Bækur

Birt þann 17. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Flóttinn til skýjanna eftir Kristján Má Gunnarsson

Byr í seglum gufuknúna flugskipsins

Í byrjun sumars fékk ég nýja rafbók eftir íslenskan höfund í hendurnar, ef svo má að orði komast um bækur í því formi. Flóttinn til skýjanna er fyrsta skáldsaga Kristjáns Más Gunnarssonar en hann er einnig einn af föstum pennum Nörds norðursins. Í upphafi bókarinnar er eftirfarandi spurningu varpað fram: „Hvað ef Rómverska heimsveldið hefði aldrei hrunið“. Heimur skáldsögunnar byggist svo á þessari hugmynd og gengur út á að mannkynssagan hafi þróast öðruvísi en við þekkjum hana og þar eru tækniframfarir áberandi ólíkar. Bókin tilheyrir grein gufupönksins (e. steampunk) sem er ein tegund vísindaskáldsagna. Gufupönkssögur gerast gjarnan á tímanum eftir iðnbyltingu og oft má sjá áhrif af Viktoríutíma Breta. Gufupönk er kennt við gufuna sem knýr vélarnar sem slíkar sögur skarta jafnan. Þannig er þessi tækni, sem er sköpuð í heimi gufupönksins, eitt af aðaleinkennum þess. Flóttinn til skýjanna í samnefndri bók er einmitt framkvæmdur með slíkri gufuknúinni vél og aðalpersóna verksins er verkfræðingurinn Trinius sem fær þá flugu í höfuðið að smíða flugskip úr venjulegu skipi.

Flóttinn til skýjanna tekur snemma á flug hvað varðar spennu og heldur lesandanum í því ástandi í gegnum verkið. Atburðarrásin er hröð og grípandi og höfundi tekst vel að sýna dýpt í persónum og afhjúpa smám saman hvað drífur þær áfram. Trinius er í upphafi verksins partur af hópi sem hefur fundið hina týndu borg Kronos og fjársjóð hennar. Það reynist hinsvegar ekki vera allt sem sýnist og ekki er öllum treystandi þó svo að Trinius rekist á margar gagnlegar týpur í leiðangri sínum. Ýmsir stærri atburðir spila inní hans sögu, einsog konungsmorð, fall ríkis og tækifærin en jafnframt hættan við tækniframfarir. Endir bókarinnar ber það með sér að von sé á framhaldi af sögunni og lesandi vonast eftir að fá þar svör við þeim spurningum sem enn er ósvarað.

Flóttinn til skýjannaÉg hafði einstaklega gaman af því, sem bókunnandi, að í verkinu er fjársjóðurinn í formi bóka og pappíra. Sú þekking sem þar býr er spennandi, verðmæt og hættuleg enda snýst eltingaleikurinn um þessar bókmenntir og teikningar. Það er dass af húmor í verkinu og ég hafði einkar gaman af því þegar ein persónan, sem er vanur bardögum, réttir hópi sagnfræðinga byssur og ætla að senda þessa fræðimenn, sem ekkert á byssur kunna, í bardaga.

Þeir gallar bókarinnar sem tengjast ónógum yfirlestri stungu oft mjög í stúf. Ég er ekki að segja að það hafi verið mýgrúi af innsláttar- eða stafsetningarvillum en stundum var greinilegt að yfirlestri var ábótavant. Þó svo að bókin sé einungis gefin út sem rafbók verða (a.m.k. sumir) lesendur pirraðir yfir slíkum frágangi. Sú yfirlestrarvilla sem olli mér mestum ruglingi var þegar ein persóna bókarinnar var kölluð öðru nafni í textanum, alveg uppúr þurru. Persónan Terentia sem er í upphafi bókar ástkona Triniusar er á einum stað kölluð Júlía. Það var ekki fyrr en lengra var komið í bókinni að persónan Júlía (sem er ekki sú sama og Terentia) var kynnt til sögunnar. Þessi nafnaruglingur hjá höfundi verksins var nokkuð skondinn en ákaflega ruglandi þangað til ljóst var að þetta eru yfirlestrarmistök. Hinsvegar er freistandi að lesa aðeins í þennan rugling í samhengi við kvenkynssögupersónur bókarinnar. Það er ekki hægt að segja að kvenpersónur verksins séu einvíðar og flestar þeirra eru sterkar persónur. Þær gegna samt að einhverju leyti hlutverki kynferðislegra viðfanga fyrir Trinius. Þetta hlutverk þeirra gæti útskýrt hvers vegna höfundur ruglar tveimur þeirra saman. Kvenpersónurnar eru margar hverjar áhugaverðar, sér í lagi sjóræningjakapteinninn sem í bókinni hefur misst eiginmann sinn og ákveður að taka við hlutverki hans og stöðu með tilheyrandi slag við hugmyndir sjóræningjanna um hlutverk og viðeigandi stöðu kvenna.

Höfundur leikur sér með myndmál sem kallast á við bókmenntagreinina sem verkið tilheyrir og tekst vel til við að draga fram sérkenni söguheimsins á því sviði.

Höfundur leikur sér með myndmál sem kallast á við bókmenntagreinina sem verkið tilheyrir og tekst vel til við að draga fram sérkenni söguheimsins á því sviði. Þannig er í upphafi verksins einni aukapersónu lýst svona: „Það voru fallbyssur í skrefum [hans], herskip skinu í brosinu og máttur veldisins brann í augum hans“. Þetta óhefðbundna myndmál virkar vel til þess að gera lesanda ljóst frá upphafi að heimsmynd verksins er ólík okkar og að hernaður og tækni gegna mikilvægu hlutverki í því. Höfundi tekst ágætlega til við þetta en stundum er málfarið full yfirhlaðið og jafnvel tilgerðarlegt. Þess verður þó að geta að það kallast á við gufupönkið sem bókmenntagrein en því fylgir gjarnan ákveðinn og jafnvel ýktur stíll. Í Flóttanum til skýjanna er mikil áhersla lögð á að lýsa klæðnaði persóna og hann minnir oft að verulegu leyti á viktoríska tísku. Í bókinni er korselettið eða lífstykkið sem Trinius rífur Terentiu úr snemma í bókinni áberandi fyrrialdarleg: „Stykkið var úr flauel[i], beinum og silki og var eins og skel, umvafði hana að framan og bundið saman með fínum leðurólum að aftan“. Slík stílísering einsog sést í klæðnaðinum staðsetur einnig verkið innan gufupönksins.

Þrátt fyrir að vera ekki gallalaus er bókin Flóttinn til skýjanna spennandi lestur og hin öra þróun í söguþræði gerði það að verkum að hún hentaði einkar vel sem lestur í fríinu. Svo er líka gaman að sjá að nýir íslenskir höfundar eru að prófa sig áfram í bókmenntagreinum sem ekki er sterk hefð fyrir hér á landi, einsog vísindaskáldsagan og nánar tiltekið gufupönkið. Hinsvegar væri óskandi að útgefnar bækur fengju betri yfirlestur, jafnvel þó að um rafbók hjá minni útgáfufyrirtækjum sé að ræða.

 

Höfundur er Elín Björk Jóhannsdóttir,
meistaranemi í bókmenntafræði.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑