Leikjarýni

Birt þann 22. júlí, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: LittleBIG Planet 2

eftir Daníel Pál Jóhannsson

(Þetta efni birtist upphaflega í 1. tbl. af Nörd Norðursins sem hægt er að nálgast hér)

Hugmynd fæðist

Við sofum. Okkur dreymir. En hvert fara draumarnir þegar við vöknum? Samkvæmt Media Molecule þá fara allir draumar og hugmyndir okkar á sama stað. Þeir ákváðu því að búa til leik um þennann heim, þar sem allt safnast saman. Sá leikur heitir LittleBig Planet (LBP).

Fyrsti LittleBig Planet leikurinn kom út í 3. nóvember 2008 í Evrópu og hefur selst í 4.5 milljónum eintaka hingað til. Þessi grein fjallar aðallega um nýjustu útgáfuna sem heitir því frumlega nafni LittleBig Planet 2. Hann kom út þann 19. janúar 2011 og hefur fengið gríðarlegar undirtektir.

Gerð

LBP serían er af leikjagerð sem kallast 2.5D, sem þýðir að þessi tegund leikja svipar til Mario Bros. leikjanna. Nema hvað að í borðunum er ákveðin dýpt, sem gefur leiknum ákveðna þrívíddaráferð. Í nýjustu útgáfunni er búið að taka gömlu útgáfuna og skerpa, fikta í, fægja, betrumbæta, knúsaog gera hana betri heldur en lyktina af beikoni. Næstum því. Með þessari breytingu á leiknum eru borðin margfalt fjölbreyttari.

Brúðan

Brúðan (e. Sackboy) er hlutgervingur spilarans í leiknum. Brúðunni er hægt að breyta á ýmsan máta. Hægt er að breyta litinum á henni, breyta um munstur, klæða hana í allskonar hatta, jakka, buxur, skó, hafa mismunandi augu, yfirvaraskegg, mismunandi tennur og allt mögulegt Til að byrja með eru þessir valmöguleikar af skornum skammti, en eftir því sem spilarinn fer í gegnum leikinn fær hann einn, tvo, fullt og marga marga fleiri hluti í safnið sitt sem síðan er hægt að klæða brúðuna í. Hvort sem spilarinn vill spila sem sjóræningi með krók á hendinni, ninja í fullum klæðum, varúlfur, galdrakall, álfadís eða prinsessa, þá er það allt hægt. Eða blanda þessu öllu saman og fá varúlfasjóninju með pípuhatt og álfadísa  galdraprik.

Borðin

Borðin í LittleBig Planet 2 eru svakalega fjölbreytt. Spilarinn er ekki bara að hlaupa með Brúðuna á milli tveggja staða, sem oft er góð skemmtun, heldur eru sum borð þar sem spilarinn stýrir lirfu sem skríður upp tré og forðast elda, fljúga býflugum og skjóta vélmenni með hunangi, ríða á úlfalda sem skýtur lasergeislum út úr kjaftinum á grimmar vélleðurblökur og litla djöfla. Og ekki eru farartækin bara algjör beikonsnilld, heldur eru allskonar tæki og tól sem spilarinn fær til að hjálpa sér að komast í gegnum borðin. Tveir helstu hlutirnir eru Grípirinn (e. Grabinator) og Gripkrókurinn (e. Grappling Hook). Grípirinn gerir spilaranum kleift að taka upp þunga hluti, jafnvel aðra spilara, og kasta þeim langar leiðir á meðan Gripkrókurinn gefur spilaranum möguleikann að sveifla sér yfir hættur og ferðast langar leiðir án þess að snerta jörðina. Að svo nefndu má alls ekki gleyma Skaparanum (e. Creatinator) sem er hjálmur sem gerir mismunandi hluti. Í sumum borðum skýtur hann sprengjum, í öðrum sprautar hann vatni til að slökkva elda, og meira að segja í einu borði skýtur hjálmurinn stórgirnilegri köku sem spilarinn hoppar á til þess að komast yfir hættur.

Mini-Borðin

Í flestum borðum er hægt að finna lykla sem opna ný borð fyrir spilarann. Þessi borð eru af öllum toga, allt frá því að vera kapphlaup í gegnum skemmtilega hannaðar hindranir, spila pool, bjarga litlum vélmennum, lifa sem lengst af í borðum þar sem hætturnar streyma að úr öllum áttum og kappakstur á músum. Skemmtileg borð sem brjóta upp söguþráðinn og er mjög gaman að detta í þau með vinum í fjölspilun.

Stig & Hlutir

Eins og í flestum ef ekki öllum tölvuleikjum þá er alltaf einhver leið til að ná stigum. LittleBig Planet er ekkert öðruvísi. Í leiknum eru litlar fallegar aðlaðandi kúlur sem spilarinn reynir að ná. Ef spilarinn nær fimm kúlum í röð fær hann margföldun á stigin. Þannig ef að spilari nær fimmtán kúlum í röð fær hann fjórum sinnum fleiri stig fyrir kúlurnar heldur en ef hann hefði bara náð þeim einni í einu. Með þessu kerfi er búið til ákveðið flæði í leiknum.

Spilarinn getur dólað sér í gegnum borðið og farið ofsa varlega svo hann detti ekki ofan í holu þar sem eldblóm étur hann. Eða spilarinn getur kastað öllum varlegheitum út um gluggann á fimmtu hæð og farið í gegnum borðið eins og eplið sem lenti á hausnum á Newton.

Spilarinn getur dólað sér í gegnum borðið og farið ofsa varlega svo hann detti ekki ofan í holu þar sem eldblóm étur hann. Eða spilarinn getur kastað öllum varlegheitum út um gluggann á fimmtu hæð og farið í gegnum borðið eins og eplið sem lenti á hausnum á Newton. Semsagt hratt. Nánar tiltekið 9,81 m/s². Síðan til að auka vellíðan spilarans eftir gott og hratt stigahlaup í gegnum borðið er hægt að bera saman stigin við stig vina sinna og alla aðra sem spila leikinn og eru nettengdir.

Hérna eru líka þessir Hlutir sem búið er að nefna. Þeir búa í stærri útgáfu af stigakúlunum og sér spilarinn oftast hvað er inni í þeim. Þessar kúlur gefa fleiri stig en á móti eru þær færri. Í þessum kúlum eru ekki bara búningar fyrir Brúðuna, heldur eru allskonar hlutir. Sem dæmi má nefna límmiða, hljóð, tilbúna hluti, efni, áferð og þaðan af. En allt þetta kemur saman í safni spilarans sem hann getur síðan notað seinna meir. Nánar um það síðar.

Fjölspilun

LittleBig Planet leikirnir bjóða upp á fjóra spilara í einu, hvort sem þeir eru allir á sömu PlayStation 3 tölvunni eða hver með sína tölvu. Auðvelt er að hoppa inn í leik hjá öðrum og hoppa aftur út. Fjölspilun yfir netið í LittleBig Planet 2 er útfærð á svipaðan hátt og í fyrri leiknum. Enda var lítið sem ekkert sem þurfti að hagræða í þeim málum. Með því að spila leikinn tengdur við netið þá getur spilarinn séð hversu margir eru að spila hvert borð fyrir sig, hann getur skrifað ummæli um borð sem hann hatar, elskar, eða finnur ekki einhvern hlut sem hann vantar í því borði og vantar hjálp. Í mörgum borðunum eru svokallaðar fjölþrautir, sem eru þannig að það þarf fleiri en einn spilara til þess að leysa þrautina, til að nálgast þessa hluti til að bæta í safnið. Flestar fjölþrautirnar þurfa tvo spilara, sem geta t.d. verið þess eðlis að einn þarf að standa á takka til að kveikja á lyftu svo hinn spilarinn komist að fjársjóðnum. Sumar fjölþrautirnar eru það grófar að þær krefjast þess að fjórir spilarar vinni í fullkomnu samræmi til þess að leysa þær, enda er tilfinningin þegar þær eru leystar óneitanlega góð. Þar kemur fjölspilunin sterk inn, þar sem auðvelt er að koma inn í leik hjá öðrum, er hægt að safna liði fljótlega til þess að leysa þessar elskulegu fjölþrautir, og allir fá verðlaunin sín.

Hljóð

Hljóðin í leiknum eru vel gerð og passa vel við allt sem er að gerast. Hvert einasta hopp, popp og plopp passar akkúrat. Málið með hljóð í tölvuleikjum er að maður tekur varla eftir þeim ef þau eru vel gerð, en þau skara úr eins og neglur á krítartöflu ef þau eru illa gerð. Í LittleBig Planet 2 flýgur þetta allt framhjá manni og spilunin er frábær. Tónlistin í leiknum er algjört æði og hörmuleg. Með hörmuleg þá er átt við að þetta eru góð lög sem þú færð á heilann. Allann daginn. Alltaf. En flest lögin eru eins og að fá kærleiksbjarna knús fyrir eyrun.

Skaparinn

Í leiknum er hægt að búa til sín eigin borð, með fjölhæfum tólum. Tólin sem hægt er að nota eru það öflug að með þeim getur þú búið til jafn öflug borð og sjálfur leikurinn inniheldur. Það eru mörg kennslumyndbönd innbyggð í leikinn og þar er farið í gegnum öll tólin sem þér stendur til boða og þér gefin dæmi um hvað er hægt að gera. Við ljúgum ekkert um það, en það að ná tökunum á þessum tólum tekur tíma og mikla æfingu. En þegar æfingin er komin í hús þá er hægt að gera næstum allt. Hvort sem þú vilt búa til borð fullt af trampólínum og fuglum eða borð sem inniheldur fullt, fullt og fullt af gómsætu, stökku beikoni. Síðan er hægt að deila hugmyndafyllta-borðinu þínu með öðrum spilurum þar sem þeir fá tækifæri til að spila það, gefa því einkunn og jafnvel skrifa athugasemdir um það. Nú þegar eru tonn ofan á tonn af borðum sem spilarar hafa búið til og mörg þeirra eru algjör snilld. Sumir hafa meira að segja búið til sínar eigin útgáfur af gömlum, klassískum leikjum eins og Zelda og Final Fantasy.

Lokaorð

LittleBig Planet 2 er kærkomin viðbót á eldri LittleBig Planet grafíkvélina. Hérna er stórskemmtilegur leikur á ferð sem er hægt er að njóta einn, í hópi vina eða með ókunnugum úti í heimi. Þó að söguþráðurinn geti verið nokkuð slitinn á tímabilum og hætta er að fá gæsahúð vegna kjánahrolls, þá er hann oft á tímum algjör snilld. Það er ekki annað hægt en að mæla með leiknum. Í honum er hægt að láta sköpunargleðina skína með því að búa til borð sem innihalda meira og minna allt sem þér sýnist. Eða bara búa til þinn eiginn einfalda tölvuleik, hvort sem þú vilt búa til nýjan Mars Invaders eða Ping-PongLittleBig Planet 2 er klárlega eitthvað sem þú vilt spila, hvort sem þú reynir að ná 100% í öllum borðunum sem eru í leiknum, spila borð eftir aðra spilara eða búa til borð sjálfur. Síðast en ekki síst þá er þetta leikur sem skorar hátt á konu-skalanum. Með öðrum orðum, þetta er eitthvað sem kærastan, unnustan eða konan þín vill spila með þér, eða jafnvel í sumum tilfellum taka leikinn alveg yfir og spila fram á rauða nótt.

Grafík: 9.0
Hljóð: 9.0
Saga: 7.5
Spilun: 9.0
Endurspilun: 9.5
Samtals: 8.8


Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑