Fréttir

Birt þann 3. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

EVE Fanfest 2014: CCP Presents

CCP Presents hefur ávallt verið mest spennandi fyrirlesturinn á EVE Fanfest síðast liðin ár. Á kynningunni hafa framleiðendur, markaðsmenn og hönnuðir CCP sýnt hvað er framundan hjá fyrirtækinu, og þar með gefið aðdáendum sínum smá forsmekk af því sem koma skal á komandi mánuðum og árum. Því miður var að mati Nörd Norðursins ekki eins mikið um spennandi tilkynningar frá CCP eins og á fyrri árum, en hér fylgir stutt samantekt á því hvað hver fyrirlesari tók fyrir á CCP Presents.

 

Hilmar Veigar – Framkvæmdastjóri CCP

• Hilmar undirstrikaði að nú væri komið að því að einblína á þær birtingarmyndir EVE heimsins sem eru þegar til staðar, bæði fyrir núverandi og nýja spilara. Þrátt fyrir að ýmsar breytingar á nálgun EVE Online sem var lofað fyrir ári síðan (t.a.m. aðgengi að leiknum í gegnum snjallsíma) hafi enn ekki skilað sér, þýði það ekki að þær myndu ekki koma fyrir rest. Nú væri tíminn runninn upp til að styrkja stoðir EVE heimsins í heild sinni. Minnka flækjustigið og skapa betri upplifun fyrir alla sem koma að sögu New Eden.

• Hilmar hafði því miður engar nýjar fréttir að færa af nýju sjónvarpsþáttunum undir leikstjórn Baltasars Kormáks sem koma til með að gerast í New Eden. Verkefnið væri enn í vinnslu, og væri það enn það stutt komið að ófært væri að sýna eitthvað frá því.

• EVE Fanfest 2015 verður haldið helgina 19.-21. mars, og var dagsetningin ákveðin út frá því að þann 20. mars munu hátíðargestir (og allir Íslendingar) eiga möguleika á að sjá sólmyrkva ef veður leyfir.

EVE_VR_Attacking_Objective2

Jean Charles Gaudechon – Aðalframleiðandi DUST 514

• JC steig stutt upp á svið til að svara tveim spurningum sem höfðu brunnið á hátíðargestum í kjölfar tilkynningarinnar um nýja PC skotleikinn Project Legion, sem verður að miklu leyti byggður á DUST 514.

• Fólk hafði áhyggjur af því að þetta myndi þýða að þróun DUST 514 myndi stöðvast, en hann sagði að svo væri ekki og CCP myndi halda áfram að bæta og þróa DUST 514 fyrir Sony.

• JC staðfesti einnig að verið væri að vinna að því að DUST 514 spilarar gætu flutt persónur sínar yfir í Project Legion, og haldið öllum þeim hlutum sem þeir hafa sankað að sér til þessa.

DUST514_Hot_Crater

David Reid – Markaðsstjóri CCP

• David kynnti við mikinn fögnuð að EVE Online verði fljótlega þýddur yfir á frönsku, en leikurinn hefur þegar verið þýddur á rússnesku, þýsku, japönsku og kínversku.

• EVE hittingar gerast víðar en á Íslandi. 17.-19. október verður EVE samkoma í Vegas, Bandaríkjunum, og svo í Sydney, Ástralíu, 21.-23. nóvember.

• Eigendur EVE Online Collector’s Edition eiga von á nýju útliti fyrir Rorqual geimskipið fljótlega, en það mun vera þriðji hluturinn til þessa sem eigendur safnútgáfunnar hafa fengið.

EVE Online_spread_00

Torfi Frans – Listrænn stjórnandi

• Torfi spjallaði aðeins um True Stories verkefnið þar sem EVE spilarar voru hvattir til að senda sannar sögur sem gerst höfðu í leiknum inn til CCP. Rúmlega 700 sögur bárust.

• CCP er nú komið í náið samstarf við Dark Horse Comics þar sem margar af þeim rúmlega 700 sögum sem bárust CCP verða gefnar út í myndasöguformi.

• Einnig verður gefinn út ný myndasaga undir nafninu EVE Valkyrie, þar sem aðalkvenhetjan er ódauðlegur geimsjóræningi.

• Bókin EVE: Source – Limited Edition mun vera endurútgefin fljótlega þar sem hún seldist upp á 7 klst við seinustu útgáfu, en hún var aðeins gefin út í 1.400 eintökum.

• Brátt geta aðdáendur EVE Online keypt sér módel af geimskipum úr leiknum. Fyrsta módelið sem verður gefið út verður af hinu vinsæla Megathron orrustuskipi, en það verður 25 cm. langt og handmálað. Fyrir þá sem vilja taka þetta skrefinu lengra verður einnig síðar hægt að kaupa módel af ofurflugmóðuskipinu NYX, en það mun vera ívið stærra, eða 70 cm. langt og með innbyggðum ljósum o.fl.

• Torfi kynnti stefnu CCP um að gera EVE heiminn aðgengilegri fleira fólki en þeim spila tölvuleiki. Stór fatalína undir merkjum ZERO verður ýtt af stað fljótlega með EVE þemuðum fatnaði.

EVE_Megathron

Halldór Fannar – Tæknistjóri CCP

• Halldór átti mest spennandi tilkynninguna á CCP Presents, en verið er að vinna í því að koma öllum EVE tengdum leikjum á einn sameiginlegan grunn (Client). Spilarar verða því með eina persónu sem mun geta flogið geimskipum í EVE Online á PC, skotið byssum í DUST 514 og/eða Project Legion, og flogið orrustuskipi í EVE Valkyrie á Occulus Rift og Morpheus. Halldór undirstrikaði þó að þetta væri enn allt á teikniborðinu og erfitt væri að meta hvenær og ef þessi fídus verði að veruleika.

• Halldór ræddi einnig um nýju DirectX 11 þrívíddartæknina sem er nú virk í EVE Online. Tæknin er þegar búinn að gera leikinn mun hraðari og mýkri fyrir spilara, og nú væri komið að því að nýta tæknina til að gera leikinn flottari! Halldór lofaði frekari tilkynningum varðandi þetta fljótlega.

• Unnið er að því að fólk geti skapað sér persónu fyrir EVE Online á tækjum sem notast við snertiskjái.

Svo virðist vera sem CCP sé í virkum mæli að styrkja möguleika sína á að selja spilurum hluti í raunheimum, enda var þorri tilkynninga CCP Presents tengdur ýmsum varningi sem spilurum mun gefast færi á að kaupa í náinni framtíð. Stefna CCP um að styrkja núverandi stoðir leikja sinna og auka áhersluna á samspil þeirra er spennandi, og það verður áhugavert að fylgjast með hvernig sú þróun mun móta framtíð sýndarheimsins New Eden.

 

Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑