Bækur og blöð

Birt þann 16. janúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Útburður eftir Stefán Birgi Stefáns

Útburður er fyrsta bók höfundar og er eins og segir á bókarkápu: „..blanda af morðgátu í smábæ, hrollvekju og vísindaskáldskap.“ Sagan fjallar um Lísu, sem virðist vera nokkurs konar íslensk Scully úr X-Files þ.e.a.s. efahyggjumanneskja sem þarf samt að glíma við yfirnáttúrulega hluti í starfi sínu. Hún starfar fyrir leynilega íslenska stofnun sem sérhæfir sig í yfirnáttúrulegum atburðum og hylmir yfir þeim (væntanlega styrkt af Steingrími og Jóhönnu). Lísa þessi er send í smábæ sem nefnist Hulduvík og þarf að glíma við morðmál og þar taka hlutirnar mjög svo óvænta stefnu.

Byrjum á því sem betur mætti fara. Höfundur er með margar skemmtilegar hugmyndir en reynir að koma of miklu frá sér fyrir eina bók og blandar of mörgu saman. Það eru sumir hlutir sem hefði verið gaman að vita meira um s.s. útburðurinn sjálfur sem er nokkurs konar blanda af íslenskri og japanskri (þ.e.a.s. minnir á draug úr japanskri hryllingsmynd) óværu. Þetta hefði getað verið efni í eina góða hryllingsbók eitt og sér en missir kraft sinn sem nokkurs konar aukaleikari í þessari bók. Sama má segja um sakamálahlutann sem býr einnig yfir nokkrum góðum hugmyndum og er einna sterkasti hluti bókarinnar. Hann hefði líka virkað vel einn og sér.

Í gegnum bókina virðist vera skautað á milli þess að reyna fræða lesandann eða skemmta honum; það vantar einhvern fókus.

Maður fær það á tilfinninguna að höfundur hafi ýmislegt að segja um trúmál almennt. Það hefði verið skemmtilegt að sjá þessar skoðanir betur endurspeglaðar sem boðskap bókarinnar frekar en bara eitthvað sem var vitnað í útfrá rannsóknarvinnu Lísu. Eins og er þá er misræmi milli þess sem höfundur er að koma til skila og heimi sögunnar þar sem hreinlega allt gat gerst (og gerðist). Ef það voru einhver skilaboð þarna (eins og t.d. að goðsagnarverur gætu verið til en þær eru ekki eins öflugar og fólk telur) þá kemst það ekki nægilega vel til skila. Í gegnum bókina virðist vera skautað á milli þess að reyna fræða lesandann eða skemmta honum; það vantar einhvern fókus. Í seinni hluta bókarinnar eru kynntir það stórfenglegir hlutir að höfundi færist of mikið í fang og fleiri spurningum var ósvarað en svarað. Endirinn verður ófullnægjandi.

Útburður

Það vantaði vinnu við persónusköpun, það er t.d. erfitt að finna samkennd með aðalsöguhetjunni, henni Lísu. Viðbrögð hennar við flestu sem gerist er að verða pirruð og þegar við skyggnumst inn í huga hennar þá er hún yfirleitt pirruð. Almennt hefði mátt móta og lýsa persónunum í sögunni aðeins betur til að byggja samkennd lesandans t.d. með því að gefa upp meiri bakgrunn eða gefa þeim sterkari persónueinkenni (smá hliðarspor; ég er núna að endurlesa The Stand sem gerir þetta frábærlega, Stephen King kynnir fjöldamargar persónur og þær hafa allar sína sögu og eru allar athyglisverðar hver á sinn hátt. Auðvitað eiga ekki allir að skrifa eins og Stephen King en The Stand er gott skólabókardæmi um persónusköpun)

Einstaka stafsetningar- og málfræðivillur eru í bókinni sem og enskuslettur („skanna“, „starta“ o.s.frv.) sem tók mig stundum úr sögunni. Líklega taka fæstir samt eftir því nema stafsetningarnördar eins og ég. Það hefði mátt fínpússa betur samræður; allir virðast hafa þennan hversdagslega íslenska talmáta með enskuslettum og tilheyrandi. Gallinn er að við erum með mjög ólíkt fólk og jafnvel verur sem hafa lifað í margar aldir og það tekur mann úr sögunni að heyra það t.d. segja „dáldið spes“ eða eitthvað álíka.

Núna það góða sem er stutt og laggott en vegur talsvert. Greinilegt er að höfundurinn er með fullt af hugmyndum. Maður finnur að hér er ritgleði á ferð og þrátt fyrir alla mína gagnrýni þá get ég fullyrt eitt; bókin var aldrei leiðinleg. Hún er þægileg aflestrar og aldrei dauður punktur. Það verður gaman að sjá hvað höfundur gerir næst. Það er líka gaman þegar fleiri Íslendingar reyna að tækla furðusögur, við höfum t.d. úr mörgu að moða frá menningu okkar (draugasögur o.s.frv.). Mér dettur í hug tvö orðatiltæki eftir að hafa lesið þessa bók: „Æfingin skapar meistarann“ og „Less is more“.

 

Höfundur er  Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑