Leikjarýni

Birt þann 25. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Call of Duty: Ghosts

Enn einn Call of Duty leikurinn er kominn í fyrstu persónu skotleikjaflóruna og í þetta sinn er það nýr undirtitill, Ghosts, í nýjum heimi. Það er stríð milli Bandaríkjanna og Suður-Ameríku og eftir skæða árás úr geimnum er landið lamað og í tætlum. Maður spilar sem Logan Walker sem berst með bróður sínum, David (Brandon Routh), í gegnum þetta stríð. Faðir þeirra, Elias (Stephen Lang), leiðir sérstaka leynisveit sem berst við óvini á þeirra svæði í laumi. Meðlimir sveitarinnar eru kallaðir draugar og markmið þeirra á þessari stundu er að stöðva fyrrverandi draug að nafni Gabriel Rorke (Kevin Gage) og bandalag Suður-Ameríku. Athugið að þessi leikur var spilaður á PS3 tölvunni.

Sagan af stríðinu er sögð í stílfærðum senum milli borða á meðan leikurinn hleður sig. Sjálfum fannst mér þetta frekar fráhrindandi leið til að koma baksögunni og framvindunni til skila, sérstaklega þar sem maður sá alltaf línu neðst á skjánum sem sýnir hversu mikið eftir var af hleðslunni. Annars eru það samtöl milli persóna þar sem maður fær ekki eitt aukatekið orð að segja um, því maður er þögull allan tímann og getur því einungis horft á. Stundum virkar þetta og í þessu tilfelli fannst mér þetta ekki hjálpa mér að tengjast persónunum. Ég fór í gegnum leikinn, skaut á allt sem hreyfðist og ekkert í leiknum hreyfði við mér… nema endirinn sem er vægast sagt óvæntur og það verður áhugavert að sjá hvað þeir gera með framhaldið.

CoD_Ghosts_03

Þótt að sagan sé þunn þá er maður blessunarlega ekki alltaf að gera það sama í leiknum og í flestum tilfellum alltaf á nýjum stað. Það er barist á landi, úr lofti, á kafi og meira segja í geimnum. Maður er ekki alltaf Logan, í tveimur borðum er maður einhver gaur í geimnum, pabbinn þegar hann var yngri og einnig getur maður stjórnað hundinum Riley. Þetta gerir leikinn alveg bærilegan og heldur manni uppteknum í mismunandi aðstæðum í þá 10 tíma sem tók að klára leikinn. Það helsta sem var að angra mig var að það var alltaf verið að segja mér að gera hitt og þetta. Maður er sjaldan einn í leiknum og er því alltaf í hópi með tölvustýrðum leikmönnum sem var stundum gott því maður gat látið þá vinna vinnuna fyrir sig. Þannig að mér finnst þetta taka frá manni tilfinninguna að maður hafi gert eitthvað sjálfur þar sem ég er svo vanur að spila svona skotleiki einn. Hann má þó eiga það leikurinn að vera með vistunarpunkta með stuttu millibili þannig þegar maður dó þá þurfti maður ekki að fara í gegnum allt borðið til þess að komast þangað þar sem maður dó.

CoD_Ghosts_02

Leikurinn er náttúrulega ótrúlega flottur á PS3 og var sérstaklega tilkomumikið að vera í geimnum og á kafi í sjónum. Hljóðið á þó vinninginn því talsetningin var til fyrirmyndar með nokkrum þekktum leikurum og sum skothljóðin úr rifflunum voru það yfirþyrmandi að mér leið eins og Rambo á tímabili.

Flestir kaupa þessa leiki bara fyrir fjölspilunina og ef það er þinn tebolli þá er nóg um að velja. Það eru þrír möguleikar, Squads, Extinction og dæmigerð fjölspilun. Maður býr til persónu, velur hvaða vopn hann hefur og eiginleika sem hægt að safna fyrir sem mun hjálpa manni í fjölspiluninni. Ótal möguleikar og útfærslur sem hægt er að velja um.

Í Squads getur maður spilað einn eða með öðrum þar sem maður berst á móti öðru liði eða endalausum öldum af óvinum. Þetta er sniðugt því það er hægt að nota þetta sem þjálfun áður en maður fer í djúpu laugina á netið í fjölspilunina. Ef maður er einn þá er restin af hópnum þínum tölvustýrður og sama á við um óvina hópinn. Í Extinction berstu með 3 öðrum spilurum af netinu á móti geimverum. Satt að segja var þetta dálítið ruglingslegt en fannst mér þetta samt besta viðbótin því þarna þarf maður að vinna saman til þess að komast áfram, því þetta er erfitt.

CoD_Ghosts_01

Reyndar er fjölspilunin ekki svo dæmigerð eftir allt saman, það er búið að bæta við mismunandi spilunarmöguleikum. Jú, það eru allir á móti öllum, lið á móti liði og allt það að finna þarna og meira. Til dæmis í Cranked neyðist maður til þess að drepa annan mann innan 30 sekúnda, því ef maður nær því ekki þá springur maður í loft upp. Eftir því sem maður drepur fleiri, því hraðar getur maður hlaupið, kastað handsprengjum og miðað á óvini. Annar áhugaverður leikur er Infected þar sem einn spilari er sýktur og endar leikurinn ef allir sem eru á lífi eru sýktir eða tíminn rennur út. Helsti gallinn við fjölspilunina er að það geta aðeins verið 12 manns í hverjum leik en 18 manns geta verið á PS4, Xbox One og PC tölvum.

Þessi leikur á eflaust eftir að falla í kramið hjá Call of Duty spilurum og almennt fyrstu persónu skotleikja aðdáendum en fyrir mitt leyti þá skildi hann lítið sem ekkert eftir sig. Leikurinn er tæknilega séð flottur í alla staði og endurspilunargildið er mjög hátt fyrir þá sem nýta sér fjölspilunina.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑