Bíó og TV

Birt þann 24. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ástarsaga eftir Ásu Hjörleifsdóttur í Palm Springs

Stuttmyndin Ástarsaga eftir Ásu Hjörleifsdóttur hefur verið valin til sýninga á alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni í Palm Springs í Californiu sem fer nú fram, en sú er ein virtasta stuttmyndahátíð í heimi. Myndin, sem var útskriftarmynd Ásu úr kvikmyndagerðardeild Columbia háskóla í New York, hefur verið sýnd á yfir 20 hátíðum síðan hún var frumsýnd á RIFF 2012, þar sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Myndin er framleidd af Vintage Pictures (Hlín Jóhannesdóttir og Birgittu Björnsdóttir) og Andrew Hauser, en með helstu hlutverk fara Katherine Waterston (sem fer nú með lykilhlutverk í næstu mynd Paul Thomas Anderson), Walter Grímsson, Elva Ósk Ólafsdóttir og Kristján Franklín Magnús. Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Arnars Þórissonar.

Ástarsaga hefst í New York, þegar kærasti Solange – hinn íslenski Baldur – hverfur skyndilega af heimili þeirra og dúkkar svo upp í Reykjavík. Solange ákveður að elta hann, en þegar til Íslands er komið er lítið um svör. Þvert á móti tekur við enn stærri ráðgáta.

Ástarsaga hefur hvarvetna hlotið góðar viðtökur, og var t.a.m. í keppni á hinni virtu stuttmyndahátíð í Clermont-Ferrand í Frakklandi í febrúar, og komst einnig í lokaúrslit fyrir nemenda-óskarinn í Bandaríkjunum, þ.e. „The Student Academy Awards“, en það eru Óskarsverðlaun í flokki útskriftarmynda úr skólum. Nánari upplýsingur um Ástarsögu má sjá hér: www.facebook.com/Astarsaga.

– Fréttatilkynning, 20. júní 2013.
Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑