Bækur

Birt þann 8. október, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Páfugl úti í mýri – alþjóðleg barnabókmenntahátíð 9.-12. október

Páfugl úti í mýri er alþjóðleg barnabókmenntahátíð sem fer fram 9.-12. október 2014 og á henni koma fram á fjórða tug íslenskra og erlendra rithöfunda. Á hátíðinni verða ýmsar vinnustofur, málstofur og einnig haldið málþing um framtíð barnabókmennta. Ýmislegt á hátíðinni kemur inn á heim nördanna – sem og næstu kynslóð nörda – og er hátíðin tilvalin fyrir fjölskyldur sem vilja sameinast í nördisma sínum eina helgi.

Nördavænar málstofur eru nokkrar

Fyrst má nefna Upp á líf og dauða á plánetunni Jörð (9. október, kl. 11.00-12.00) en þar munu rithöfundarnir Marit Anne Sara,, Lana Hansen og Andri Snær Magnason, sem öll eiga það sameiginlegt að hafa fjallað um loftslagsbreytingar, náttúru og umhverfi í barnabókum sínum. Hér hittast þau til að ræða það hvernig segja skal börnum sögur af viðkvæmu jafnvægi lífsins á jörðinni. Slíkar sögur eru oft settar í form dystópískra fantasía og ætti því umræða um þær að henta okkur bókmenntanördum vel.

Önnur áhugaverð málstofa, sem gæti höfðað sérstaklega til áhugamanna um myndasögur er Orðalaust – Hvað segir myndin? (11. október, kl. 11.00-12.30). Þar verður velt upp spurningum eins og „Hvernig segjum við sögur án orða?“; „Hvaða hlutverki gegna orðalausu myndirnar?“ og munu myndlistarkonurnar Dorte Karrebæk, Lani Yamamoto, Linda Bondestam, Inga H. Sætre og Sara Lundberg ræða um myndabókina og hlutverk myndlistar í barnabókmenntum.

Auk málstofa verða nokkrir spennandi upplestrar, t.d. Sagnaflug (9. október, kl. 14.00-15.00), þar sem rithöfundarnir Máret Ánne Sara, Mårten Melin og Sofia Nordin segja spennandi sögur af ungu fólki á tímamótum, m.a. í formi fantasía og dystópía. Þessi upplestur fer fram á ensku og er þrettán ára aldurstakmark á hann. Sama dag (20.00-20.40) mun Stefán Máni lesa upp úr bók sinni Úlfshjarta, sem rýnd var hjá Nörd Norðursins á síðasta ári.

Af vinnustofum má helst nefna ritsmiðjuna Fantasíur og ljósmyndaljóð (11. október, kl. 13.00-14.00). Þar gefst þátttakendum tækifæri til að nema ritlist hjá einum besta unglingabókahöfundi á Norðurlöndunum í dag, Seita Vuorela sem hlaut Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir bókina Karikko (Blindsker). Karikko er fantasía og dystópía fyrir unglinga og fullorðna og sögufléttan er hin klassíska saga um frelsisleit unglingsins og hvernig maður fetar sína eigin leið í lífinu. Aðeins takmarkaður fjöldi kemst að, vinnustofan fer fram á ensku og er 13 ára aldurstakmark.

Skemmtileg vinnustofa fyrir yngri nördanna er Myndaflug, opin listsmiðja á sunnudeginum (12. október, kl. 12.00-12.50). Þar mun Dorte Karrebæk, sem er meðal fremstu mynd- og rithöfunda Danmerkur, kenna viðstöddum list sína. Vinnustofan verður túlkuð á íslensku og er opin öllum 6 ára og eldri, takmarkaður fjöldi kemst þó að.

Fulla dagskrá má nálgast á heimasíðu bókmenntahátíðarinnar, myrin.is, og þar má einnig finna upplýsingar um skráningar á tiltekna viðburði. Allir viðburðir hátíðarinnar, utan hátíðarmálþingsins á föstudeginum, eru fríir.

Eigið nördalega góða helgi í Vatnsmýrinni!

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑