Greinar

Birt þann 24. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Sjónandarvægi meðal tölvuleikjaspilara og sjómanna rannsakað

Rannsókn, sem var hluti af B.Sc verkefni við Læknadeild Háskóla Íslands, var framkvæmd til þess að kanna aðlögun af völdum hreyfinga í sjónsviði við tölvuleikjaiðkun annars vegar og hreyfinga um borð í skipi hins vegar. Hreyfingar í sjónsviði við iðkun tölvuleikja getur valdið misræmi þar sem augun skynja hreyfingu á skjá meðan jafnvægisskynfærin skynja enga hreyfingu, slíkt getur einnig framkallað vanlíðunareinkenni sem oft er kallað sýndarveruleikaveiki.

Sjonandarvaegi_01_CoD_BlackOps2

Skjáskot úr Call of Duty: Black Ops 2

Líkami okkar býr yfir stöðustjórnunarkerfi. Þetta kerfi fær boð frá sjón, jafnvægis- og stöðuskyni og gerir okkur kleyft að skynja þríviða umhverfið okkar. Stundum getur það gerst að mismunandi skynáreiti gefa ólíkar upplýsingar sem veldur misræmi og ef þau eru ekki leiðrétt í stöðustjórnunarkerfinu fara af stað aðlögunarferlar. Aðlögunarferlar leiða m.a. til þess að skynfæri fá mismunandi vægi, m.ö.o. að mannslíkaminn fer að taka meira mark á ákveðnum skynfærum fram yfir önnur, t.d. gæti sjónskynjunin fengið meira vægi en jafnvægisskynjunin eða öfugt.

Stodu_og_hreyfistjornun

Mynd: Hannes Petersen.

Veltingur um borð í skipi í langan tíma hefur einnig áhrif á stöðuskynjun og veldur í byrjun misræmi á milli skynboða, þar sem einstaklingur er á hreyfingu og jafnvægisskynfærin skynja það vel en sjónskynjunin skynjar hreyfingarnar ekki eins vel oftar en ekki kallar það fram sjóveiki. Báðir aðlögunarferlarnir eru taldir hafa áhrif á vægi jafnvægisskynjunar á ólíkan hátt. Tilgangurinn er að sýna fram á að jafnvægisskynjun sjóaðra sjómanna, þjálfaðra tölvuleikjaspilara (a.m.k. 3 klst iðkun á dag) og hóp fólks þess utan sé frábrugðin eftir því hvaða aðlögunarferli það hefur farið í gegn um.

Sjonandarvaegi_02_Montague_Dawson

Verk eftir Montague Dawson [wall.alphacoders.com]

Tölvuleikirnir sem þátttakenndur spiluðu voru:

• FPS: Counter Strike: Global Offensive, Call of Duty, Battlefield (allar gerðir).
• Strategy: StarCraft, Warcraft III, Age of Empires.
• MOBA: League of Legends, DotA.
• MMORPG: World of Warcraft, EVE Online.

 Sjonandarvaegi_03_Dualshockers

Skjáskot úr StarCraft II

Til þess að kanna hversu mismunandi vægi skynfæranna var, þá var notast við þrjú mismunandi Strikapróf. Prófin voru notuð til þess að mæla vægi jafnvægisskynjunar og vægi sjónskynjunar. Prófið snýst um að leiðrétta skekkt strik sem er varpað á vegg. Hlutverk þátttakandans er að leiðrétta strikið með fjarstýringu (í okkar tilfelli PlayStation fjarstýingu) þannig að það verði lóðrétt (90°) í mismunandi umhverfum; ekkert umhverfis strikið, skekktur rammi í kringum strikið og hringsnúandi depplar í kringum strikið. Mismunandi umhverfi trufla sjónræna ályktun með tilheyrandi aukinni þörf á jafnvægisskynfæratúlkun. Frávik frá raun lóðréttu línunni er mælt í hvert skipti. Eftir því sem frávikin eru stærri því minna er vægi jafnvægisskynjunar og ef munur er á getu þátttakanda milli mismunandi umhverfa þá eru einstaklingarnir sagðir sjónháðir (sjónin hefur meira vægi).

Sjonandarvaegi_04_Strika_ramma_deplaprof

Strika, ramma og deplaprófið

Meðaltal frávika var reiknað úr öllum prófunum fyrir hvern hóp. Viðmiðunarhópurinn var að meðaltali 1,2° frávik frá raun-lóðréttu línunni (90°), tölvuleikjaspilarahópurinn 0,8° og sjómannahópurinn 2,3°, þannig að tölvuleikjaspilararnir höfðu lang minnstu frávikin (stóðu sig best). Jafnframt þá kom í ljós að tölvuleikjaspilarahópurinn sýndi engann breytileika á milli mismunandi umhverfa, þ.e.a.s þeir stóðu sig jafn vel í öllum prófunum og trufluðust ekki af sjónrænu truflandi umhverfi, ólíkt hinum hópun.

Sjonandarvaegi_05_JackieChan

Marktækur munur var á milli rannsóknarhópa í vægi jafnvægisskynjunar og vægi sjónar. Tölvuleikjaspilarahópurinn var með stærstu frávikin, sem þýðir að hópurinn var með mesta vægi jafnvægisskynjunar. Samkvæmt þessu þá þjálfa tölvuleikjaspilarar jafnvægisskynfærin sín þannig að þau verði næmari og starfsemi þeirra verður áreiðanlegri í að meta stefnur og hraða. Eitt hlutverk jafnvægisskynfæranna er einmitt rýmnis- og ratsskynjun en í tölvuleikjum þurfa einstaklingar oft að álykta stefnur og hraða hluta í þrívíðu umhverfi tölvuleikjanna.

Eini hópurinn sem stóð sig jafn vel í mismunandi umhverfum var tölvuleikjaspilarahópurinn. Mismunandi umhverfi fólu í sér mismunandi erfið sjónræn áreiti og ef framistaða þátttakanda er breytileg milli prófa þá eru slíkir einstaklingar sagðir sjónháðir (þeir reiða sig mikið á sjónskynjunina). Tölvuleikjaspilarahópurinn var því eini hópurinn sem var ekki sjónháður, þrátt fyrir að vera sífellt fyrir sjónrænu áreiti í formi tölvuleikja. Aðlögun tölvuleikjaiðkenda hefur þannig áhrif á sjónsvið þeirra þannig að það verði markvissara og skynjun á hreyfingum í sjónsvið breytist og hefur minni áhrif á túlkun umhvefis, m.ö.o sjón þeirra þjálfast. Sjónræn truflandi áreitin í mælingum rannsóknarinnar höfðu þ.a.l. engin áhrif á sjónræna túlkun tölvuleikjaspilarana sem vanir eru að leysa þrautir á tölvuskjá þar sem mikil sjónræn truflandi áreiti eru til staðar.

Sjómannahópurinn var með stærstu frávikin sem þýðir að þessi hópur var að meðaltali með minnsta vægi jafnvægisskynjunar. Af því má álykta að sjómenn dempa jafnvægisskynfæri sín á sjó til þess að koma í veg fyrir vanlíðunina (sjóveiki) sem fylgir misræminu og til þess að aðlaga líkamann að sjóhreyfingum. Viðmiðunarhópurinn var á milli hópanna hvað varðar vægi jafnvægisskynjuninar. Sjómanna- og viðmiðunarhópurinn voru jafnframt sjónháðir og er sjónin því aðalskynfæri þeirra í skynjun á staðsetningu sinni í umhverfinu.

Næstu skref í þessari rannsókn væru að fá fleiri þátttakendur og styrkja þannig niðurstöður rannsóknarinnar. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt, einhverntíman í sumar eða haust, mega hafa samband við mig með því að senda tölvupóst á thg106@hi.is. Það væri líka áhugavert að mæla og rannsaka fleiri hópa sem aðlagast hafa mismunandi umhverfum s.s. flugmenn, bera saman mismunandi tölvuleiki og/eða hafa ólíka sjúkdóma tengda jafnvægisskynfærum. Að lokum mætti athuga hvort hægt væri að þjálfa sjónháða einstaklinga, t.d. suma sjúklinga með jafnvægisskynsjúkdóma og sumt eldra fólk, með tölvuleikjaspilun þar sem tölvuleikjir þjálfa jafnvægisskynfærin. Enda hafa töluvleikir góð áhrif á jafnvægisskynfærin, samkvæmt þessari rannsókn.

Áhugasömum er bent á að skoða ritgerðina í heild sinni á skemmmunni, en hún verður opin almenningi í desember, 2014: http://skemman.is/item/view/1946/18026.

Forsíðumynd: Wikimedia Commons

 

Höfundur er Þórhildur Helga Guðjónsdóttir,
læknanemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑