Bíó og TV

Birt þann 7. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Web junkie

Hvað geriru þegar unglingurinn á heimilinu spilar reglulega tölvuleiki í 10 tíma á dag og hefur engan tíma fyrir fæði eða samskipti, önnur en í gegnum tölvuleiki? Sumir myndu tala við unglinginn og aðrir leita hjálpar sálfræðings. Í Kína er boðið upp á róttækari lausnir en þar er hægt að senda tölvusjúku unglingana á sérstök meðferðarheimili fyrir netfíkla, en 400 slíkar meðferðarstofnanir er að finna þar í landi. Fjallað er um eitt slíkt meðferðarheimili í heimildarmyndinni Web junkie og er áhorfendum veitt tækifæri til þess að fylgjast með því sem þar fer fram.

Það eru þær Shosh Shalm og Hilla Medalia sem leikstýra myndinni og í henni er fylgt eftir nokkrum unglingsstrákum sem hafa verið sendir á meðferðarheimili fyrir netfíkla í Peking. Í flestum tilfellum eru unglingarnir plataðir þangað af foreldrum sínum og sumir foreldrarnir ganga svo langt að byrla þá lyfjum svo hægt sé að koma unglingunum inn á heimilið án mótþróa. Það er ljóst frá upphafi að meðferðarheimilið er óvenjulegt enda líkara fangelsi en meðferðarstofnun. Unglingarnir eru lokaðir inni í herbergjum þar sem rimlar eru fyrrir gluggum og þurfa unglingarnir að klæðast hermannaklæðnaði.

Myndin er könnunarmynd (e. observational film) sem þýðir að kvikmyndagerðarmennirnir eru eins og fluga á vegg og fylgjast með því sem fram fer innan veggja heimilisins. En það verður að teljast ótrúlegt afrek hjá kvikmyndagerðarmönnunum að hafa fengið leyfi til þess að mynda þessa ríkisstofnun enda hefði maður haldið að yfirvöld í Kína væru ekki mjög opin fyrir slíku.

Web_junkie_02

Unglingarnir sem koma fram í myndinni eiga við raunveruleg vandamál að stríða. Margir hafa flosnað upp úr skóla vegna netfíknarinnar og aðrir sofa á daginn og spila tölvuleiki á nóttunni í hátt í 12 tíma á dag, alla daga. Eins og með allar aðrar fíknir þá verður ljóst að vandamál unglinganna eiga sér dýpri rætur og virðist vera að vandamál á heimilum þeirra séu stór orsakavaldur. Í einu atriði myndarinnar segir einn unglingurinn að hann eigi enga vini aðra en á netinu og hann sé að reyna að forðast raunveruleikann með því að flýja inn í sýndarheima og spurningar vakna um hvað hann sé að flýja.

Myndin lýsir kínversku samfélagi á neikvæðan hátt og sýnir meðal annars þær brotalamir sem eru í mannréttindamálum þar í landi og að því er virðist skort á almennilegum réttindum barna enda eru unglingarnir bókstaflega sendir á hálfgert geðveikrahæli.

Web_junkie_01

Galli myndarinnar er aðallega sá að hún kafar ekki mjög djúpt og eftir 20 mínútur inn í myndina er nánast allt komið fram sem hefur áhrif á framvinduna og lítið sem kemur á óvart. Það sem ég saknaði var að sjá líf unglinganna eftir meðferðina því það hefði verið forvitnilegt að sjá þá inn á heimilum sínum og fá það staðfest hvort meðferðin hafi skilað árangri. Ég gef mér þó að kvikmyndagerðarmennirnir hafi reynt það en ekki fengið leyfi til þess.

Web junkie fjallar um öfga á alla vegu. Öfga í tölvunotkun, öfgafulla foreldra sem sinna ekki börnum sínum og öfga innan veggja meðferðarheimilisins þar sem heragi og vafasöm meðferðarúrræði eru í boði. Öfgarnar koma svo sannarlega fram í myndinni og vekja athygli á því að netfíkn er raunverulegt vandamál í Kína. Stóra spurningin sem situr þó eftir er af hverju unglingarnir þurfa að flýja raunveruleikann og hvers vegna er þessi fíkn orðin svona stórt vandamál í Kína? Þessar spurning sem sitja eftir og er ekki reynt að svara í myndinni segir meira um kínverskt samfélag en innsýn inn í óhuggulega meðferðarstofnun.

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑