Bækur og blöð

Birt þann 28. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Carrie eftir Stephen King

Ég byrjaði á The Talisman vegna þess að hún var í uppáhaldi hjá mér í æsku en núna ætla ég að taka Carrie fyrir, því að það er fyrsta útgefna bók Stephen King. Eins og margir rithöfundar þá fékk Kóngurinn ekki græna ljósið strax. Carrie var reyndar fjórða bókin sem hann skrifaði og hann henti uppkastinu í ruslið á einhverjum tímapunkti því honum fannst hún ekki virka sem smásaga. Konan hans veiddi A4 blöðin úr ruslinu, talaði hann til, hann betrumbætti og lengdi söguna og úr varð skáldsagan Carrie.

Carrie er öðruvísi bók en við fáum vanalega frá S.K. Hún er stutt (enda upprunalega ætluð sem smásaga) og lesandinn fær söguna í nokkurs konar samblandi af heimildarmynd og hefðbundinni frásögn. Sagan er sögð frá ýmsum sjónarhornum; stundum í nútíð, stundum í þátíð. Við fylgjumst með lögregluyfirheyrslum, fáum að skyggnast í blaðaúrklippur og lesum úrdrætti úr bókum þeirra einstaklinga sem lifðu af. Þegar sagan er sögð í nútíð þá er engin ákveðin persóna sem sér um að segja frá. Við fáum að upplifa söguna með augum ýmissa aðila sem tengdust atburðunum í bókinni. Það er engin eiginleg söguhetja í bókinni og í rauninni hefði eldri Stephen King átt að hlusta betur á unga Stephen King því að það þarf ekki alltaf að vera gott og vont fólk; stundum gerir gott fólk vonda hluti og vont fólk góða hluti. Þetta er það sem Carrie gerir og mætti vera algengara í seinni bókum Stephen King.

Söguna sjálfa þekkja flestir; Carrie er táningsstelpa sem verður fyrir einelti í skólanum og á það strangtrúaða móður að aðrar strangtrúaðar mæður líta út eins og kvenkyns Richard Dawkins í samanburði. Carrie hefur alltaf haft þann hæfileika að geta flutt hluti með huganum en í bókinni margeflast þessir kraftar við ákveðinn atburð. Hún er semsagt tifandi tímasprengja og er það bara tímaspursmál hvenær einhver kveikir í þræðinum.

Það sem kom mér á óvart er hversu vel uppbyggð bókin er miðað við fyrstu skref Stephen King. Hann nær lesandanum fljótt á krókinn og heldur honum föstum allan tímann. Spennan fyrir lokaatriðið magnast smátt og smátt. Bókin er langt frá því að vera gallalaus t.d. bera úrdrættir úr lífsreynslusögum (sem eftirlifendur áttu að hafa skrifað) og lögregluyfirheyrslur allt of sterkan keim rithöfundarins Stephen King til að vera sannfærandi sem frásagnir þriðja aðila. Sumar persónurnar eru svo ýktar að þær eru nánast komískar í stað þess að vera ógnvænlegar. En hrár kraftur hins unga Stephen King kemst svo sannarlega til skila.

Myndin Carrie kom út 1976 en áætlað er að gera aðra útgáfu sem kemur út 2013 og skartar nöfnum eins og Julianne Moore og Chloe Moritz (Hit Girl úr Kick-Ass) í aðalhlutverkum. Reyndar hefði ég alveg viljað sjá Kathy Bates í hlutverki mömmunnar enda stóð hún sig frábærlega í Misery en Julianne er ekki slæm leikkona heldur.

 

Höfundur er  Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑