Bíó og TV

Birt þann 4. mars, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Pee-wee’s Big Adventure (1985)

Svartir sunnudagar sýndu í gærkvöldi ævintýramyndina um Pee-Wee Hermann sem er án efa ágætis sálarmeðferð eftir allar skrautlegu myndirnar sem Svartir sunnudagar buðu upp á í febrúar, og kenndu við hið forboðna. Með Pee-Wee´s Big Adventure var skilið algjörlega við ógeðið og karnivalinu gefinn laus taumur. Því það var engu líkara en að sirkusinn hefði komið í Bíó Paradís og Pee Wee var sirkusstjórinn.

Pee-Wee´s Big Adventure er miklvægur hluti af ferli leikstjórans Tim Burton. Hún var fyrsta myndin sem hann gerði í fullri lengd og kom út stuttu eftir að honum var sparkað úr herbúðum Walt Disney fyrirtækisins þar sem hann hafði unnið sem teiknari. Tim Burton var fenginn af aðalleikara myndarinnar Paul Reuben til að leikstýra ævintýramynd og átti sú ræma að snúast um líf persónunnar Pee-Wee Hermann sem Reuben hafði leikið í nokkurn tíma og var persóna hans orðin vinsæl í sjónvarpsþáttum og á sviði. Myndin kostaði tæpar átta milljónir bandaríkjadollara í framleiðslu og þénaði um 40 milljónir, sem þykir nokkuð góð búbót og hefur átt sinn þátt í því að koma Burton almennilega á kortið.

Í myndinni er boðið upp á sérkennilegan heim Pee-Wee Hermann, sem er fullorðinn maður en hegðar sér eins og þroskaskert afkvæmi James Bond, kynlaus, hálf geggjaður, barnalegur og beitir rödd sinni eins og hann sé með margbrotinn persónuleika. Hann býr í húsi fullu af leikföngum og elskar ekkert meira en rauða og hvíta hjólið sitt. Pee-Wee er áhugaverðasta persóna myndarinnar og kemst enginn leikari með tærnar þar sem Reuben hefur hælana. Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að einn góðan veðurdag er hjólinu hans Pee-Wee stolið og hefst þá leit hans að hjólinu og úr verður vegamynd þar sem hann ferðast á milli ólíkra staða og hittir á leið sinni hinar ýmsu persónur sem veita honum hjálp eða ógna verkefni hans á einhvern hátt, söguþráðurinn er ekki flóknari en þetta gott fólk.

Það sem ljær þó myndinni mestan kraft er samspil myrkurs og ljóss, sem einnig er mjög þekkt í myndum Burtons.

Myndin er mikil veisla fyrir augað og beitir Burton sérkennum sínum óspart. Til að mynda notast hann á köflum við leir-hreyfimyndir sem hann er snillingur í að gera. Litir eru einnig mjög áberandi og persónurnar margar skrautlega klæddar og öll lýsing og kvikmyndataka einkennandi fyrir Burton. Það sem ljær þó myndinni mestan kraft er samspil myrkurs og ljóss, sem einnig er mjög þekkt í myndum Burtons. Það er áberandi hvað myndin verður á köflum skuggaleg og drungaleg miðað við að eiga að vera fjölskyldumynd, til að mynda umbreytist Pee-Wee Hermann í geðsjúkling þegar hann heldur fund í illa upplýstum kjallaranum heima hjá sér. Minnir um margt á persónu Dr. Jekyll og Mr. Hyde. Í öðru atriði sem er meistaralega útfært er Pee-Wee sparkað út úr bíl um miðja nótt og engin ljós nálægt. Atriðið er þannig gert að einungis hljóðið heyrist og það eina sem sést á tjaldinu er hvítan í augum Pee-Wee.

Pee Wees Big Adventure

Það er í raun erfitt að staðsetja myndina, er hún absúrd allegoría um hinn glórulausa kana sem sækist eftir merkingarlausum hlutum í lífi sínu og lifir sig inn í draumheim kvikmynda og hugmyndafræði Disney? Er Burton að gefa Disney fingurinn að einhverju leyti með myndinni, enda hefðu sum atriði myndarinnar án efa lent á klippigólfinu þar? Eða er myndin einungis fjölskyldumynd og sirkus þar sem mörg atriði virðast vera algjörlega óskiljanleg og minna á atriði úr kvikmynd eftir David Lynch, sem dæmi mætti nefna þegar Pee-Wee kynnist bílstjóranum Marge.

Það er óhætt að segja að myndin sé mikil skemmtun fyrir skynfærin. Því miður er söguþráðurinn þó algjör þvæla, leikararnir flestir hörmulegir og mörg atriði sem hefði mátt stytta til muna og jafnvel sleppa. Það sem heldur myndinni þó uppi er leikur Paul Reuben sem Pee-Wee en persónan sem hann hefur skapað er með ólíkindum margslungin og marglaga. Sálfræðingar ættu að skemmta sér konunglega við að greina hann. Tim Burton á svo að sjálfsögðu stóran þátt í að myndin er óvenjulega góð. Til að setja punktinn yfir i-ið í þessari umfjöllun þá verður einnig að minnast á tónlist Danny Elfman sem lyftir myndinni upp á annað stig með súrrealískri og frumlegri kvikmyndatónlist

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑