Fréttir1

Birt þann 23. ágúst, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Miðasala hafin á Star Wars tónleika

Eins og við greindum frá í júlí að þá verða tvennir Star Wars tónleikar haldnir í Hörpu þar sem að kvikmyndatónlist John Williams úr Stjörnustríðsmyndunum verður spiluð. Fyrri tónleikarnir fara fram miðvikudaginn 28. nóvember og þeir seinni daginn eftir, fimmtudaginn 29. nóvember 2012.

Miðasala á tónleikana er hófst fyrir stuttu á Harpa.is og Sinfonia.is og kostar hver miði á bilinu 2.200 kr – 6.500 kr.

Eftirfarandi upplýsingar um Star Wars tónleikana eru fengnar á vefsvæði Sinfóníuhljómsveitar Íslands:

John Williams er einn þekktasti og farsælasti tónsmiður í sögu Bandaríkjanna. Hann hefur verið tilnefndur í liðlega fjörutíu skipti til Óskarsverðlaunanna og hreppt þau fimm sinnum. Afrekalisti hans er of langur til að tæpa á hér en tónlist hans hefur öðlast alþjóðlega viðurkenningu og fádæma vinsældir. Í Stjörnustríðsmyndunum er áhorfandinn kynntur fyrir stjörnuþoku í órafjarlægð, nýrri veröld með fram andi verum. Á sama tíma hafa kvikmyndaunnendur uppgötvað, með tónlist Johns Williams, enn aðra veröld, þann magnaða hljóðheim sem hljóðfæri sinfóníuhljómsveitar skapa.

Þar sem sögusvið Stjörnustríðsmyndanna er ekki jarðneskt og sögupersónurnar ævintýralegar gefur Williams þeim mannleg einkenni og tilfinningar með því að semja tónlist sem stendur okkur jafn nærri og sögupersónurnar eru fjarlægar. Williams sagði eitt sinn í viðtali: „Sem hljóðfæri er sinfóníuhljómsveit ein af mestu uppfinningum mannshugans. Og þar sem hljómsveitin hefur þroskast í yfir 200 ár spannar tjáningarhæfni hennar ótrúlega vítt svið.“

Árið 2009 hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika með kvikmyndatónlist eftir John Williams og komust færri að en vildu. Það má því segja að Stjörnustríðstónleikarnir séu viðburður sem enginn aðdáandi kvikmyndatónlistar geti látið fram hjá sér fara.

Stjórnandi: Lucas Richman

BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑