Leikjarýni

Birt þann 28. júní, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Stríðspöddur Starship Troopers

Stríðspöddur Starship Troopers Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Fínn leikur, sem er góð skemmtun.

3

Góður


Árið 1959 kom út bókin Starship Troopers eftir sci-fi rithöfundinn Robert A. Heinlein. Bókin var gagnrýnd fyrir sterkan áróðurs tón á stríðsátök sem setti hermennskuna og á vissan stall og gerði blóðug átök talsvert fegurri en þau voru í rauninni. Bókin var skrifuð á kaldastríðstímanum og ber þess viss merki í hvernig persónur og átök sögunnar eru sett fram. Bókin fékk þó góðar viðtökur og Heinlein fékk Hugo bókmenntaverðlaunin árið eftir fyrir Starship Troopers.

Bókin er líklega þekktasta og vinsælasta verk hans, en einnig má nefna bækur eins og Stranger in a Strange Land, Have Space Suit Will Travel, The Puppet Masters og The Moon is a Harsh Mistress. Með Starship Troopers náði Heinlein að setja sig í sama flokk og Isaac Asimov og Arthur C. Clarke.

Árið 1997 kom út kvikmynd byggð af bókinni en í stað þess að hylla hermennsku og vera vist áróðurstæki eins og bókin var sökuð um, þá var hún ákveðin ádeila á málin í staðin.

Hollenski leikstjórinn Paul Verhoeven leikstýrði myndinni. Hann hafði orðið þekktur fyrir kvikmyndirnar RoboCop frá árinu 1987 og Total Recall frá 1990.

Ég man vel eftir að hafa farið á Starship Troopers í Borgarbíó á Akureyri án þess að vita of mikið um hana og komið út af henni í pínu sjokki og labbað beint að miðasölunni og keypt mér miða á hana aftur.

Síðan þá hef ég haldið mikið upp á þessa mynd og horft á hana reglulega, hún er í „dumb fun“ flokknum hjá mér og ég hef gaman af hasarnum og háðinu sem er í henni.

Síðan þá hafa komið út misgóðar framhaldsmyndir, sjónvarpsþættir og auðvitað tölvuleikir. Árið 2000 var það Starship Troopers: Terran Ascendancy herkænskuleikur sem fékk sæmilega dóma, 2005 var það fyrstu persónu skotleikurinn Starship Troopers sem fór lítið fyrir og nú fyrir stuttu kom út Starship Troopers: Terran Command á PC. Leikurinn er hannaður af belgíska fyrirtækinu The Aritocrats.

Terran Command er herkænskuleikur sem minnti mig talsvert á Company of Heroes leikina. Það er ekki lögð áhersla á að safna auðlindum af kortinu og byggja upp herstöð, heldur meira lagt upp úr herkænsku, hæfileikum vissra herdeila og nýta umhverfið í baráttu við pöddur leiksins. Leikmenn þurfa að láta vistirnar sem þeir fá endast, finna nýjar á kortum leiksins og passa sig að missa ekki of marga hermenn í einu og láta pöddurnar rúlla yfir sig.

Umhverfið skiptir talsvert máli og getur skipt sköpum þegar hundruðir arachnid pöddur streyma í áttina að þér. Að setja réttar hersveitir á réttan stað með góðan sjónlínu á óvinina er lykilatriði að vinna oft. Sjónlína óvinanna og þíns er eitthvað sem getur ráðið úrslitunum. Að sjá hermenn þína drita niður pödduherinn með að lokka þá inn í þröngt umhverfið þar sem þínir hermenn eru með vopn sín öll miðuð að þeim er oft mjög ánægjulegt.

Þú getur drepið þína eigin menn með að stilla upp vitlaust svo það borgar sig að skipuleggja sig vel. Vissar hersveitir hafa vissa hæfileika sem er hægt að bæta með notkun þeirra og velja síðan á milli vissra hæfileika, það er auðvelt að láta mismunandi hermenn sömu tegundar vera með ólíka hæfileika til að ná að auka sigurlíkur þínar. Pöddurnar hafa fjöldann á meðan þú hefur vopn þín og hernaðar taktík til að lifa af.

Saga leiksins er sögð í svipuðum stíl og kvikmynd Verhoeven, og eru sögu kaflar leiksins settir upp í sama stíl og áróðursefni myndarinnar. Sagan er seint einhvern bylting, leikurinn reynir að ná sama stíl og tóni myndarinnar en því miður nær því ekki alveg, það sem svíkur hann helst að mínu mati er raddleikur persónanna. Það er ekki nauðsynlegt að hafa einhverjar Hollywood stjörnur í þessum hlutverkum, heldur hefði mátt vera aðeins meiri innlifun og líklega betra handrit fyrir leikarana að vinna eftir.

Plánetan Kwalasha er sögusvið leiksins og er herinn sendur inn til að bjarga verðmætum auðlindum frá pöddunum sem myndu stöðva stríðsvél mannkynsins. Það eru 19 borð til að spila í gegnum sögu leiksins og síðan tvö sérstök áskorunnar borð að takast á við og eitt að auki sem byggir á aðal orrustu Starship Troopers myndarinnar á Klendathu heimaplánetu paddanna.

Það tók mig rétt um 12 tíma að spila mig í gegnum sögu leiksins í miðlungs erfiðleika stillingunni.

Það voru sumir partar sem voru pínu pirrandi og var það helst þegar ég þurfti að fylgja einhverri persónu um eða laumast um borð leiksins. Undir lokinn þá verður leikurinn aðeins erfiðari og þá var fínt að hafa valkostinn að breyta erfiðleika stillingunni ef maður gafst upp, leikurinn er annars með fínt kerfi að vista árangurinn þinn reglulega svo þú tapar sjaldnast of miklu ef að allir hermenn þínir deyja. Ég lenti ekki í neinum alvarlegum villum að spila leikinn, helst var gervigreind leiksins stundum treg að senda sveitirnar mínar á réttan stað á kortinu.

Ég hefði alveg verið til í meiri uppbyggingar möguleika eins og oft er í herkænskuleikjum eins og Command & Conquer, að geta aðeins byggt upp stöð þína hefði verið gaman. En ég skil af hverju það er ekki, þú átt að vera yfir hermönnum sem eru að berjast við ofurefli og þurfa að notast meira við hugvit og kænsku í stað að geta mokað út endalausum herdeildum eða skriðdrekum.

Það er ljóst að Terran Command er gerður að litlu fyrirtæki sem hefur dálæti á viðfangsefni leiksins og hefur lagt talsverða vinnu í að ná sem best stíl myndarinnar og tóni. Það hjálpar einnig að leikurinn er á $29,99 eða tæplega 4 þúsund krónur, sem er töluvert minna en stærri leikir í þessum bransa. Leikurinn er pínu grunnur í spilun og útliti, en á sama tíma er ekki mjög flókinn og er auðveldur að hoppa inn í til að spila hann. Það hefði helst verið gaman að fá möguleikann að búa til sín eigin verkefni í leiknum eða spila á móti gervigreind leiksins í „skirmish mode“ eins og er svo algengt í RTS leikjum.

Ef ykkur langar að spila ekki flókinn og vel verðlagðan herkænskuleik í Starship Troopers heiminum þá er ekki vitlaust að kíkja á þennan leik.

Eintak var í boði framleiðanda

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑