Greinar

Birt þann 9. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Hvað er spunaspil?

Spunaspil hafa lengi vel verið með stimpil á sér, sem samanber að spilarar þess sé litlir bólugrafnir nördar sem ganga um skógvaxið lendi með atgeir í hendi og klæddir brynju, að því viðbættu að eiga heima í kjallaranum hjá mömmu sinni. Svipaður hugsunargangur hefur ríkt lengi um ýmis áhugamál, til dæmis tölvuleikjaspilun eins og margur hver lesandi Nörd Norðursins (fyrir utan atgeirinn og brynjuna kannski) stundar.

En núna eru nýjir tímar og tölvuleikir hafa hlotið félagslegt samþykki (upp að vissu marki). Hinsvegar lifir nördalegi frændinn, spunaspilið, enn neðanjarðar lífi og það litla sem umheimurinn veit (eða heldur að hann viti) er að galvaskir nördar hendi teningum um eins og enginn sé morgundagurinn og drepa ýmindaða óvini með engri miskun. Það er sannleikur til í því, en aðeins hálfur sannleikur.

 

Þegar þið sáuð „spunaspil“…

… sáu þið þá þennan fyrir ykkur?


Er þetta jafn nördalegt og það hljómar ?

Tja, já og nei. talandi frá mínu eigin hjarta fæ ég ósköp svipaða tilfinningu þegar ég er að horfa á fótbolta eða spila Battlefield 3 með félögunum eða jafnvel Risk eða Scrabble. Þetta er ekkert annað en spil spilað með félögunum, en það fer töluvert meiri hugsun í spunaspil heldur en í týpísku spilin, og eins og með margt sem fer mikil vinna í, gefur meira af sér. Ímyndaðu þér að þetta sé svipað og að horfa á bíómynd eða sjónvarpsþátt, nema hvað að þú ert ein/n af persónunum, og þú ásamt föruneyti þínu getur mótað og breytt sögunni á þann hátt sem þér þóknast.

Ímyndaðu þér að þetta sé svipað og að horfa á bíómynd eða sjónvarpsþátt, nema hvað að þú ert ein/n af persónunum, og þú ásamt föruneyti þínu getur mótað og breytt sögunni á þann hátt sem þér þóknast.

Að koma sem byrjandi að spunaspili getur verið pínu ruglandi. Haugur af teningum og fullt af bókum og maður kann ekki neitt á. Það sem hrindir sumum frá spunaspilun, þegar þeir gera heiðalega tilraun til að ríða á vaðið, er vankunnátta á reglum viðkomandi kerfis. Það eru til mörg spunaspilskerfi sem eru mis flókin og geta reglurnar vafist fyrir mörgum. Það eitt að búa til karakter getur reynst múrveggur fyrir suma ef tilsögn eða skilningur á því hvernig hlutirnir virka er ekki til staðar.
Og sumir hætta því þar.

En ekki láta það aftra þér. Ég man eftir því þegar ég bjó til minn fyrsta karakter í Dungeons and Dragons fyrir rúmlega 10 árum. Ég skildi hvorki upp né niður í neinu en komst þó í gegnum það með hjálp strákanna. Fyrst var það þannig að hvert skipti sem ég átti að kasta tening stóð ég á gati og hafði ekki hugmynd um hvað ég var að gera, en það lærðist, því mig langaði að læra það, því þetta var svo skemmtilegt. Maður þarf ekki að kunna reglurnar utan bókar til að geta skemmt sér. Fyrsti spunameistarinn minn  tók það ítrekað fram að hann kynni ekki reglurnar almennilega, og hann er sá skemmtilegasti sem ég hef spilað undir.

 

En hvað er spunaspil ?

Í mínum huga er spunaspil eitthvað sem maður gerir í góðum vinahópi, vopnaðir teningum, blýöntum og karakter skribblaðann á blað. Þar sem einn úr hópnum situr við enda borðsins, sem er hér með kallaður á slæmri íslensku, spunameistari (eða GM, skammstöfun fyrir Game Master) og segir söguna sem hinir spilararnir fylgja.

Til að útskýra nánar þá segir spunameistarinn söguna. Hann er umhverfið, hann er heimurinn. Hann er gamli kallinn á bakvið barinn sem skrúbbar sama skítuga glasið klukkutímum saman. Hann er stormurinn sem kemur í veg fyrir að þú komist yfir fjallið, og hann er riddarinn hinumeginn á vígvellinum vopnaður lensu sem er merkt þér. Spunameistarinn býr til söguna sem þú, spilarinn, fylgir.

Spunameistarinn býr til söguna
sem þú, spilarinn, fylgir.

Allir hinir sem sitja við borðið eru spilararnir, þeir spila persónu sem hver og einn hefur búið sér til og spilar eftir sínu höfði þar sem einu takmörkin eru þau sem spunameistarinn setur. Annarsvegar eru mjög lítil takmörk fyrir því sem þú getur gert. Hvort þú viljir spila blóðþyrsta vampíru, riddara réttlætisins, eða geðsjúkling með króníska hræðslu fyrir antík húsgögnum.

Og er allir setjast við borð hlaðið teningum og  miklu magni af óheilbrigðum matvælum sem gætu látið hest fá hjartastopp byrjar spilið þar sem sagan sem spunameistarinn bjó til er spiluð.

 

Ég hef áhuga, hvar og hvernig er hægt að nálgast þetta ?

Ef ég hef náð athygli þinni ágæti lesandi og hef náð að vekja upp áhuga, þá er náttúrulega spurningin hvað þú myndir vilja spila.

Það koma fjölmörg kerfi til greina. Dungeons and Dragons (gamla sem nýja), Pathfinder, World of Darkness (sem er í eigu CCP) , Shadowrun, Call of Cthulhu, Gurps og Anima Beyond Fantasy og þetta er bara til að klóra í toppinn á ísjakanum. Jafnvel eru til kerfi sem eru gerð eftir sjónvarpsefni og bókum, til dæmis Stargate, Game of Thrones, Star Wars, Firefly og margt margt fleira.

Það fer eftir því hvað kveikir í þér. Hvort þú viljir spila klassíska fantasíu. Berjast við dreka, orka og djöfla með sverð í einni og skjöld í hinni, eða spila iðnaðarnjósnara í framtíðinni með græjur græddar í þig sem græjukallinn hans Bonds, Herra Q, myndi missa vatn yfir, eða svokallað „universal“ kerfi sem leyfir þér að spila allt frá pípara eða bankastarfsmanni til varúlfs eða draugs. Það eru nánast engin takmörk fyrir neinu í því magni af spunaspilskerfum sem til eru.

En þá spyrðu sjálfa/n þig, hvar er hægt að nálgast þetta efni?

Það er bara ein verslun á landinu sem selur þess háttar efni, og ber hún nafnið Nexus og er á Hverfisgötunni, þar sem starfsfólkið er mjög hjálpsamt og ef ég á að tala frá persónulegri reynslu, er alltaf til í að hjálpa manni. En hvað ef vinir þínir hafa ekki áhuga á að prófa þetta og/eða eru mjög feimnir við þetta, þetta er náttúrulega ekki eins manns sport. Þá ber að kíkja á Hugleikjafélag Reykjavíkur sem stendur reglulega að allskonar viðburðum, og ekki einungis bundið spunaspilun, þó að allir viðburðir séu í nördalegri kantinum, eins og við viljum það er það ekki ?

En þetta er einnig byrjunin á því sem koma skal.

Í komandi greinum koma umfjallanir um ýmis spunaspilskerfi, hvernig skal stjórna spili og ýmislegt fleira um heim spunaspila.


Forsíðumynd: Wikimedia Commons

– Hákon Þór Pálsson

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑