðum aldrei séð eins raunverulegan leik áður og vorum vissir um að hér væri hápunktinum náð, hvernig gæti nokkur leikur orðið flottari en Mortal Kombat?
Við höfðum að sjálfsögðu rangt fyrir okkur, enda er Mortal Kombat ekki sjón að sjá miðað við leiki dagsins í dag, en árið 1993 var hann sennilega flottasti slagsmálaleikur sem gerður hafði verið. Hönnuðir leiksins notuðu myndir af alvöru leikurum til að búa til tölvugerðu bardagamennina, en slagsmálaleikir höfðu framan af allir verið tölvuteiknaðir. Þessi nýjung skilaði sér í því að Mortal Kombat var einstaklega raunverulegur miðað við leiki samtímans og varð um leið einn vinsælasti tölvuleikur síns tíma.

Þegar leikurinn kom út fylgdi honum í raun engin almennileg baksaga, en henni var seinna gerð skil í framhaldi leiksins; Mortal Kombat II. En saga leiksins er á þá leið að gömlu guðirnir settu lög á hinar mörgu víddir alheimsins, sem leyfðu öðrum heimum ekki að taka yfir annan heim nema að þeirri forkröfu að hafa sigrað besta bardagamann þess heims í tíu samfelldum Mortal Kombat mótum. Nú þegar hefur Goro, helsti kappi Útheims, sigrað stríðsmenn Jarðar í níu skipti í röð, og því þurfa stríðsmenn Jarðar að sigra Goro til að bjarga jarðarbúum frá ofríki Shang Tsung.

 

 

Mortal Kombat býður spilurum upp á sjö mismunandi bardagamenn til að velja á milli; Johnny Cage, Kano, Sonya Blade, Sub-Zero, Scorpion, Raiden og Liu Kang, en allar þessar persónur hafa sést aftur í hinum og þessum framhöldum af Mortal Kombat. Í heildina hefur leikurinn þó tíu persónur; tvo endakalla, Goro og Shang Tsung, og einn falinn aukakall, Reptile. Ólíkt öðrum slagsmálaleikjum samtíma síns, þá berjast allar persónurnar í leiknum á mjög svipaðan hátt (að Goro undanskildum), en það sem skilur þær að eru mismunandi brögð sem spilarinn getur framkallað með réttum takkasamsetningum. Þetta leiddi oftar en ekki til þess að allir áttu sína uppáhalds persónu þar sem hver persóna hafði svo mörg brögð að erfitt var að leggja þau öll á minnið.

Leikurinn býður spilurum upp á að berjast hvorn við annan eða að spila á móti tölvustýrðum andstæðingum. Til þess að sigra leikinn þarf spilarinn að sigrast á öllum sjö spilanlegu persónunum, en eftir hvern sigur verða andstæðingarnir erfiðari og erfiðari. Þegar fyrstu sjö persónurnar eru sigraðar þarf spilarinn að berjast gegn endaköllunum. Fyrst Goro (sem af einhverri ástæðu er mun erfiðari) og svo Shang Tsung, en hann hefur eiginleika til þess að líkja eftir brögðum allra persónanna í leiknum. Þegar öllum bardögum er lokið fær spilarinn að lesa stutta eftirsögu þeirrar persónu sem hann notaði til að sigra leikinn, en sögurnar eru oftast ekki nema 3-4 setningar að lengd og skilja frekar lítið eftir sig.

 

 

Ein helsta nýjungin sem Mortal Kombat bauð upp á voru þó hin svokölluðu Fatality brögð, sem leyfðu spilurum að taka andstæðinga sína af lífi í lok bardagans, oft á mjög ofbeldisfullan og blóðugan hátt. Til dæmis steikir Raiden andstæðinga sína lifandi með eldingamætti sínum og Sub-Zero rífur hausinn af sínum mótherjum. Fatality brögðin ásamt því hvað leikurinn var gífurlega blóðugur miðað við aðra leiki tímabilsins, leiddi til þess að ESRB kerfinu var komið á laggirnar, sem gerir tölvuleikjaframleiðendum skilt að merkja leikjaumbúðir með viðeigandi aldurstakmörkunum enn í dag. Umræðan um ofbeldi leiksins teygði meira að segja anga sína til Íslands, og lýstu margir áhyggjum sínum af því hve slæm áhrif þessi leikur gæti haft á yngri kynslóðina.

Mortal Kombat var gefin út fyrir allar helstu leikjutölvur, meðal annars fyrir Sega Mega Drive, Super Nintendo, PC, Amiga og fleiri tölvur. Leikurinn var þó þekktastur fyrir að vera á Arcade-vélum og var því aðgengilegur í spilasölum og sjoppum fyrir þá sem ekki áttu leikjatölvur heima hjá sér. Vegna hinnar miklu umfjöllunar um ofbeldismagn leiksins var leikurinn ritskoðaður á mörgum leikjatölvum. Til að mynda lét Nintendo breyta blóðinu í Super Nintendo útgáfunni í gráan svita, og Sega tók allt blóð úr sínum leik, en þó var hægt að setja það aftur inn með sérstökum svindlkóða.

Mortal Kombat hefur sína kosti og galla. Til að mynda mætti vera meiri fjölbreytni milli persónanna í leiknum. Helsti keppinautur Mortal Kombat, Street Fighter II gaf sínum bardagamönnum mun fjölbreyttari bardagastíla þar sem hver persóna hafði sinn hraða og styrk, en persónurnar í Mortal Kombat eru frekar einhæfar. Á móti kemur að öll stjórnun og flæði í slagsmálunum í Mortal Kombat er mjög góð, sem neyðir spilarann til að hafa snögg viðbrögð eða deyja mjög fljótt. Tónlistin í leiknum er ekkert til að hrópa húrra fyrir, en hljóðin eru einstaklega flott miðað við útgáfutíma leiksins. Við hvert högg og spark öskra persónurnar af sársauka eða áreynslu, og þær fáu setningar sem eru sagðar í leiknum eru einfaldar en flottar. Eins og ég kom inn á áður þá var grafíkin í leiknum algert tækniundur á sínum tíma og því hlítur leikurinn toppeinkunn að því leiti. Allt í allt er Mortal Kombat frekar góður slagsmálaleikur enn í dag, og mæli ég eindregið með því að fólk nálgist hann og spili, þó svo ekki nema til að sjá hvar þessi ein frægasta tölvuleikjasería byrjaði.

 

Vissir þú að…

  • Upphaflega átti Mortal Kombat að skarta Jean Claude Van Damme í aðalhlutverki, en vegna samnings hans við annað leikjafyrirtæki varð ekkert úr því og var Johnny Cage því settur inn í staðinn.
  • Mortal Kombat er fyrsti slagsmálaleikurinn sem var með hulinni aukapersónu (Reptile).
  • Hægt er að ná í Mortal Kombat ókeypis á: http://www.abandonia.com/en/games/54/Mortal+Kombat.html
  • Mortal Kombat fékk verðlaunin „Umdeildasti leikur ársins“ frá Electronic Gaming Monthly árið 1993.
  • Mortal Kombat hefur getið af sér um það bil 20 aðra leiki og tvær bíómyndir.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑