Tölvuleikir

Birt þann 16. febrúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Star Wars: The Old Republic – Fyrstu kynni

Margir hafa beðið eftir Star Wars: The Old Republic með mikilli eftirvæntingu. SWTOR, eins og hann kallast, er hlutverka-fjölspilunarleikur á netinu eða MMORPG (Massively Multiplayer Online Role-Playing Game). Leikurinn gerist þúsundum ára fyrir atburði kvikmyndanna sem er skynsamleg ákvörðun hjá leikjahönnuðinum BioWare því að saga þessa alheims nær yfir þúsundir ára og því af nógu að taka.

Spilarinn getur valið að vera hluti af Alheimsveldinu (Galactic Empire) eða Sith Lýðveldinu (Sith Republic). Alheimsveldið eru hinir góðu en Sith Repúblikanarnir eru eðlilega þeir vondu. Þetta minnir óneitanlega á Alliance og Horde í World of Warcraft en það er varla hægt að hafa þetta öðruvísi í veröld sem svo mikil áhersla er lögð á baráttuna milli góðs og ills sbr. hin ljósa og dimma hliða Máttarins (Light side of the Force / Dark side of the Force) .

Ákvarðanir tengdar góðu og illu eru eins og rauður þráður í gegnum allan leikinn.

Ákvarðanir tengdar góðu og illu eru eins og rauður þráður í gegnum allan leikinn. Spilarinn þarf að sinna alls kyns verkefnum og iðulega koma upp aðstæður þar sem hann þarf að velja á milli góðs og ills. Þetta gildir fyrir bæði Alheimsveldið og Lýðveldið þannig að maður getur valið að vera „vondur“ þó maður sé hluti af hinum „góðu“ og öfugt. Þeir sem hafa spilað Mass Effect leikina þekkja til sambærilegrar spilunar; spilarinn getur yfirleitt valið á milli þriggja svarmöguleika í samtölum við tölvustýrða leikmenn (NPC‘s). Gallinn er að það er erfitt að feta meðalveginn, maður er hálfneyddur til að vera alltaf alvondur eða algóður. Jú, það er hægt að fara í dýpri hlutverkaspilun og velja sitt á hvað eftir því hvernig persónan þín ætti að bregðast við en þá missir maður af hlutum sem maður hefur aðgang að seinna í leiknum (klæði sem krefjast Dark Side III / Light Side II sem dæmi).

 

Fyrstu skrefin

Þeir sem eru kunnugir Star Wars heiminum ættu að þekkja karakterana (sem eru mjög heppilega flestir byggðar eins og mannverur með tvo fætur, tvö augu, tvær hendur o.s.frv.) en spilanlegir ættflokkar eru alls níu talsins. Meðal þeirra eru mannverur (humans) ásamt Zith Pureblood, Zabrak, Miraluka og fleiri góðkunningjum. Það væri of mikið að lýsa einkennum hvers ættflokks fyrir sig en allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

Hlutverkaskipan (Classes) er eftirfarandi:

Alheimsveldið: Hermaður (Trooper), Smyglari (Smuggler í anda Han Solo), Jedi riddari (Jedi Knight) og Jedi ræðismaður (Jedi Consular).

Lýðveldið: Málaliði (Bounty Hunter), Sith stríðsmaður (Sith Warrior), Njósnari (Imperial Agent) og Sith ræðismaður (Sith Inquisitor).

Blessunarlega sér maður hvergi Jar Jar Binks eða sambærilega fígúrur né Ewoks en hver veit, kannski ákveða BioWare seinna að fara „Kung Fu Panda“ leið Blizzards og koma með Ewoks í einhverri framtíðaruppfærslu.

Blessunarlega sér maður hvergi Jar Jar Binks eða sambærilega fígúrur né Ewoks…

Fyrstu 10 stigin (levels) eru hálfgerð upphitun fyrir sjálfan leikinn því að þegar stigi 10 er náð getur þú sérhæft persónuna þína frekar og færð einnig fljótlega aðgang að þínu eigin geimskipi (ef þú fylgir aðalsöguþræðinum), og verður þá mun þægilegra að ferðast um heiminn. Einnig færðu aðgang að nýjum verkefnum sem byggjast á geimorrustu; þú flýgur um geiminn og þarft að skjóta niður ákveðinn fjölda skotmarka og er hálfgerður leikur innan leiksins.

Ef einhver kaupir leikinn bara til að spila hann sem hefðbundinn leik (single-player) þá uppfyllir hann þær kröfur margfalt, hægt er að spila í gegnum marga söguþræði og spila leikinn á fjölbreytilegan hátt. Á bak við hvert hlutverk (class) er einstakur söguþráður þannig að maður getur upplifað 8 mismunandi söguþræði sem hver fyrir sig sýnir ólíka hliðar þessa alheims og aðstæður fólksins sem þar býr.

Einnig fá spilendur hjálparhellu (companion) sem aðstoðar við bardaga og er hluti af söguþræðinum og er þetta skemmtileg nýjung í leikjum af þessum toga.

 

Aðrir þættir

Tæknilega séð  lítur SWTOR mjög vel út, BioWare hefur tekist vel að láta leikinn líta mjög vel út án þess að gera of miklar kröfur til tölvubúnaðar. Undirritaður hefur spilað leikinn á nýlegri Macbook Pro í Windows umhverfi (Bootcamp) og gengið þokkalega með því að draga aðeins úr grafíkinni.

Bardagakerfið fylgir hinu staðlaði hlutverkaspilunarmódeli. Spilarinn fær smátt og smátt fleiri og betri hæfileika og bardagamöguleika sem gera hann öflugri. Andstæðingar verða líka erfiðari (hin þekkta hringrás sem við MMORPG spilarar þekkjum alltof vel). Í bardögum þarf að vakta hvenær bardagahæfileikar eru aðgengilegir (cooldowns) og þetta er því dáldið takkahnoð (button mashing). Sú skemmtilega viðbót miðað við aðra leiki, er nýtingin á skjóli í umhverfinu sem gerir upplifunina frekar eins og maður sé partur af raunverulegum skotbardaga úr Star Wars mynd (gildir t.d. fyrir Smyglarann)

Spilari-á móti-spilara (Player vs. Player) er stór þáttur í MMORPGS nú til dags. Undirritaður hefur ekki fundið sig í því og tilheyrir því hópnum Kærleiksbirnir (Care bears) eins og við erum stundum kallaðir (hliðarspor: verð samt að monta mig yfir því að ég náði hinu alræmda PvP afreki (achievement) „School of Hard Knocks“ í WoW sem kannski einhverjir kannast við). PvP hlutinn fór sífellt stækkandi í WoW og því leggja hönnuðir SWTOR áherslu á þann þátt strax í upphafi með svokölluðum Stríðssvæðum eða Warzones. Núna eru til þrenns konar stríðsvæði með mismunandi takmörkum og þau eru aðgengileg þegar leikmaður hefur náð stigi 10.

Í MMORPGS er yfirleitt hægt að velja sér aukastarfsgreinar sem miðast oft að því að búa til efni, klæði, vopn og annað (tradeskills). Það sama er upp á teningnum í SWTOR en munurinn er að áðurnefnd hjálparhella (og seinna hjálparhellur) gerir þessa hluti fyrir þig. Þú getur sent hann til að ná í efni eða búa til efni. Þannig þarft þú ekki að sinna þessum hlutum en fórnin er að félaginn er tímabundið í burtu og getur því ekki aðstoðað í bardögum.

 

Lokaorð

Ég ætla að láta það vera að gefa SWTOR einkunn. Það er almennt mjög erfitt að gefa MMORPGS einkunn og þar koma inn í ástæður eins og að þurfa hafa spilað hann í langan tíma (sem ég hef ekki gert) til að hafa heildar yfirsýn.

Stór hluti svona leikja er hinn svokallaði endaleikur, þar sem hópur spilara sem hefur byggt karakterinn sinn algjörlega upp, berst við það erfiðasta sem leikurinn hefur upp á að bjóða. Sumir eru mjög fljótir að spila í gegnum leikinn og leikjahönnuðurinn þarf alltaf að huga að því að bjóða upp á meira og meira efni enda þarf spilarinn að borga mánaðargjald. Ef uppfærslur koma ekki nógu oft þá fá þeir hörðustu leið og fara eitthvað annað.

Annað sem ekki er hægt að gefa einkunn fyrir byggist á því að félagslegi hlutinn er mjög einstaklingsbundinn. Sumir finna ekki rétta hópinn til að spila með og því verður reynslan ekki eins skemmtileg. Aðrir finna góðan hóp og þykja leikurinn þá vera sá besti í heimi.

Þrátt fyrir að undirritaður telji sig vera nörd þá uppfyllir hann ekki það skilyrði að vera mikill aðdáandi Star Wars; fyrstu myndirnar voru góðar en allt það sem George Lucas gerði á seinni árum hitti ekki í mark hjá mér og áhuginn dvínaði. Góðu fréttirnir eru þær að BioWare gerir þetta rétt og er trúr Star Wars í hinni upprunalegu mynd. Þessi leikur hefur allt til að bera sem góður MMORPG og sérstaklega fyrir Star Wars aðdáendur. Þeir sem hafa spilað WoW geta hoppað strax inn í leikinn því að hann líkist honum að mörgu leyti. Hvort það er gott eða slæmt skal ég ekki segja því það er einstaklingsbundið.

SWTOR er kominn til að vera, allavegana í einhver ár.

 

 

 

Það verður gaman að fylgjast með þróuninni næstu ár og sérstaklega baráttunni við World of Warcraft um áskrifendur. SWTOR er kominn til að vera, allavegana í einhver ár.

 

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn2 Responses to Star Wars: The Old Republic – Fyrstu kynni

  1. Pingback: SWTOR: Samkynhneigð veldur fjaðrafoki | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑