Bíó og TV

Birt þann 3. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Rick Moranis – Týndi gamanleikarinn

Í fyrra voru liðin 25 ár síðan gríngeimmyndin Spaceballs var frumsýnd. Það er því við hæfi að Bíó Paradís sýni kvikmyndina á stóra tjaldinu í sumar. En nánar um sérstakar sumarsýningar kvikmyndahússins má finna hér.

Sá sem lék Dark Helmet eða grínútgáfuna af Svarthöfða í umræddri kvikmynd var Rick Moranis sem margir kannast við úr hinum og þessum grínmyndum, allavega þeir sem eru fæddir um miðjan níunda áratuginn ættu að kannast við kauða. Hann var gríðarlega vinsæll gamanleikari og lék meðal annars í Ghostbusters (1984), Little Shop of Horrors (1986) og í Honey I Shrunk the Kids (1989). Síðasta stóra kvikmyndin sem hann lék í var svo The Flintstones (1994) þar sem hann lék Barney á móti John Goodman sem var þá í hlutverki Fred Flintstone.

Rick Moranis sagði skilið við kvikmyndaleik árið 1997 en hann hefur þó í gegnum tíðina talsett nokkrar teiknimyndir. Moranis missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 1991 og var það eflaust ein ástæðan fyrir brotthvarfi hans frá leiklistinni. Í viðtali við USA Today árið 2005 sagði Moranis að eftir missinn hefði hann áttað sig á því að hann væri of mikið frá börnunum sínum og vildi hann eyða meiri tíma með þeim. Upphaflega átti hléið að vera í stuttan tíma en varð aðeins lengra og það var svo ekki fyrr en árið 2003 sem hann snéri til baka og ljáði rödd sína í teiknimyndinni Brother Bear.

Árið 2008 var Moranis beðinn um að ljá rödd sína í tölvuleik byggðum á kvikmyndinni Ghostbusters en hafnaði því þó svo að aðrir leikarar úr myndinni hafi samþykkt tilboðið. Það var svo í júní á þessu ári sem Moranis sagði í viðtali við Empire Magazine að hann væri jafnvel reiðubúinn að leika í þriðju Ghostbusters myndinni, þó svo að hann hafi ekki staðfest það. Það væri þó ansi stórt „comeback“ ef hann fylgdi hinum leikurunum eftir og kæmi fram í myndinni.

Það er í raun sorglegt að Moranis hafi dregið sig úr kvikmyndaleik því hann hafði einstaka hæfileika sem gamanleikari. Tímasetningarnar hans voru með eindæmum góðar og hann stelur algjörlega senunni í Spaceballs svo dæmi sé tekið. Ég mæli með því að fólk skelli sér í Bíó Paradís og sjái snillinginn Moranis á hvíta tjaldinu.

 

Ghostbusters (1984)

Rick Moranis - Ghostbusters

 

Brewster’s Millions (1985)

Rick Moranis - Brewsters Millions

 

Little Shop of Horrors (1986)

Rick Moranis - Little Shop of Horrors

 

Spaceballs (1987)

Rick Moranis - Spaceballs

 

Honey, I Shrunk the Kids (1989)

Rick Moranis - Honey I Shrunk the Kids

 

Brother Bear (2003)

Rick Moranis - Brother Bear

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑