Birt þann 15. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Myndasögurýni: Spider-Man: Reign
Sagan er skrifuð og myndskreytt af Kaare Andrews, gefin út af Marvel árið 2006 og kom út í fjórum blöðum. Andrews hefur meðal annars unnið við myndasögur á borð við Ultimate X-Men, The Amazing Spider-Man, Incredible Hulk og The Matrix Comics. Hann hefur einnig hannað plötuumslög, leikstýrt tónlistarmyndbandi og leikstýrt mikið af stuttmyndum. Til gamans má geta að árið 2010 gaf Andrews út myndina Altitude og er með mynd í bígerð frá sömu framleiðendum sem færðu okkur myndir á borð við Armageddon, Terminator og Aliens.
Sagan fylgir okkur 30 ár inn í framtíðina þar sem Peter Parker hefur hætt öllu veggja klifri og hetjudáðum. Í þessari framtíð er engin þörf á hetjum þar sem ofur uppfærðir glæpamenn heyra nú sögunni til. Löggæsla gæti reyndar átt mikinn þátt í þessum skorti á glæpamönnum. Yfirvöldin hafa sett á laggirnar miskunnarlausa lögreglu sem kallast „The Reign“. Þrátt fyrir að heimurinn sé orðinn friðsælli þá var það algjörlega á kostnað frelsi almennings. Parker vinnur núna í blómabúð, en það er skemmtileg kaldhæðni að köngurlóamaðurinn vinni þar.
Það eru nokkrir hlutir sem gera þessa sögu sérstaka, þar á meðal eru tengslin við útgáfu myndasögunnar Batman: The Dark Knight Returns eftir Frank Miller kom út árið 1986. Andrews bjó meira að segja til karakter í sögunni til heiðurs Frank Miller og Klaus Janson. Hann er ekkert að fara leynt með að saga þeirra félaga er mikill áhrifavaldur á Spider-Man: Reign. The Dark Knight Returns segir frá Bruce Wayne, þá 55 ára gamall, og endurkomu hans sem Batman. Líkt og Hr. Wayne þá kemst Parker í þær aðstæður að hann þarf að grafa upp gamla búninginn.
Þetta er mjög drungaleg bók, bæði í myndskreytingu og hvernig hún er skrifuð.
Það er alltaf heillandi að sjá Peter Parker í óvenjulegum aðstæðum, allavega á þann hátt sem brýtur aðeins upp þessa klassísku ímynd sem flestir eru vanir að lesa. Þar sem sagan er 30 ár inn í framtíðina þá hafa vissir krakterar þróast, sumir á frekar frumlegan hátt. Þetta er mjög drungaleg bók, bæði í myndskreytingu og hvernig hún er skrifuð. Það er athyglisverð pæling hvernig heimurinn er settur upp, hvernig hann gæti þróast ef yfirvöld myndu herða tök sín á lög og reglu. Það sem heillar mest við þessa sögu er að hugmyndafræði nútímans sést greinilega í þessari framtíðarsýn Andrews. Myndskreyting er líka frekar ávanabindandi, veit að það er frekar kjánaleg lýsing en það er frekar erfitt að heillast ekki af henni. Húmorinn er frekar kaldhæðinn, oft vel falinn og kemur ekki beint fyrir í tali heldur meira í aðstæðum og umhverfi.
Spider-Man: Reign hefur fengið misgóða dóma hjá gagnrýnendum þar sem margir telja Andrews vera að herma eftir sögu Frank Miller. Það fer auðvitað algjörlega eftir því hvernig fólk vill líta á þetta. Er Andrews að sækja innblástur eða herma eftir einni af betri sögum sem hefur verið sögð í myndasögum? Það er fyrir hvern og einn að ákveða.
Þetta er þétt skrifuð, vel teiknuð og mjög áhugaverð lesning sem allir aðdáendur Lóa ættu allavega að gefa tækifæri.
Höfundur er Helgi Freyr Hafþórsson,
nemi í fjölmiðlafræði.