Birt þann 11. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Dark Touch
Áður en þú gerir þér ferð til að sjá Dark Touch þarftu að átta þig á því að þetta er ekki hefðbundin hryllingsmynd. Það er kannski ekki að undra því myndin er samvinnuverkefni nokkurra Evrópulanda, meðal annars Íra og Svía. Leikstjóri myndarinnar Marina De Van er til að mynda fædd og uppalin í Frakklandi og því er umgjörð myndarinnar ansi alþjóðleg eins og gengur og gerist með evrópskar myndir. Það kemur því ekki á óvart að efnistökin og stíll myndarinnar sé annar en áhorfendur eiga að venjast frá bandarískum hryllingsmyndum.
Söguþráður myndarinnar er undir áhrifum kvikmynda á borð við Carrie (1976) og Children of the Corn (1984). Það er þó sleginn alvarlegri tónn í Dark Touch en leikstjórinn fer þá leið að nýta hryllingsmyndaformið til þess að fjalla um ofbeldi gegn börnum og öfugt. Sögusvið myndarinnar er á Írlandi þó svo að það skipti litlu máli því hún gæti gerst hvar sem er. Í stuttu máli fjallar hún um ungu stúlkuna Neve (Missy Keating) sem á ekki sjö dagana sæla í köldum faðmi fjölskyldu sinnar. Það er ljóst frá upphafi að Neve er engin venjuleg stúlka og býr yfir yfirnáttúrulegum kröftum. Þegar foreldrar hennar og litli bróðir deyja á voveiflegan hátt er Neve sett í fóstur hjá ungum hjónum og fljótlega fer Neve að takast á við ytri og innri djöfla.
Það tók mig smá tíma að taka mig úr hryllingsmyndastellingunum og átta mig á því að myndin er ekki hefðbundin hryllingsmynd. Það eru ekki mörg atriði sem fá þig til þess að hoppa upp úr sætinu þínu og draugar eða aðrar ógeðslegar verur koma ekki fyrir í myndinni. Hryllingurinn og spennan eru sköpuð með óvissunni og Marina nýtir sér hryllingsmyndaminni áhorfenda til þess að skapa þá spennu. Það gerir hún með því að gefa áhorfendum ákveðnar væntingar til atriða, en maðurinn í speglinum birtist aldrei og svarti kötturinn stekkur ekki fram, allt trikk sem einkenna flestar hryllingsmyndir en Marina sleppir og um leið vekur hún upp óþægilega tilfinningu hjá áhorfendum því þeir fá ekki það sem þeir búast við.
Það eru eflaust þessar væntingar til myndarinnar sem hafa valdið því að áhorfendur hafa ekki gefið myndinni mjög góða einkunn. Myndin er nefnilega ekki auðmeltanleg því hún kafar djúpt í tilfinningar aðalpersónunnar og hvernig hún tekst á við ofbeldi. Ég tel að Marina hafi valið þá leið að sýna áhorfendum heiminn með augum Neve. Það er Neve sem lýsir okkur veginn. Kannski engin tilviljun að Neve er írskt stúlkunafn, komið frá gyðjunni Niamh, og þýðir ljós eða geislandi.
Gotneskt útlit myndarinnar sem einkennist af gráum litum er í raun að túlka heiminn eins og Neve sér hann. Hræðilegu atriðin mætti því einnig túlka sem innri baráttu hennar við ofbeldi eða jafnvel sem hreinar ímyndanir. Þetta tel ég að sé tilgangur myndarinnar. Að setja áhorfendur í spor barns sem hefur upplifað hrikalegar misþyrmingar. Það er nefnilega oft þannig að kvikmyndir segja ekki alltaf sögu sem er línuleg heldur geta þær líka verið birtingarmynd tilfinninga.
Þó svo að myndin sé virkilega áhugaverð þá leynast ákveðnir gallar í henni. Tónlistin er að mínu mati ekki nógu áhrifarík og slægjumyndastemningin í nokkrum atriðum er líka eitthvað sem hefði mátt sleppa. Þetta er ekki fullkomin mynd, langt frá því, en hún er mjög áhugaverð og Marina virðist vera að feta í fótspor Roman Polanski sem túlkaði oft á tíðum innri baráttu aðalpersóna sinna með því að nýta kvikmyndatæknina til hins ýtrasta. Hann skyldi mann líka oft á tíðum eftir með ósvaraðar spurningar og Marina leikur það eftir.
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.