Leikjarýni

Birt þann 19. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Thief

Thief (eða Þjófur) leikirnir fjalla um þjófinn Garrett og gerist í heimi sem minnir helst á England á Viktoríu tímabilinu. Í byrjun leiks er Garrett að reyna að stela einhverjum steini fyrir náunga sem heitir Basso. Garrett ásamt hræðilega þjófnum Erin sem hefur mestu læti í heimi finnur steininn en Garrett lýst ekki á hlutina og hættir við. Erin tekur það ekki í mál og fara þau að rífast. Einhver yfirnáttúruleg athöfn er í gangi fyrir neðan þau sem veldur því að þakið sem þau eru á hristist og endar það með því að Garrett og Erin detta í gegnum þakglugga og Garrett fer í dá í eitt ár og heldur því fram að Erin sé látin.

Þegar Garrett vaknar kemst hann að því að það er einhver sjúkdómur í gangi í borginni sem kallast „Gloom“ og barónn borgarinnar hefur ákveðið að læsa borginni (setja „lockdown“ í gang). Sem sagt nákvæmlega það sama og var í gangi í leiknum Dishonored.

Þessi leikur spilast eins og hinir Thief leikirnir og er ekkert nýtt í gangi þar. Þetta er svona fyrstu persónu leikur þar sem maður á að læðast um og rota óvinina einn í einu og koma í veg fyrir að maður sjáist eða heyrist í manni. Einnig er fínt að maður hafi nokkrar mismunandi örvar t.d. vatns-örvar til að slökkva elda.

Thief_01

Þetta er fjórði leikurinn í seríunni en er víst nokkurs konar „reboot“ eða endurræsing sem fólk er svo hrifið af þessa dagana. Það sem að fyrstu tveir leikirnir gerðu svo vel var að þegar maður var í borðunum voru risastór pláss og maður gat valið margar mismunandi leiðir til að klára borðin. Í þessum leik eru þetta hins vegar margir þröngir gangar þar sem maður getur eiginlega bara farið frá A til B á kannski tvo mismunandi vegu. Einnig er kortið sem maður getur notað í leiknum hræðilegt þar sem það segir manni t.d. ekki að maður þarf að fara einhverjar krókaleiðir til að komast á milli staða í borginni á milli borða. Borgin er einmitt eins og stórt völundarhús og þarf maður að klifra yfir mismunandi hluti og þök til þess að komast á milli staða. Það eru einmitt nokkrir pirrandi gallar þegar maður er að reyna að komast á milli staða eins og að geta bara klifrað upp ákveðna hluti og það er voða lítið sem segir manni hvaða hlutir það eru.

Thief_02

Óvinirnir í leiknum eru frekar heimskir þar sem maður getur bara hlaupið milli kafla og þeir geta ekki elt mann á milli þeirra. Þeir eru auðvitað ágætlega erfiðir ef maður fer að reyna að berjast við tvo eða fleiri en þá getur maður bara hlaupið fyrir horn og falið sig í smá tíma og þá virðast þeir gleyma því að maður sé til. Bardagakerfið er frekar leiðinlegt þar sem að annað hvort ber maður bara gaura með kylfunni sinni þangað til að þeir rotast eða maður hleypur í burtu frá óvinunum. Að dýrka upp lása í þessum leik er einnig mjög einfalt og verður fljótt þreytt sökum hversu einfalt það er.

Garrett hefur kraft sem er kallaður „focus“ sem gerir hluti í kringum þig sem þú getur notað eða stolið bláa sem auðveldar manni að finna hlutina. Einnig er hægt að uppfæra þá krafta en ég sá ekki mikinn tilgang í því þar sem ég notaði þetta ekkert og gekk bara vel að klára leikinn án þeirra.

Thief_03

Karakterarnir í þessum leik eru með þeim leiðinlegustu sem ég veit um, það er nákvæmlega engin dýpt í þeim. Garrett er týpíski óvinurinn sem vill bara klæðast svörtu og vera emo. Aðrir karakterar í þessum leik eru rosalega týpískir og hafa frekar lítinn persónuleika. Fólkið í kringum mann hefur einnig svona fimm mismunandi setningar sem þau segja.

Niðurstaða

Ágætlega flottur leikur og svo sem ágætis afþreying þar sem getur verið gaman að fela sig og passa að enginn sjái mann rota alla vondu karlana eða komast almennt frá því að ráðast á þá. En lélegir karakterar og hræðilega pirrandi borð gera hann frekar pirrandi. Einnig er ekkert nýtt í þessum leik og það að borðin séu frekar lokuð og maður getur í rauninni ekki valið mismunandi leiðir til að klára hann gerir hann frekar leiðinlegan. Sagan í þessum leik er líka mjög óáhugaverð og er manni alveg saman um fólkið í henni, þessi leikur verður manni ekki minnisstæður. Ef ykkur langar í góðan „stealth“ leik þá myndi ég mæla með Dishonored í staðinn.

 

Höfundur er Elmar Víðir Másson.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑