Bíó og TV

Birt þann 16. janúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Svartur á leik (2012) – DVD og Blu-ray gagnrýni

Svartur á leik er íslensk kvikmynd frá árinu 2012 byggð á samnefndri metsölubók eftir Stefán Mána Sigþórsson. Bæði bókin og myndin styðjast við þekkt glæpamál á Íslandi og segir frá miklu umbreytingarskeiði í undirheimum Íslands undir síðustu aldamót.

Stebbi (Þorvaldur Davíð Kristjánsson) rekst á gamlan æskufélaga frá Ólafsvík, Tóta (Jóhannes Haukur Jóhannesson), sem ákveður að hjálpa honum með því að útvega honum lögfræðiaðstoð í staðinn fyrir smá greiða. Einum litlum greiða seinna fær hann viðurnefnið Stebbi Psycho og fyrr en varir er hann orðinn hægri hönd Tóta í litla fíkniefnagenginu sem hann stýrir. Það líður ekki á löngu að Brúnó (Damon Younger) kemur til sögunnar og býður Tóta samstarf til þess að taka yfir fíkniefnamarkaðinum á Íslandi. Stebbi sogast hægt og rólega inní þennan dökka heim glæpa og fíkniefna sem á eftir að taka sinn toll á honum. Eftir að toppnum er náð er fallið ansi langt niður á við.

Svartur á leik

Á Íslandi hefur verið ört vaxandi áhugi á krimma-og glæpasögum sem endurspeglar alla þessa íslensku sjónvarpsþætti og kvikmyndir sem hafa komið á síðastliðnum árum. Það er mikið fagnaðarefni að sjá að við getum vel gert svona týpur af þáttum og myndum án þess að detta niður í þessa amerísku klisju og gleyma að við lifum á Íslandi. Svartur á leik er skínandi dæmi um hvernig hægt er að blanda þessum hraða sem er í bandarískum kvikmyndum við íslenskan veruleika án þess að það komi niður á myndinni. Það eru ekki margar íslenskar myndir sem maður getur virkilega sagt að sýni íslenskan raunveruleika en þessi er ein af þeim. Myndin er mjög skemmtileg, mikið um húmor, en á endanum er hún mjög dökk; en aldrei nógu dökk að manni verði ofboðið því það er mjög smekklega farið með allt ofbeldi og nekt. Kvikmyndagerðarfólkið að störfum hér veit uppá hár að minna er meira og að áhorfandinn getur alltaf ímyndað sér miklu verra og oft er nóg að heyra hlutina og sjá minna. Það er helsti styrkur myndarinnar því myndin virkar frekar létt miðað við dökkt innihaldið því undirheimar Reykjavíkurborgar eru ekkert grín nú til dags.

Svartur á leik er skínandi dæmi um hvernig hægt er að blanda þessum hraða sem er í bandarískum kvikmyndum við íslenskan veruleika án þess að það komi niður á myndinni.

Allir leikarar standa sig vel og er ekki veikur hlekkur að sjá. Jóhannes Haukur sem aðallega hefur verið þekkur fyrir gamanleik sýnir á sér nýja hlið ásamt nýju útliti. Það kom fólki mjög á óvart þegar það fréttist að hann umbreytti sér á 17 vikum og missti jafnmörg kíló þar sem flestir þekkja hann sem Geir Haarde úr Skaupinu eða jafnvel Guffa úr Fangavaktinni. Ætli Damon Younger steli ekki senunni sem hinn skuggalegi Brúnó, enda á hann auðvelt með að taka fólk í kringum sig á taugar. Aðrir leikarar í framlínunni eru Egill Einarsson, María Birta Bjarnadóttir og Vignir Rafn Valþórsson en þau leika öll persónur sem koma nálægt þessum fíkniefnahring.

Svartur á leik

Þar sem myndin gerist árið 1999 er myndin uppfull af vísunum í frasa, staði, tækni og tónlist sem var við lýði á þeim tíma. Það er alveg ótrúlegt hversu vel tekst til að endurskapa þetta tímbil og gaman að heyra mikið af þessari tónlist sem heyrist í ýmsum græjum í gegnum myndina. Og talandi um græjur þá á ég enn alveg eins síma og þeir notast við í myndinni enda erfitt að rústa gamla góða Nokia 3310 gemsanum. Það hefur borið á góma að þeir klikkuðu aðeins í tilvísunum og voru með The Matrix Reloaded veggspjall í bakgrunni í stað fyrstu myndarinnar eins og átti að gera. En hvað varðar aðra galla sem ég tók eftir sjónrænni samhengisvillu þar sem nálægt lok myndarinnar sést skuggi af rimlagardínum á andliti Stebba Psycho en í næsta skoti er það farið. Og eitt enn sem er í raun furðulegra, þá er ein aukalína á íslenska textanum þar sem Tóti segir „bara svona áður en Sævar missir legvatnið“ eftir að hann segir Stebba að fara í klippingu. Ætli textinn hafi verið tekinn beint frá handritinu og ekkert farið yfir þetta nánar?

En hvað um það, Svartur á leik er þrælgóð mynd sem færir manni ekki kjánahroll né fær hún einhverja ölmusu í formi stjörnugjafa eins og einkennist oft þegar íslenskar myndir koma í bíó. Nei, við erum að tala um harðkjarna skít sem á þessar fjórar stjörnur skilið.

 

Stikla:

 

Um Blu-ray (og DVD) diskinn :

Myndin er í breiðtjaldsforminu 2.35:1 og fáum við að heyra myndina á íslenskum Dolby Digital 5.1 eða DTS-HD Master Audio hljóðrásum. Það fylgir einnig enskur, danskur og íslenskur texti fyrir heyrnaskerta, sem inniheldur lýsingar á hljóðum þegar það á við og hver er að tala þegar það er í vafa. Á DVD disknum eru sömu textavalmöguleikar og svipaðir hljóðmöguleikar en það er hægt að velja á milli tveggja íslenskra hljóðrása, hinsvegar Dolby Digital 5.1 og DTS Digital Surround.

Svartur á leik

Myndingæðin og hljómgæðin eru til fyrirmyndar á báðum diskum og hvað varðar hljóðið þá á DTS hljóðrásin vinninginn í báðum tilvikum. Það helsta sem maður tók eftir á DVD disknum varðandi myndgæðin voru atriði þar sem maður sá línur ekki vera beinar heldur skörðóttar eins og sést vel á grindunum sem hanga á veggnum í hesthúsinu í skotinu hér fyrir neðan. Ef maður leitar af þessu sér maður þetta alls staðar en þetta eyðileggur ekki myndina fyrir manni. Myndin var tekin á stafræna vél í háskerpu en það virðist hafa verið sett filmuáferð á myndgæðin eftirá sem gefur myndinni skemmtilegan blæ. Ef maður vissi ekki betur þá hefði maður haldið að hún hafi verið skotin á filmu.

Svartur á leik

Bæði Blu-ray og DVD diskarnir eru ólæstir og því hægt að spila í spilurum fyrir utan Evrópu ef þörf er á. Aukaefnið er ótextað og er ekki í háskerpu. Þar af leiðandi þið sem eigið aðeins bandaríska PS3 tölvu náið ekki að spila aukaefnið af fráskildum yfirlestrunum, veggspjöldum, ljósmyndum og frumsömdu tónlistina. Kvikmyndin byrjar strax þegar maður spilar Blu-ray diskinn og þarf maður að skipta um texta-og hljóðrásir með því að velja valmynd sem birtist á meðan myndin er í spilun, því það er ekkert valmyndakerfi á henni fyrir utan aukaefnið.

Svartur á leik

Valmyndin á DVD disknum er smekklega unnin og eru einfaldar skiptingar yfir á næstu valmynd í formi hreyfingar í átt að annarri valmynd. Sjálfum finnst mér betra að velja mér texta- og hljóðvalmöguleika áður en maður byrjar myndina, þannig að það er skrítið að það skuli ekki vera hægt að hafa þetta svipað á Blu-ray disknum.

► Það eru tveir yfirlestrar á myndinni; annar með leikurunum Þorvaldi Davíði Kristjánssyni og Jóhannesi Hauki Jóhannessyni ásamt einum framleiðandanna, Arnari Knútssyni, og hinn er með leikstjóranum og handritshöfundi, Óskari Þóri Axelsyni, og kvikmyndatökustjóranum, Bergsteini Björgúlfssyni. Fyrri yfirlesturinn er yfirleitt skemmtilegri og fjörugari þar sem Jóhannes Haukur fer á kostum. Jóhannes vill ólmur vera með skemmtilegri og betri yfirlestur en leiksjórinn og kvikmyndatökustjórinn. Seinni yfirlesturinn er ekki síðri en er þó mun tæknilegri eins og Jóhannes grínaðist mjög mikið með á yfirlestrinum sem hann tók þátt í. En Jóhannes var ekki síður tæknilegur, maður veit núna hvaða hlutverki „Motion Control“ á sjónvörpum og sleipiefni gegnir í sjálfsfróun ásamt því að hann er alfarið á móti þeirri hugmynd að fólk sé að niðurhala þessari kvikmynd. Hann hefði eflaust átt að hóta því að Tóti myndi koma í heimsókn ef einhver hefði gerst sekur um slíkt en hann fór ekki svo langt.

Svartur á leik

Það er ýmislegt annað að finna á diskunum og hér kemur listinn ásamt lýsingu. Það sem kemur fram síðast á listanum og er feitletrað er eingöngu að finna á Blu-ray disknum.

► Bók verður bíó: Rúmar 21 mín. af viðtölum við þá sem komu að gerð myndarinnar þar sem er farið í gegnum heimildarvinnslu, áhættuatriði og erfiðar tökur í Hvalfirði ásamt fleiru.

► Persónurnar verða til (eða lifna við, eins og kemur fram á aukefninu sjálfu): 17:30 mín. af viðtölum við leikara, leikstjórann og rithöfundinn ásamt fleirum um ferlið sem tók að finna leikarana og það sem þeir fóru í gegnum til þess að búa til sína karaktera.

► Klipptar senur: 18:30 mín. af níu senum sem voru klipptar út úr myndinni af einni eða annarri ástæðu. Það er hægt að spila þær með eða án yfirlestri með leikstjóra þar sem hann talar um senurnar og ástæðurnar hvers vegna þær voru klipptar út. Allar voru þær í raun óþarfar, ýmist langar og hægðu á flæði myndarinnar eða endurtóku vissa hluti. Það er áhugavert að sjá þessar senur en það sést fljótt að þetta hefði vissulega dregið myndina niður hvað varðar flæði og allt réttar ákvarðanir.

► Kynningarefni: Hérna er að finna upprunalegu stikluna sem er 2:10 mín og kítlu sem er 45 sek. að lengd. Einnig eru fimm sjónvarpsauglýsingar, fyrsta er hálf mínúta að lengd og hinar eru rúmar 15 sek. að lengd og alveg eins nema hvað þær auglýsa mismunandi tímabil (eins og frumsýningu eða komið í bíó og svo framvegis).

► Ekki nóg með það þá eru einnig níu bíóbrot sem voru, samtals 22 mín. að lengd, sýnd í kvikmyndahúsum fyrir og á meðan sýningum á myndinni stóð. Í þessum brotum eru viðtöl við leikara og aðstandendur kvikmyndarinnar að tala um ákveðið efnisval eða senur. Það sem kemur á óvart er hversu mikil áhersla er á húmor og þetta er ansi sniðug aðferð til að vekja athygli á kvikmynd. Oftast er sannleikurinn sagður og ýmsar skondnar sögur frá tökustað en í öðrum brotum er þetta að því virðist uppspuni.

► Fimm óbirtir sketsar, 2:15 mín. að lengd,  sem báru heitir „slökktu á gemsanum“ sýna persónurnar úr kvikmyndinni horfa á kvikmynd í bíó verða fyrir truflun frá farsíma annars áhorfenda. Fyrstu tveir sýna þar sem persónurnar gera eitthvað í málunum á meðan hinar þrjár segja áhorfandaum (þér) að slökkva á farsímanum. Það hefði vel verið hægt að nota eitthvað af þessu en kannski vildu þeir ekki hvetja svona hegðun eftirá að hyggja.

► Í lokinn er að finna 2 veggspjöld, sjö kynningarljósmyndir og yfir 100 ljósmyndir við gerð myndarinnar.

Á Blu-ray disknum er einnig að finna þetta:

► Umfjöllun fjölmiðla: Þarna eru fjögur innslög úr fjölmiðlum þar sem er fjallað um myndina á meðan á gerð hennar stóð, fyrir og eftir frumsýningu.

► Ísland í dag (frá Stöð 2) tók upp 8 mín. innslag þar sem þeir heimsóttu settið og áttu viðtöl við leikara sem að mestu var um þessa svakalegu umbreytingu Jóhannesar fyrir hlutverkið sitt.

► Það er annað innslag, 9:30 mín. að lengd, frá Ísland í dag (frá Stöð 2) þar sem tekin voru viðtöl við leikara og fleiri viku fyrir frumsýningu á Íslandi.

► Ítarlegt viðtal, 16:30 mín. að lengd, úr Kastljósi (frá RÚV) um undirheima og glæpastarfsemi Reykjavíkur er tekið fyrir með viðmælendum Stefáni Mána, rithöfundi Svarts á leik, ásamt Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

► Að lokum er að finna umfjöllun Djöflaeyjunnar (frá RÚV) um kvikmyndina, 10:30 mín. að lengd, þar sem tekið er viðtal við leikstjórann og sýndar senur úr myndinni.

► Rúsínan í pylsuendanum er frumsamin tónlist úr myndinni eftir Frank Hall sem telur 13 lög samtals 38 mín. að lengd. Þetta er ansi sjaldgæft á íslenskum mynddiskum að svona lagað sé haft með og mætti oftar sjást að mínu mati. Tónlistin er oft lágstemmd og drungaleg þegar dökku augnablikin eiga við en taktföst og skemmtileg annars vegar. Helsti gallinn er að hljóðheimurinn verður fljótt þreyttur í dekkri kantinum þegar klisjurnar koma fram en hin lögin eru þó betri því þau tengjast böndum við tíðarandann sem myndin á að gerast. Þau lög minna mann mjög mikið á samblöndu á Bang Gang, Ensími og Gus Gus en tvö alvarleg píanóverk minna mann hins vegar á Sigurrós.

Svartur á leikSvona til gamans má geta að þegar hulstrin á diskunum eru skoðuð finnst mér DVD hulstrið flottara (sjá hér til hægri) því þetta hauskúpudæmi virkar eins og einhver hryllings-eða draugamynd. En það verður víst að skilja diskana að einhvern veginn og þessi leið farin. Bara gott að það var ekki farið í sömu átt og breski útgefandinn, en þar virðist þetta vera íslenska útgáfan af annað hvort Romper Stomper eða American History X.

Alveg sama hvorn diskinn þú munt velja þá ertu með gott eintak af myndinnni sem er meðal fyrstu íslensku kvikmyndanna sem maður þarf ekki að skammast sín fyrir þegar maður kynnir erlendum félögum sínum fyrir myndinni. Það er viss hraði í myndinni sem má tengja við amerískar myndir en það er hins vegar ekki búið að breyta íslenska veruleikanum eða haldið í einhverjar dæmigerðar klisjur sem við þekkjum erlendis. Það má segja að þetta sé skyldueign á íslensk heimili, myndin sýnir frá íslenskum veruleika án þess að ganga fram að manni og skemmtir manni í leiðinni. Flottur harðkjarna pakki hér á ferð sem ætti ekki að svíkja neinn.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑