Bíó og TV

Birt þann 28. júní, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Umfjöllun: Indie Game: The Movie

Í árdaga leikjatölvunnar var yfirleitt einn aðili eða smátt teymi sem sá um hönnunina. Þegar á leið fór fólk að sjá gróðann í tölvuleikjum/tölvum og fyrirtæki stækkuðu til muna og núna er ekki óalgengt að þúsund eða fleiri manns séu á bak við stóra leiki. Það eru þó alltaf einhverjir sem eru nógu klikkaðir til að gera þetta allt saman sjálfir og síðustu ár hefur verið nokkurs konar endurvakning á þessu sviði. Sjálfstæðir leikjahönnuðir geta nýtt sér markaðssetningu stóru fyrirtækjanna t.d. í gegnum Xbox Live Arcade, PSN eða iTunes Store og skipt gróðanum sín á milli.

Indie Game: The Movie er heimildarmynd sem fjallar um fjórar slíkar manneskjur og leiki þeirra. Jonathan Blow er maðurinn á bak við Braid sem er af mörgum talinn einn besti indí leikur sem hefur komið út. Talað er við hann um hvað gerðist eftir að Braid kom út og þá sérstaklega samskipti hans og leikjasamfélagsins. En fókus myndarinnar er annars vegar á hönnuðinum Edmund McMillen og forritaranum Tommy Refenes sem eru á bak við Super Meat Boy í Xbox Live Arcade og hins vegar á Phil Fish, manninum á bak við Fez sem kom nýlega út í XBLA og fékk góða dóma.

Það skemmtilega er að fólkið sem er á bak við myndina eru hálfgert „indí-teymi“ líka en það eru þau Lisanne Pajot og James Swirsky frá Kanada. Þeim hefur tekist að gera mynd sem dregur mann algjörlega inn í þennan heim (ok, kannski auðvelt í mínu tilfelli) en myndatakan, tempóið og uppbyggingin eru til fyrirmyndar. Það dregur dálítið úr spennunni að maður veit sögu þessara leikja þar sem myndin var fullgerð áður en Fez kom út.

Það sem ég er þakklátastur fyrir er að það var tekið á efninu með mikilli virðingu fyrirleikjahönnuðunum og það voru engin ódýr skot eins og oft vill verða á „nördana“ þrátt fyrir að það hefði verið mjög auðvelt þar sem þetta eru… tja… sterkar persónur, við skulum segja það. Þetta er svo sannarlega ólíkt The King of Kong: A Fistful of Quarters að þessu leyti.

Allt í allt er þetta frábær mynd og skylduáhorf fyrir alla sem hafa áhuga á tölvuleikjaiðnaðinum. Tónlistin er í höndum Jim Guthrie og ber að nefna að þessi mynd hefði ekki verið til nema fyrir tilstuðla styrkja í gegnum Kickstarter.


www.indiegamethemovie.com

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑