Bíó og TV

Birt þann 11. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Fargo (1996)

Eins og mér finnst gaman að hrósa Bíó Paradís þá verð ég að byrja þessa umfjöllun á því að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með að á sýningu myndarinnar í vikunni var mjög hvimleiður og illa framsettur texti á myndinni. Það er gott og blessað að hafa textaða kvikmynd en þá væri ágætt að það væri almennilegur texti og áhorfendur látnir vita af því fyrir fram. Annað er að sum sætin í sal 1 kalla með ærandi ískri á smurningu. Vonandi verður þessi ábending mín tekin til skoðunar.

Frásögn Coen bræðra leiðir áhorfendur inn smábæinn Fargo. Vetrarríki þar sem íbúarnir lifa tilbreytingarlausu lífi og með sinn sérstaka og skemmtilega hreim sinna daglegu amstri af mikilli ró og spekt. Það breytist hins vegar þegar bílasölumaðurinn Jerry Lundegaard (William H. Macy) ræður tvo smákrimma Carl (Steve Buscemi) og Gaer (Peter Stormare) til þess að ræna konunni sinni. Kona Lundegaard er nefnilega dóttir auðjöfurs (Harve Presnell) og því blasa við Lundegaard gull og grænir skógar ef honum tekst að fá föður hennar til þess að greiða út lausnargjald. Inn í þennan vef blekkinga og lyga blandast svo ófríska lögreglukonan Marge Gunderson (Frances McDormand) þegar áætlanir smákrimmanna fara úr böndunum.

Coen bræður hafa í gegnum tíðina nánast aldrei skilað af sér gölluðu verki. Fargo kom út 1996 og hlaut mikið lof gagnrýnenda. Það er augljós ástæðan enda er ekki að finna vankanta á myndinni. Það gengur hreinlega allt upp. Coen bræður ná að spinna ótrúlega vel skrifaða sögu og með hárréttu leikaravali ná þeir bræður að skapa grípandi frásögn með svörtum húmor, spennu og dulúð. Enda toppuðu þeir sjálfa sig með litríkri persónusköpun í myndinni sem kom á eftir Fargo, The Big Lebowski (1998).

Coen bræður hafa í gegnum tíðina ávallt haft sama kvikmyndagerðargengið og því flýtur myndin áreynslulaust í gegn. Kvikmyndataka Roger Deakins spilar svo vel á móti ásækinni tónlist Carter Burwell og á vissum stöðum verður þetta samspil að súrrealískum skotum sem minna einna helst á draum.

Fargo

Fargo á margt sameiginlegt með öðrum kvikmyndum bræðranna. Hún gerist á afmörkuðu landsvæði. Peningar og græðgi koma við sögu sem hafa svo áhrif á siðferði aðalpersónanna og lítið er gert úr vitsmunum mannskepnunnar sem heldur að grasið sé aðeins grænna hinum megin. Það er togstreitan sem skapast á milli smábæjarfólksins og krimmanna sem gerir söguna mannlega og lausa við alla óþarfa skraut. Barnslega viðhorf flestra bæjarbúa og þá sérstaklega Gunderson gagnvart öllum vandamálum, t.d. hrottalegum morðum og óðum fyrrum skólafélaga er heillandi og skapar vægi við þögla og miskunnarlausa krimmann Gaer sem sænski leikarinn Stormare túlkar snilldar vel og minnir um margt á illmennið í No Country for Old Men (2007) sem Javier Bardem lék.

Eins og margar af bestu myndum bræðranna þá fjallar Fargo um tilgangsleysi og afleyðingar glæpa og hvernig við sem manneskjur þurfum að sættast við þann heim sem við búum í þrátt fyrir að hann geti verið grimmur og ljótur. Gunderson er lögreglukona og hefur valið sér starf þar sem hún þarf að takast á við ljótan heim en skjólið finnur hún í faðmi eiginmanns síns. Með því að sýna grimmdina og svo hennar heim utan vinnunnar, sem í fyrstu lítur út fyrir að vera tilbreytingarlítill og óspennandi, þá berst boðskapurinn skýrt til skila sem er að sætta sig við og rækta garðinn sinn og leita ekki of langt yfir skammt að hamingju.

Ég held að lokaorð lögreglustjórans (Tommy Lee jones) í upphafsatriði No Country for Old Men kallist á við þema Fargo: „The crime you see now, it’s hard to even take its measure. It’s not that I’m afraid of it. I always knew you had to be willing to die to even do this job. But, I don’t want to push my chips forward and go out and meet something I don’t understand. A man would have to put his soul at hazard. He’d have to say, „O.K., I’ll be part of this world.““

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑