Bíó og TV

Birt þann 1. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Fáðu þér áskrift að Nörd Norðursins TV með Auroracoin

Uppfært 2. apríl 2014: Aprílgabb!

 

Kæru lesendur Nörd Norðursins. Á undanförnum vikum og mánuðum höfum við verið að undirbúa þann möguleika að leyfa lesendum okkar að fá meira úr Nörd Norðursins upplifun sinni. Frá og með deginum í dag munum við hjá Nörd Norðursins því bjóða lesendum okkar upp á nýja þjónustu. Nörd Norðursins kynnir með stolti: Nörd Norðursins TV!

Við höfum sleitulaust unnið að þessari dagsetningu, vitandi að nú hafa Íslendingar fengið aðgang að hinum nýja rafgjaldmiðli Auroracoin. Nú getur þú kæri lesandi, notað Auroracoin gjaldmiðilinn þinn til að tryggja þér áskrift að NNTV á heimasíðu Nörd Norðursins, sem mun færa þér aðgang að meiru, betra og fjölbreyttara efni en hefur nokkurn tíman áður verið boðið á Nörd Norðursins.

Með því að borga aðeins 9.99 AUR á mánuði færðu aðgang að lykilorðsvarinni undirsíðu þar sem fastir pennar Nörd Norðursins hafa skrifað, tekið upp og framleitt sjálfir mikið magn af efni sem verður hægt að niðurhala eða streyma beint á snjallsímum og spjaldtölvum. Nokkrir nýjir þættir munu koma inn á síðunni á hverjum einasta degi, en meðal þeirra eru:

 

:: Leikjastofan ::

Bjarki Þór, ritstjóri Nörd Norðursins, fjallar um allar helstu nýjungar í tölvuleikjaiðnaðinum. Bjarki kemur til með að ræða um alla nýjustu tölvuleikina og leikjatölvur, ásamt helstu straumum og stefnum sem er að finna í tölvuleikjageiranum í dag. Þátturinn verður á dagskrá alla virka daga.

:: RETRO ::

Kristinn dregur fram gamla leikjatölvu tvisvar í viku og spilar gömlu klassísku leikina með þjóðþekktum einstaklingum. Fyrsti þátturinn er þegar tilbúinn, en þar gerir Kristinn heiðarlega tilraun til að sigra Battletoads með Hilmari Veigar Péturssyni forstjóra CCP.

:: Rýnt í gamlan hrylling ::

Jósef horfir á gamla hrollvekju og gagnrýnir hana í ræmur. Jósef ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og hyggst horfa á allar Friday the 13th myndirnar fyrir föstudaginn 13. júní 2014!

:: Svarttíðin ::

Andri rýnir í kvikmyndir sem hafa það sameiginlegt að gerast í dystópískri framtíð eða eftir miklar hamfarir. Munu vélarnar taka yfir heiminn eða verða það aparnir? Geta uppvakningar notað tímavélar? Þessu og mörgu öðru verður svarað í Svarttíðinni.

:: Popp, Pepsi og geislasverð ::

Ragnar Trausti rýnir í íslenska kvikmynda- og bíómenningu. Í fyrsta þættinum skoðar Ragnar hvaða tökustaðir hér á landi verða líklega fyrir valinu fyrir næstu Star Wars mynd.

:: Undraland ::

Védís ætlar að lesa og rýna fantasíu vikulega og byrjar á Urban Fantasy drottningunni Richelle Mead og Vampire Academy seríunni hennar.

:: PLATÍNUMöldin ::

Kristján kafar ofan í helstu myndasögur frá hinni gleymdu öld myndasögunnar: Platínumöldinni! Áður en Superman reið á vaðið var Guli strákurinn, pólítískar skopmyndir, Archie, Annie the Orphan og helling af löngu gleymdum myndasögum frá nýlenduveldum Evrópu. hversu langt í tímann getum við farið? Fylgist með PLATÍNUMöldinni og komist að því.

OG MARGT FLEIRA!

 

Sendu okkur endilega póst á nordnordursins@gmail.com og við sendum þér Auroracoin veskiskóða til að leggja inn á. Um leið og greiðslan berst sendum við þér leiðbeiningar um hvernig þú færð aðgang að Nörd Norðursins TV!

Skráðu þig fyrir miðnætti og þú færð 3 fyrstu mánuðina fría!

 

Sjáumst í sjónvarpinu!

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑