Greinar

Birt þann 24. júlí, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Saga leikjatölvunnar, 1. hluti (1958 – 1982)

eftir Bjarka Þór Jónsson

Fyrsta útgefna leikjatölvan var Magnavox Odyssey. Hún kom á markað árið 1972 í Bandaríkjunum og gengu einungis tíu til sextán leikir í tölvuna. Flestir leikjanna voru byggðir á tennisleik Ralph Baer þar sem bolti (stór og ferkantaður punktur) fór fram og til baka á skjánum. Spaðarnir hægra og vinstra megin á skjánum, sem leikmenn stýrðu, áttu að hitta boltann svo hann myndi ekki lenda á þeirra fleti þannig að andstæðingurinn fengi stig.

Á þessum tíma voru langflest sjónvörp svart-hvít og var leikurinn því lífgaður við með því að láta þunn, lituð plastspjöld  fylgja með sem festust við sjónvarpsskjáinn. Til dæmis var plastspjaldið fyrir tennisleikinn grænt á litinn og með hvítum útlínum, líkt og er á tennisvöllum. Ekki færri en 100.000 eintök af Odyssey seldust á tveimur árum og kostaði tölvan ásamt tveimur stýripinnum og aukahlutum 100 bandaríkjadali.

Þrátt fyrir vanþróaða tölvutækni og leikjahönnun gat almenningur í fyrsta skipti spilað tölvuleiki í gegnum sjónvarpstækið heima hjá sér. Tölvuleikir í Magnavox Odyssey þóttu notendavænni en eldri leikir og ber þá helst að nefna eldflaugahermi Thomas T. Goldsmith Jr. frá árinu 1947 og tennisleik Willy Hoginbotham, Tennis for Two frá 1958. Tölvuleikir sem voru hannaðir á fimmta og sjötta áratugnum mátti aðeins finna í einstaka tölvum þar sem þeir voru hafðir til sýnis eða skemmtunar. Tölvur á þessum tíma voru mjög stórar og dýrar og kostaði PDP-1 tölva u.þ.b. 120.000 bandaríkjadali á sínum tíma, en sú tölva var síðar notuð til að hanna fyrsta gagnvirka tölvuleikinn sem náði vinsældum; Spacewar.

Steve Russell stóð á bak við hugmynd og forritun leiksins ásamt aðstoðarmanni.  Frumgerð leiksins var tilbúin 1961 og var hann fullgerður ári síðar. Steve var á þessum tíma meðlimur Teach Model Railroad Club (TMRC), sem var klúbbur ætlaður nemendum úr Massachusetts Institute of Technology (MIT) og fengu meðlimir aðgang að ýmsum hátæknitölvum. Þegar hann sagði öðrum meðlimum frá þeirri hugmynd sinni að útbúa forrit sem myndi birtast sem gagnvirkur tölvuleikur höfðu ekki margir trú á því að verkefnið gengi upp.

Í Spacewar birtust tvö geimskip á skjánum sem tveir spilarar stýrðu. Stjórna mátti í hvaða átt geimskipin skyldu halda og á hve miklum hraða en um leið mátti skjóta á geimskip andstæðingsins. Hugmynd Steves að Spacewar má rekja til áhuga hans á vísindaskáldskap og þá sérstaklega á Hvell-Geira (e. Doc Savage). Leikurinn var það vinsæll þegar hann var sýndur að bætt var við stigakerfi til að takmarka spilun notenda. Tölvan sem notuð var til að forrita leikinn var af gerðinni PDP-1 í eigu TMRC og var á þeim dögum þekkt sem smátölva (e. minicomputer), en var samt sem áður á stærð við tvo til þrjá ísskápa.

Ralph Baer, verkfræðingur hjá Sanders Associates (fyrirtæki sem sá um ýmis verkefni fyrir bandaríska herinn), hannaði ásamt aðstoðarmönnum tennistölvuleik sem síðar þekktist betur sem Pong þegar hann var gefinn út á spilakassa 1972. Nolan Bushnell (þáverandi verkfræðingur) sá möguleika tölvuleikjanna og færði Spacewars og Pong yfir á spilakassa þar sem spilarar settu klink í kassann til að spila viðkomandi leik. Pong spilakassinn, sem mátti finna víðsvegar á börum, malaði gull og notaði Nolan þann pening til að stofna fyrsta leikjatölvu- og tölvuleikjafyrirtækið, Atari, árið 1972.

 

Leikjatölvur náðu miklum vinsældum í Bandaríkjunum með tilkomu Magnavox Odyssey en síður í Evrópu. Fyrirtæki í Evrópu hermdu eftir hönnun Odyssey, sem oftar en ekki mistókst illilega. Árið 1974 voru einungis fimm fyrirtæki í Evrópu sem sáu um dreifingu tölvuleikja. Margar leikjatölvur komu fram á sjónarsviðið á næstu árum og urðu nokkrar mjög vinsælar: Tandy TRS-80, Atari VCS, CBM Pet, Apple II, Philips G7000, Atari 800, Mattel Intellivision, Texas Instruments TI99/4a, Sinclair ZX 81, Commadore VC 20, CBS Colecovision, Sinclair Spectrum, C64 og Atari 5200.

Á þessum tímum var sjónvarp á flestum heimilum í hinum vestræna heimi. Markhópur leikjatölva voru allir sjónvarpseigendur sem höfðu áhuga á skemmtilegri afþreyingu.     Af ofangreindum leikjatölvum náðu Atari VCS og C64 að seljast einstaklega vel. Margar gerðir leikjatölva seldust í milljónum eintaka en komust þó ekki nálægt sölutölum Atari VCS og C64. Atari VCS seldist í um það bil 30 milljónum eintaka og voru gefnir út um 500 leikir. Það var ekki hætt að framleiða leiki í þessa vinsælu vél fyrr en 15 árum eftir útgáfu hennar, eða árið 1992. Salan fór hægt af stað hjá Atari, en hún óx jafnt og þétt. Ekki leið á löngu þar til allt ungt fólk vildi eignast Atari tölvu.

Árin 1982-1984 hrundi leikjatölvuiðnaðurinn. Sífellt fleiri fyrirtæki hönnuðu og gáfu út leikjatölvur og leiki, sem varð til þess að of margar gerðir af leikjatölvum voru fáanlegar. Tölvuleikjafyrirtæki framleiddu hundruði leikjatitla og varð þetta til þess að gæðin urðu lítil sem engin. Um leið og gæðin minnkuðu gerðu notendur hærri gæðakröfur. Verð á leikjatölvum bætti ekki úr skák en það varð sífellt hærra og á sama tíma lækkaði verð á heimilistölvum. Þetta varð til þess að sala á leikjatölvum og leikjum minnkaði verulega.

Frá því að fyrsti tölvuleikurinn kom út, fyrsti spilakassinn og fyrsta leikjatölvan var umhverfið og iðnaðurinn búinn að þróast mjög ört. Litum fjölgaði og grafíkin varð betri. Innra minni varð að sjálfsögðum hlut í leikjatölvum, fleiri og fleiri leikjatitlar voru gefnir út og margar týpur af leikjatölvum með mismunandi áherslum. Tölvuleikir voru gefnir út í mismunandi formum; spólum, litlum kubbum og kortum – fór það fyrst og fremst eftir því fyrir hvaða tölvu leikurinn var ætlaður. Flest formin voru með 2-8 K í minni, sem gerði það að verkum að leikir máttu ekki taka meira pláss en minnið leyfði. Um það leyti sem hrunið átti sér stað urðu heimilistölvur vinsælli og dróg verulega úr sölu á leikjatölvum og tölvuleikjum þar sem notendur sóttust eftir meiri fjölbreytileika í tölvum. Eftir hrun leikjatölvuiðnaðarins komu út leikjatölvur sem má segja að hafi mótað leikjatölvur nútímans og kom fyrirtækið Nintendo þar sterkt inn.

 

Smelltu hér til að lesa 2. hluta.

 

Heimildir:

Hlutir úr lokaritgerð í sagnfræði; Nörd norðursins eftir Bjarka Þór Jónsson.
Forster, Winnie, The Encyclopedia of Game Machines. Consoles.
Kent, Steven L., The Ultimate History of Video Games. From Pong.
PONG-story, „Introduction”, <http://www.pong-story.com/intro.htm>, sótt 01.04.2011.
Sigurður Fjalar Jónsson, „Öld afþreyingarinnar: brot úr sögu tölvuleikjanna 1”. Tölvuheimar 2000 43 (1)
Sigurður Fjalar Jónsson, „Öld afþreyingarinnar: brot úr sögu tölvuleikjanna 2”. Tölvuheimar 2000 44 (2)
Sigurður Fjalar Jónsson, „Öld afþreyingarinnar: brot úr sögu tölvuleikjanna 3”. Tölvuheimar 2000 45 (3)
Wolf, Mark J. P., The Video Game Explosion. A History.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑