Bíó og TV

Birt þann 3. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Veislan byrjar í dag!

Reykjavík Shorts&Docs Festival hefst í dag og er hátíðin haldin í 12. sinn. Verða sýningar bæði í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum en hátíðinni lýkur 9. apríl næstkomandi. Er hátíðin heimavöllur innlendra og erlendra stutt- og heimildarmynda, en auk kvikmyndasýninga munu sérstakir viðburðir setja svip sinn á hátíðina. Það kennir ýmissa grasa á hátíðinni og því um að gera að kynna sér dagskrána vel. En ef þið hafið ekki tíma til þess að sjá nema tvær til þrjár myndir þá eru hér fyrir neðan þrjár myndir sem ég mæli sérstaklega með. Þó ég hafi ekki séð nema eina af þeim, Drifters, þá vekja þessar myndir sérstaka athygli mína. En auðvitað eigið þið að sjá allar myndirnar á hátíðinni enda verð ég að segja að svo virðist vera sem myndir hátíðarinnar séu hver annarri betri. Það er greinilegt að stutt- og heimildarmyndir eru að rokka heiminn nú sem aldrei fyrr!

20,000 Days on Earth er opnunarmynd hátíðarinnar og fjallar um sólarhring í lífi tónlistarmannsins Nick Cave. Blanda kvikmyndagerðarmennirnir saman raunverulegum atriðum og uppspuna. Það eru listamennirnir Ian Forsyth og Jane Pollard sem eiga heiðurinn af þessari mynd en þetta er þeirra fyrsta kvikmyndaverk í fullri lengd. Þau vinna mikið með tónlist í listsköpun sinni og það verður því áhugavert að sjá hvernig þau bræða saman þessa mynd um Nick Cave. Myndin er búin að fá mjög góða dóma og hlaut tvö verðlaun á Sundance kvikmyndahátíðinni á þessu ári.

Drifters. Þessi heimildarmynd skoska kvikmyndagerðarmannsins John Grierson ,sem einnig má segja að hafi verið frumkvöðull á sviði heimildarmyndagerðar, verður sýnd undir lifandi tónlist þann 6. apríl. Það er Jason Singh sem samið hefur tónlist fyrir myndina en Drifters er frá árinu 1929 og er upprunalega þögul mynd. Drifters kom út á þeim tíma þegar menn vissu varla hvað heimildarmynd var og Grierson var sá fyrsti sem notaði þetta hugtak, heimildarmynd, um myndina Moana sem Robert Flaherty gerði. En Flaherty gerði fyrstu heimildarmynd sögunnar í fullri lengd, Nanook of the North, sem sýnd var árið 1922. Í stuttu máli fjallar Drifters um sjómenn og þeirra daglegu störf á hafi úti.

Finding Vivian Maier er mynd sem ég hef beðið spenntur eftir að sjá. Ég heyrði fyrst af henni í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes fyrir löngu síðan. Myndin fjallar um John Maloof sem fyrir algjöra heppni kaupir kassa á uppboði sem inniheldur gríðarlegt magn af filmum. Hann framkallar þær og í ljós kemur að myndirnar eru mjög merkilegar og í ljós kemur að líf ljósmyndarans sem tók þær er ekki síður merkilegt. Þetta er fyrsta mynd John Maloof en hann er meðal annars að skrifa bók um líf Vivian. Ég læt trailer fylgja með þessari:

 

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér:

 

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑