Bíó og TV

Birt þann 27. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Spider-Man og Gwen Stacy

Ég byrja greinina á tveimur tilkynningum. Sú fyrsta er: Í þessari grein er ekki að finna spilla, í stað þess er greinin öll einn stór spillir um það sem á sér stað í Amazing Spider-Man 2. Ef þú, lesandi góður, ert ekki búinn að sjá myndina og vilt ekki vita hvað gerist skaltu láta staðar numið hér. Ekki lesa lengra, drífðu þig bara í bíó og myndaðu þér þína eigin skoðun á atburðum áður en þú lest það sem kemur fram hér.

Seinni tilkynningin er á þessa leið: Internetið er algerlega ofmettað af greinum af dauða Gwen Stacy og ég geri mér grein fyrir því. Enn fremur vil ég að það sé algerlega ljóst að það sem kemur fram hér á eftir eru aðeins mínar skoðanir og túlkanir á þessu máli. Þær eru langt því frá að vera heilagar. Þetta atriði sem um ræðir hefur verið bitbein myndasögunörda í hartnær fjóra áratugi. Það er ómögulegt að sýna málið í nýju ljósi eða leitast eftir málamiðlun. En þetta er gott tækifæri til að ræða einhvern mikilvægasta og stærsta atburð í sögu miðilsins og ef til vill varpa ljósi á einhverja vinsælustu ofurhetju samtímans.

SpiderMan2_01

Gwen Stacy deyr í Amazing Spider-Man 2. Hún dettur niður og Spider-Man nær ekki að bjarga henni í tæka tíð. Hann gerir sitt besta en það reynist ekki nóg. Dauði hennar er ekki einsdæmi, kærustur ofurhetja og myndasögukaraktera hafa ekki miklar lífslíkur. Dauði þeirra er svo algengur að fyrirbærið nefnist „women in refrigerators,“ eða „konur í ísskápum”. Konur í ísskápum deyja eða þjást, aðeins til þess að aðalpersónan (venjulega karlkyns) læri eitthvað af dauða þeirra. Þessi „hefð,“ er merkileg út af fyrir sig og ég mun ræða hana seinna. Í tilviki Spider-Man deyr Gwen Stacy aðeins til þess að Spider-Man þjáist og þróist.

Aðalmálið er ekki að Gwen Stacy deyi, hún er eins og Ben frændi Peter Parker. Hann deyr. Gwen Stacy deyr líka. En dauða hennar bar að á rangan hátt í myndunum. Hún deyr á röngum forsendum. Og það skiptir máli fyrir söguna, bæði fyrir Spider-Man og Gwen. Tökum einfalt dæmi, ef Ben hefði dáið í bílslysi sem Peter Parker hefði ekki getað komið í veg fyrir, hefði Peter ekki fundið sig knúinn til að gerast ofurhetja. Hvernig Ben deyr skiptir máli, og það sama er uppi á teningnum með Gwen Stacy, hvernig dauða hennar ber að er mikilvægt.

Dauði Gwen Stacy átti sér stað í sögunni „The Night Gwen Stacy Died.“ Titillinn sjálfur er spillir en þess vegna kom hann ekki fram fyrr en á síðustu blaðsíðu sögunnar. Ég hef áður rætt um áhrif þessarar sögu í yfirliti mínu um silfuröldina en í stuttu máli var atburðurinn víðfrægur og áhrifamikill. Silfuröldin var búin og ofurhetjusögur urðu ekki samar.

Spider-Man - silfuröldin

Atriðið sem breytti Spider-Man
Á myndinni sést hljóðeffektinn „snap“ sem hægt er að túlka sem brothljóð í hálsi hennar.

Green Goblin kemst að því að Peter Parker sé Spider-Man. Hann rænir kærustu hans, Gwen Stacy og skorar á Spider-Man í bardaga á Brooklyn brúnni . Þegar Spider-Man kemur á staðinn hendir Green Goblin Gwen Stacy af brúnni, en það er ekki á hreinu hvort hún sé lífs eða liðinn. Spider-Man reynir að bjarga henni, skýtur vef í áttina að henni sem grípur hana. Hann dregur hana upp en þá reynist hún látin.

Hér skilja leiðir frá myndasögu og kvikmyndum. Í myndasögunni er það aldrei ljóst hvort Green Goblin hafi drepið hana viljandi, eða hvort að Spider-Man hafi gert það óvart. Vefurinn grípur um fót hennar og líkaminn kastast allur til, annski dó hún við það. Kannski drap Green Goblin hana áður en hann henti henni niður, við fáum aldrei að vita það og ekki Spider-Man heldur. Þessi óvissa, um að hann hafi kannski ollið dauða kærustu sinnar, vekur með honum meiri sektarkennd og sjálfshatri en lát Ben gerði nokkurn tímann. Við sem lesendur fengum að vita seinna að hún dó vegna tilraunar Spider-Mans til að bjarga henni, eða réttara sagt „það var ekkert sem hann gat gert til að bjarga henni.“

Spider-Man er tiltölulega trúanleg ofurhetja vegna þess að Peter Parker berst ekki gegn glæpum af hugsjón eða von um að gera heiminn betri, hann gerir það af ótta og sektarkennd. Ef þú gæfir honum tækifæri á að öðlast aldrei ofurkrafta myndi hann grípa það án umhugsunar. Iron Man gerir það sem hann gerir af því að hann getur það, Batman gerir það til að koma á reglu, Captain America sóttist eftir kröftum til að verja aðra og svo framvegis. En Peter parker fékk krafta sína fyrir slysni og heimur hans hefur hrunið til grunna vegna þeirra.

Spider-Man-hoppHann lærði af dauða Ben að ef hann nýtir ekki krafta sína til þess að berjast gegn óréttlæti mun saklaust fólk þjást, jafnvel saklaust fólk sem hann þekkir. Hann heldur áfram að vera Spider-Man af ótta við það sem gæti komið fyrir ef hann gerði það ekki. Hann hefur krafta sem geta bjargað svo mörgum. Ef hann notar þá ekki er hann þá ekki samsekur glæpamönnunum sem skaða saklaust fólk? En dauði Gwen var honum önnur og margslungnari lexía. Spider-Man er knúinn áfram af enn meiri sektarkennd og ótta en áður, vitandi að jafnvel þó að hann geri sitt besta getur hann ekki í komið í veg fyrir hvað sem er. Það var ekki bara það að hann var ekki nægilega sterkur, snöggur og snjall til að bjarga henni. Það var óvissan um hvað hefði gerst. Var hann valdur að dauða hennar? Hefði hann getað bjargað henni?

Þess vegna skiptir máli hvernig Gwen deyr. Augljóslega geta kvikmyndaleikstjórar túlkað atburði eins og þeir vilja, og Marc Webb virðist hafa reynt að gera atriðið eins og í myndasögunni. En málið er að án þess að Peter Parker kenni sjálfum sér um lát hennar er dauði hennar þýðingarminni. Green Goblin drap hana af því að það voru tveir tímar liðnir af myndinni og það þurfti góðan hápunkt til að enda myndina. Peter kennir Green Goblin réttilega um og heldur að lokum áfram að vera Spider-Man til að heiðra minningu Gwen. Hann veit að hann hefði ekki getað bjargað henni.

Nú má rökræða um ástæður þessa. Webb segir sjálfur að tilrauna áhorfendur hafi ekki skilið tvíræðnina í atriðinu. Þeir hafi ekki trúað því að Spider-Man gæti hafa drepið Gwen óvart. Þess vegna var atriðinu breytt og áhrifum þess líka. Í stað þess að dauði Gwen bæti olíu á eld sektarkenndar Spider-Man, verður hún honum innblástur um að halda áfram að berjast. Þetta er í eðli sínu ekki slæm skipti, en frekar klisjukennd. Það dregur úr því sem aðgreinir Spider-Man, að hann er einn, að hann er aðeins að reyna að gera sitt besta til að verja alla og að hann kennir sjálfum sér um allt sem miður fer.

Augljóslega er hætta á að umræður sem þessar breytist í hávaðarifrildi og væl. Það er mikilvægt að muna að kvikmyndin stendur hvorki né fellur á þessu atriði, né þarf það að þýða að Spider-Man karakterinn er á einhvern hátt eyðilagður vegna þess. „Nýju“ myndirnar þarf að vega og meta á sínum eigin verðleikum, ekki hvernig hlutirnir gerðust í myndasögu frá áttunda áratugnum. En það er gott að vita hvernig tekið er á þessum atburði, hvaða áhrif hann hafði á sínum tíma og hvernig Spider-Man í myndasögunum er frábrugðinn þeim sem birtist í kvikmyndunum. Því að kvikmyndin er eftir allt saman að líkja eftir myndasögunum og þegar breytingar eru gerðar á mikilvægum atriðum þarf að horfa á þá frá sem flestum sjónarhornum. Síðan verða áhorfendur að ákveða sjálfir hvort þeim þykir betra.

 

Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑