Bíó og TV

Birt þann 11. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

„Páll Óskar er velkominn í spjall“ – Nörd Norðursins heimsótti Kvikmyndasafn Íslands

Eftir sýningu Svartra Sunnudaga í Bíó Paradís síðastliðinn sunnudag, sem haldin var í tilefni af afmæli bandaríska leikstjórans Roger Corman, þá birtist hér á síðunni viðtal við Pál Óskar og í því viðtali gagnrýndi hann Kvikmyndasafn Íslands. Hann sagði að þeir væru ekki að sinna sínu hlutverki og hefði hann meðal annars reynt að hafa samband við þá því hugmyndin var að sýna Pit and the Pendulum eftir Roger Corman. Palli sagði að ekki hefði náðst samband við kvikmyndasafnið og því hefði verið fallið frá því að sýna myndina í fullri lengd.

Vegna þessarar gagnrýni fannst mér nauðsynlegt að fá svar frá Kvikmyndasafninu og setti ég mig í samband við forstöðumann safnsins, Erlend Sveinsson. Á sólríkum miðvikudagsmorgni hélt ég til Hafnarfjarðar þar sem Kvikmyndasafnið er með sína aðstöðu. Erlendur tók á móti mér og sýndi mér allt safnið og fræddi mig um starfsemina. Fljótlega varð mér ljóst að starfsemi safnsins er miklu viðameiri en ég hafði gert mér í hugarlund.

Fjármagnið er af skornum skammti

Kvikmyndasafn_Islands_logoKvikmyndasafn Íslands geymir safnkost sinn í mjög rúmgóðu húsnæði á Hvaleyrarbrautinni og sýningar safnsins fara fram í Bæjarbíói, sem stendur við Strandgötu 6. Þar fara fram sýningar á þriðjudögum kl: 20 og á laugardögum kl: 16. Starfsemi Kvikmyndasafnsins er fjórþætt: söfnun, varðveisla, skráning og miðlun. Flest allt sem við kemur kvikmyndum og kvikmyndagerð er varðveitt í safninu. Þar á meðal kvikmyndaarfurinn frá upphafspunkti reglubundinna kvikmyndasýninga á Íslandi árið 1906, mikið af efni sjónvarpsstöðva og prentefni ýmisskonar auk tækja til kvikmyndagerðar og sýninga frá upphafi þessarar starfsemi hér á landi. Filmur, myndbönd og diskar í eigu safnsins eru 80.802 og titlarnir eru 22.800, sem segir að vísu ekki alla söguna um titlana því þeir skiptast í ýmsa flokka, eins og frumtitla, þýdda titla, vinnutitla, safnstitla o.s.frv. Enn er mikið efni í safninu, sem á eftir að skrásetja eða fullskrá og því gefa þessar tölur ekki fullkomna mynd af safnkostinum. Samkvæmt skilaskyldulögum tekur safnið á móti öllum íslenskum kvikmyndum sem og erlendum kvikmyndum sem sýndar eru hér á landi á almennum kvikmyndasýningum með íslenskum texta.

Því miður þá hefur fjármagn til safnsins verið af skornum skammti frá upphafi. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2013 þá fær stofnunin 51,9 milljónir króna en til samanburðar má benda á að safnið Gljúfrasteinn fær rúmar 30 milljónir.

Því miður þá hefur fjármagn til safnsins verið af skornum skammti frá upphafi. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2013 þá fær stofnunin 51,9 milljónir króna en til samanburðar má benda á að safnið Gljúfrasteinn fær rúmar 30 milljónir. „Gróft sagt þá fer þetta fjármagn í laun, húsaleigu og orku og þegar þetta er frá eru einungis örfáar milljónir eftir í allt það sem gera þarf. Við leitumst við að sinna eftir fremsta megni grunnþáttunum fjórum í starfsemi safnsins,“ segir Erlendur þegar talið berst að fjárveitingum til Kvikmyndasafnsins og bendir á að vegna stafrænu tækninnar geti safnið ekki lengur dregið það við sig að aðlaga sig að breyttum söfnunaraðferðum og varðveislutækni fyrir næstu áratugi. „Með vissum hætti standur safnið nú frammi fyrir nýju upphafi,“ segir Erlendur. „Safnið þarf að byggja upp geymsluaðstöðu sína frá grunni og þar með leggja út í stofnkostnað til að geta haldið áfram að gegna lögbundnum skyldum sínum, sem er að tryggja varðveislu kvikmyndaarfsins um ókomin ár. Þótt filmur séu viðkvæmt efni til varðveislu eru stafrænar kvikmyndir ekkert síður viðkvæmar og geta auðveldlega horfið út í tómið á andartaki krassi diskar án afrita.

Kvikmyndasafn Íslands
Kvikmyndasafn Íslands

Það hafa margir gagnrýnt dagskrá safnsins og telja safnið ekki vera með fjölbreytta dagskrá. Erlendur mótmælir þessu: „Ef farið er í gegnum sýningaskrár safnsins síðast liðinn áratug kemur í ljós hversu fjölbreyttar sýningar safnsins hafa verið en áherslan hefur verið á að gefa innsýn í kvikmyndasögulegt samhengi, bæði hér heima og erlendis. Við höfum kynnt úrvalsverk fjölmargra heimskunnra kvikmyndahöfunda, sýnt myndir frá ýmsum þjóðlöndum, sinnt stefnum og straumum, dregið fram kvikmyndir sem þóttu bera af þegar gullöld kvikmyndasýninga var í Hafnarfirði á sjöttu og sjöunda áratugnum, lagt áherslu á þátt kvikmyndatökumannsins í gerð kvikmynda og annað því um líkt, sinnt íslensku kvikmyndasögunni með ýmsum hætti, boðið upp á aukamyndir á undan aðalsýningu, rifjað upp þrjúbíómyndafyrirbærið, gert upp myndir til sýningar, gengist fyrir sýningum þögulla mynda með lifandi hljóðfæraleik og þannig mætti lengi upp telja. Í fyrra var bryddað upp á þeirri nýbreytni að tileinka sýningar hvers mánaðar einu ári í kvikmyndasögunni til að undirstrika andrúm fortíðarinnar á mismunandi tímum og draga fram hvað var að gerast um líkt leyti í mismunandi löndum og tengja við kvikmyndasýningar og kvikmyndagerð á Íslandi á þessum sama punkti í tímanum,“ segir Erlendur og bætir við: „Það er þó endalaust hægt að velta því fyrir sér hvað eigi að sýna og hvað megi gera betur og hvort sýna þurfi oftar en gert er en við höfum verið að marka okkur sérstöðu með sýningarstefnu sem sker sig frá öllu öðru sem er á boðstólum í landinu og það tengist jafnframt því að fólk getur gengið út frá því að sýningarnar byrja á slaginu, með því að sýningartjaldið dimmrauða er dregið frá, sýnt er án hlés og án poppkorns og án auglýsinga.

Hann bendir líka á að framtíðarsýn safnsins sé sú fólk geti gerst áskrifandi af sýningum safnsins og þannig fengið dagskrá þess heim í stofu. Fyrsta skrefið í þessa átt er ætlunin að stíga með því að hafa efni, sem safnið hefur rétt til að sýna í boði í Voddinu (VOD). Undirbúningur slíkra sýninga er þegar hafinn og gæti komið til framkvæmda næsta vetur ef allt fer að óskum.

Erlendur Sveinsson
Erlendur Sveinsson

Páll Óskar og Star Wars

Eins og kom fram í inngang þessarar greinar þá vildi Palli fá að sýna Pit and the Pendulum í fullri lengd en það eintak er til hjá safninu. „Við eigum bara eitt eintak af myndinni og þegar við eigum bara eitt eintak þá er það varðveislueintak og varðveisla þess er ekki tryggð ef sýna á það það á svokölluðum platta sýningarvélum, eins og Páll hefði þurft að gera. Við fengjum aldrei lánaðar kvikmyndir frá kvikmyndasöfnum erlendis ef við hygðumst sýna þær á plöttum,“ segir Erlendur og bendir á að þegar kvikmynd er sýnd á platta þá þarf að líma spólurnar 5 – 6 að tölu saman fyrir sýningu og síðan taka límingarnar upp að sýningu lokinni og koma myndinni aftur yfir á spólurnar. Í þessu ferli getur margt gerst sem ógnar varðveislu sýningareintaksins sem Kvikmyndasafninu er skylt að varðveita. „Þess vegna setja Kvikmyndasöfnin erlendis þau skilyrði að þær myndir sem þau lána systursöfnum sínum séu sýndar á tveimur sýningarvélum eins og Kvikmyndasafn Íslands hefur yfir að ráða í Cinemateki sínu í Bæjarbíói. Það er síðan annað mál að kvikmyndasöfn lána ekki safngripi sína til sýningar í bíóum sem lúta markaðslögmálum og þurfa að sýna kvikmynd eins lengi og aðsókn leyfir. En ef það á að ganga í tilviki menningarlegs listabíós eins og Bíó Paradísar, þar sem Páll Óskar hefur verið með sínar sýningar, þurfa að liggja fyrir öll tilskilin leyfi frá dreifingaraðilanum/rétthafanum. Þá væri hægt að lána eintak ef safnið varðveitir svo fremi að aukaeintak sé til til viðbótar við varðveislueintakið.

Það er ljóst að ekki er hægt að grípa mynd úr hillum safnsins og sýna þær í kvikmyndahúsi eins og kemur í ljós þegar ég spyr Erlend hvort þeir eigi upprunalegu Star Wars myndirnar á filmu.

Star WarsÞað er ljóst að ekki er hægt að grípa mynd úr hillum safnsins og sýna þær í kvikmyndahúsi eins og kemur í ljós þegar ég spyr Erlend hvort þeir eigi upprunalegu Star Wars myndirnar á filmu?: „Já við eigum þær og við reyndum einu sinni að fá leyfi til að sýna þær og höfðum þá samband dreifingaraðilann erlendis en í því tilviki var sýningarrétturinn svo hátt verðlagður að útilokað var að festa kaup á honum. Við getum ekki virðingu okkar vegna og vegna stöðu okkar í alþjóðasambandi kvikmyndasafna (FIAF) bara gripið mynd úr hillum safnsins þegar okkur sýnist og sýnt hana eða lánað út án þess að leitað sé til dreifingaraðilans í þeim tilvikum þegar safnið hefur ekki tryggt sér sýningarrétt. Það gerist hins vegar stundum þegar það fær kvikmyndir til varðaveislu en þá er sá réttur oft bundinn við sýningaraðstöðu kvikmyndasafnsins,“ segir Erlendur og ég verð mjög leiður að heyra þetta, hvarflaði að mér að punga bara út pening úr eigin vasa til að fá að sjá Star Wars á filmu. En eflaust myndi það setja mig á hausinn svo ég hélt áfram með viðtalið.

Eflaust kemur það mörgum á óvart að safnið sé ekki í nánara samstarfi við Bíó Paradís en Erlendur telur að safnið verði að marka sér sérstöðu og hlúa að sinni ímynd.

Eflaust kemur það mörgum á óvart að safnið sé ekki í nánara samstarfi við Bíó Paradís en Erlendur telur að safnið verði að marka sér sérstöðu og hlúa að sinni ímynd. „Hluti að þeirri ímynd og sjálfstæði er sýningarhald safnsins í eigin sýningaraðstöðu. Safnið stýrir rekstri Bæjarbíós þótt það eigi ekki bíóið og vinnur að því að endurbæta aðstöðuna þar eftir megni og svo má ekki gleyma því að lögum samkvæmt á safnið að sýna safnkost sinn líkt og öll önnur söfn. Um kvikmyndasafnið gildi nákvæmlega það sama hvað þetta varðar eins og Listasafn Íslands eða Þjóðminjasafnið. Það veganesti sem ég fékk á sumarskóla alþjóða kvikmyndasafnasambandsins fyrir margt löngu var að jafnvægi skyldi ríkja á milli hinna fjögurra grunnþátta kvikmyndasafnastarfseminnar, þ.e. söfnunar, varðveislu, skrásetningar og miðlunar/sýningarhalds. Um þetta ríkir sátt í safnasamfélaginu og á ekki bara við um kvikmyndasöfn,“ segir Erlendur.

Filman vs. stafrænt

Það eru margir sem sakna filmunnar og telja ákveðna áru fylgja henni. Því spurði ég Erlend hver hans afstaða væri þegar rætt er um filmuna á móti stafrænu tækninni. „Ég er filmu maður,“ segir Erlendur og bætir við: „Megnið af mínum kvikmyndagerðarárum var ég í filmunni og ég og samstarfsmenn mínir vorum mjög harðir á því að stafræna tæknin myndi aldrei verða neitt í líkingu við filmuna. En þetta reyndist svo ekki vera rétt og nú löngu síðar fara menn að rómantísera rispur og snark á kvikmyndasýningum. En þetta eru bara ellimörk og slit á gömlum filmum því kvikmynd er ekki gerð með það fyrir augum að vera sýnd með rispum eða hárum. Við viljum samt halda í þessa filmu áru, sem þú kallar svo og því er Bæjarbíó filmu-bíó þar sem suðið í sýningarvélinni heyrist niður í sýningarsalinn. En ætli væri ekki sanni nær að segja að við leitumst við að bjóða upp á kvikmyndasýningu sem kemst næst því að vera í þeim anda sem var þegar kvikmyndin sem sýnd er var gerð.“

Það er hægt að segja að krúnudjásn safnsins sé til að mynda slökkviliðsæfing frá árinu 1906, það var kannski stærsta upplifun mín sem safnamanns þegar ég hafði upp á henni á sínum tíma.

YojimboErlendur er umvafinn kvikmyndum í sínu starfi og því við hæfi að spyrja hann hvaða kvikmyndir séu í uppáhaldi hjá honum sjálfum. Hann tók sér smá umhugsunartíma enda ekki auðveld spurning. „Það er hægt að segja að krúnudjásn safnsins sé til að mynda slökkviliðsæfing frá árinu 1906, það var kannski stærsta upplifun mín sem safnamanns þegar ég hafði upp á henni á sínum tíma. Ég get líka sagt að Íslandsmynd Kapteins Dam sé mín uppáhalds kvikmynd enda magískt verk. Dam gómar svo vel andrúm gamla Íslands rétt áður en stríðið braust út og í framhaldi af því breyttist síðan allt, kyrrstaðan rofnaði,“ segir Erlendur. Hans uppáhaldsleikstjóri er Akira Kurosawa sem gerði hvert meistaraverkið á fætur öðru og hann var ekki einn að störfum í Japan á þessari gullöld þeirra um miðja síðustu öld, Ozu kemur í hugann og Kobayashi. „Sergio Leone stendur einnig hjarta mínu nær. Maður horfir á hverju ári á þríleik hans A Fistful of Dollars, For a Few Dollars More og The Good, the Bad and the Ugly þetta er svo mikil kvikmyndalist,“ segir Erlendur og minnist þess þegar safnið sýndi Yojimbo eftir Kurosawa, A Fistful of Dollars og Hrafninn flýgur til þess að draga fram samhengið í þessum þremur myndum, sýna líkindin og hvernig ein mynd sprettur af annarri, en grunnurinn var Kurosawa.

Það er óhætt að segja að Kvikmyndasafn Íslands sé mjög mikilvæg stofnun þegar kemur að varðveislu kvikmynda og greinilegt er að vilji er fyrir hendi til þess að vera með fjölbreyttari kvikmyndasýningar og meiri fræðslu til almennings en gert er. Því miður þá láta peningarnir hjólin snúast innan svona stofnunnar og þegar þeir eru af skornum skammti þá er ekki auðvelt að uppfylla þarfir allra, þótt fáskipuð sveit úrvalsstarfsmanna safnsins leggi sig alla fram. Erlendur beindi svo orðum sínum til Palla í lokin: „Páll Óskar er velkominn í spjall upp á safn og þá ég get sýnt honum hvað við erum að sýsla hérna og hverju hefur verið áorkað, þrátt fyrir allt fjársveltið.

Þeir sem vilja fræðast betur um Kvikmyndasafnið er bent á heimasíðu þess og svo er safnið einnig á Facebook.

 

Myndir:
Myndina af Erlendi tók Ragnar Trausti,
myndin af Kvikmyndasafninu er fengin úr afmælisriti safnsins (bls. 3).

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Tengt efni:

B-myndirnar gera árás á Svörtum Sunnudegi og viðtal við Pál Óskar
Sýningar Kvikmyndasafns Íslands 2012-2013

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑