Bíó og TV

Birt þann 10. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Grafir og bein Antons Sigurðssonar

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn virðast hafa forðast hryllingsmyndagreinina í gegnum tíðina. Þó eigum við ekki langt að sækja efniviðinn; bæði eru þjóðsögurnar stútfullar af hryllingssögum en einnig hafa íslenskir rithöfundar sýnt hryllingnum áhuga. En nú verður breyting á, því hryllingsmyndin Grafir og bein verður frumsýnd í júní á þessu ári og af því tilefni settist ég niður með leikstjóra myndarinnar Antoni Sigurðssyni.

Grafir_og_bein_Anton2

Með leikstjórann í blóðinu

Anton sem er 26 ára segir að hann hafi alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum og gekk með þá bakteríu í maganum að vilja verða leikari. Þegar hann varð 15 ára þá dvínaði leiklistaráhuginn og leikstjórahlutverkið varð áhugaverðara. „Þegar ég var orðinn unglingur þá fattaði ég að það væri einhver sem væri að láta leikarana gera það sem þeir eru að gera. Það rann því upp fyrir mér að hugsanlega væri leikstjórahlutverkið áhugaverðara og skemmtilegra. Svo fór ég í Kvikmyndaskóla Íslands og þar fékk ég tækifæri til þess að vinna með frábæru fólki og kennararnir voru hæfileikaríkir kvikmyndagerðarmenn,“ segir Anton.

Hvar eru hryllingsmyndirnar?

Það er skortur á íslenskum hryllingsmyndum og ég spyr Anton hvort hann hafi einhver svör. „Það er spurning hvort okkur þyki þetta vera nógu gott. Yrsa er að skrifa frábærar bækur í þessum fíling. Steinar Bragi skrifaði Hálendið og Óttar Norðfjörð skrifaði Unu. Svo eru náttúrulega þjóðsögurnar. En nú virðast allir vera að fara að gera myndir í þessum dúr. Matti Þórs er að fara að gera Unu og Óskar Þór er að fara að gera Brakið eftir Yrsu. Svo er verið að vinna að því að kvikmynda Húsið eftir Stefán Mána. Við erum kannski bara heppin að vera aðeins á undan hinum. Ég held líka að íslensk kvikmyndagerð þurfi á svona myndum að halda.“

Ég held líka að íslensk kvikmyndagerð þurfi á svona myndum að halda.

Hryllingsmynd verður til

Grafir og bein fjallar í mjög stuttu máli um hjónin Gunnar og Sonju sem þurfa að fara út á land til þess að sækja stelpu í fóstur eftir að bróðir Gunnars deyr. Anton segir að hugmyndin að myndinni hafi kviknað eftir að hann gerði stuttmynd sem ber sama nafn. „Þegar ég gerði stuttmyndina Grafir og bein fannst mér áhugavert að gera mynd um hjón sem höfðu misst barnið sitt. Ég vildi ekki fjalla um neitt annað því mér fannst þetta bara vera áhugaverð hugmynd. En svo gekk stuttmyndin vel og vann hátíðir. Í kjölfarið þá taka einhverjir eftir manni og þá fór ég að pæla í því að gera þetta að þriller,“ segir Anton en hlutirnir gerðust síðan hratt eftir að aðalleikararnir, Björn Hlynur og Nína Dögg, komu inn í verkefnið. „Ég er með framleiðanda sem heitir Erlingur Guðmundsson og hann segir við mig: „Skrifaðu handrit og ég geri það“. Ég fékk að gera það sem ég vildi og næ að skila uppkasti og fæ þá Björn Hlyn og Nínu Dögg inn í verkefnið. Þá fer boltinn að rúlla og fleiri leikarar koma inn í þetta. Svo koma framleiðslufyrirtækin Mistery og Pegasus inn í þetta líka. Svo er bara safnað einhverjum peningum saman, en ég vildi minnst pæla í því, og svo var bara farið í tökur. Ég var með fólk sem ég hafði unnið með áður og þetta bara gekk upp,“ segir Anton.

Grafir_og_bein_02

„Við gerðum allt sem á ekki að gera“

Leikstjórar segja oft að erfitt sé að leikstýra börnum en Anton var heppinn með þá ungu leikara sem koma fram í myndinni. Stúlkan á plakatinu heitir Elva María og er 11 ára gömul en hún spilar stórt hlutverk í myndinni. „Við gerðum allt sem á ekki að gera. Við vorum með börn, dýr, eld og ég veit ekki hvað og hvað. Það var í raun farin erfiðasta leiðin. En ungu leikararnir stóðu sig mjög vel. Hún Elva á framtíðina fyrir sér í leiklistinni og svo er líka Ísak Hinriksson í myndinni og hann var líka æðislegur,“ segir Anton en bendir á að þó að erfiða leiðin hafi verið farin hafi allt gengið upp og vandamálin voru leyst. „Þetta voru mjög erfiðir tökudagar og tók á alla. Oft fór fólk pirrað af setti. Enda fylgir tökunum mikil spenna því þegar allir eru að leggja sig fram og þegar eitthvað kemur upp á þá er misjafnt hvernig fólk vinnur úr því, en svo mætir fólk bara með bros á vör daginn eftir. Við höndluðum þetta því alveg,“ segir Anton og telur að allt ferlið hafi verið góður skóli og hann mun gera hlutina öðruvísi í næstu mynd. „Ég myndi gera næstum því allt öðruvísi þegar ég lít til baka. Það er bara ótrúlegt hvað maður lærir af þessu. Svo þegar maður gerir næstu mynd þá á maður eftir að læra enn meira,“ segir Anton og telur að erfiðast sé að fá allt tökuliðið til þess að leggja mikla vinnu á sig. „Þetta er náttúrulega mikið team work og allir þurfa að vera á tánum. En það heppnaðist mjög vel hjá okkur og þetta var fjölskyldufílingur. Svo var þetta líka nýtt fyrir mér því þetta er fyrsta myndin mín og tökudagarnir eru algjört maraþon. Þú hefur ekki alveg þolið en þarft samt að vera með fókus alla þessa daga.“

Grafir_og_bein_03

Ráð til kvikmyndagerðarmanna

Að lokum spyr ég Anton hvort hann sé með einhver ráð til kvikmyndagerðarmanna sem eru að stíga sín fyrstu skref í bransanum. „Bara go for it! Hafðu trú á þínu verkefni og þér sjálfum. Því það er enginn að fara að hringja og bjóða þér gull og græna skóga. Sá eini sem fær símtal í þessum bransa er Balti. Þú verður bara að gera hlutina sjálfur, skrifaðu þitt eigið efni því handrit vaxa ekki á trjánum. Ég er þó ekki að segja að fólk eigi að gera mynd með enga peninga eða skilja eftir sig skuldir út um allan bæ. En það er hægt að gera góðar ódýrar bíómyndir á Íslandi. Gott kvikmyndagerðarfólk vex aftur á móti á trjánum hér á landi og hóið ykkur saman og gerið bíó,“ segir Anton en hann er að vinna að nokkrum verkefnum þessa dagana. „Ég er að vinna að handriti að mynd sem er svona skandinavískur þriller. Svona í líkingu við Girl with the Dragon Tattoo og Hausaveiðarana. Það er svona það sem er fram undan. Ég er kvikmyndagerðarmaður og það er mín vinna og ég lifi á því. En ég er ekki keyrandi um á Range Rover,“ segir Anton brosandi að lokum.

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Grafir og bein Antons Sigurðssonar

  1. Pingback: Grafir og bein: “Íslensk kvikmyndagerð þarf á svona myndum að halda” | Klapptré

Efst upp ↑