Tölvuleikir

Birt þann 21. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Diablo 3 spilaður: Kynning

Diablo 3 er nýjasta meistaraverk Blizzard leikjafyrirtækisins en eins og nafnið gefur til kynna er leikurinn sá þriðji í Diablo seríunni. Saga leiksins gerist um tuttugu árum eftir Diablo 2 og hittir spilarinn persónur í leiknum sem hafa áður komið við sögu. Settur útgáfudagur fyrir leikinn er 15. maí 2012 og þótt ótrúlegt sé þá virðist sem Blizzard eigi eftir að skila leiknum á tilsettum tíma en þeir eru þekktir fyrir það að seinka útgáfu leikja sinna.

Til þess að spila Diablo 3 er nauðsynlegt að búa til aðgang á Battle.Net til að nota í Diablo 3 leiknum. Vert er að benda á að nauðsynlegt er að vera nettengdur til að spila leikinn svo að Blizzard geti staðfest að eintakið af leiknum sé löglegt og að ekki sé verið að svindla á kerfinu. Margir hafa mótmælt þessari ákvörðun Blizzard en satt að segja er þetta varla ástæða fyrir því að fá sér ekki leikinn því ef við hugsum um þau skipti sem við spilum tölvuleiki án netsins þá eru þau mjög fá.

Þegar leikurinn byrjar blasir við manni flott viðmót þar sem mögulegt er að velja sér þá hetju sem maður vill spila.

 

Hetjurnar sem í boði eru eru mjög fjölbreyttar, og hafði ég mjög gaman af því að fá að prófa þær allar. Svo gaman reyndar, að ég kláraði Betu prufuútgáfuna með öllum fimm hetjunum. Þær fá allar aðgang að mismunandi vopnum og vörnum, sem eykur fjölbreytnina enn meira. Þegar hetjan er valin getur spilarinn valið kyn hennar, sem er nýjung frá fyrri Diablo leikjum þar sem hver hetja var föst við eitt kyn. Þetta gerir að mínu mati persónusköpunina og spilun mun skemmtilegri.
En tölum aðeins um hetjurnar sjálfar.

 

Monk


Munkurinn er návígishetja sem notar hnefana eða stafi til að berja á djöflum og uppvakningum. Munkurinn er bestur af Diablo 3 hetjunum í að hlaupa á milli óvina sinna og koma að þeim úr mismundandi áttum. Munkurinn hefur einnig galdra sem eru bæði notaðir til að græða sár munksins sjálfs og meðspilara hans, eða til þess að skaða óvinina. Munkurinn notar andlega orku fyrir galdra sína, en orkan hleðst upp á meðan hann berst við óvini sína. Þegar munkurinn notar hæfileika sína í vissri röð fær hann ennþá meiri orku, sem gerir honum kleift að valda meiri skaða á skemmri tíma.

 

Witch Doctor


Töfralækninum svipar mikið til Necromancer hetjunnar úr Diablo 2, en hann er samt meiri vúdú furðufugl. Galdrar töfralæknisins eru það sem gerir hann að mjög áhugaverðri hetju, en spilarinn getur notað galdra sem fylla skjáinn af litlum köngulóm eða froskum, sem skaða óvini hans. Einn af helstu styrkleikum töfralæknisins er hæfni hans til að stöðva, hægja á og stjórna óvinunum, en þannig heldur hann sjálfum sér og vinum sínum frá skaða.

 

Barbarian


Barbarinn er ekki flókin hetja. Þetta er í raun Diablo 2 barbarinn með betri grafík. Í návígi hoppar hann eins og brjálaður maður og slátrar þannig öllu sem fyrir honum verður. Barbarinn safnar upp reiði til að beita sniðugum brögðum með vopnum sínum og  til þess að öskra á óvini sína sem hefur margvísleg áhrif. Í fjölspilun er nauðsynlegt að hafa einn barbara í fremstu línu, þar sem hann þolir skaða mun betur en allar hinar hetjurnar.

 

Wizard


Galdramaðurinn er útfæring á Sorceress hetjunni úr Diablo 2, sem var útfæring á Sorcerer úr fyrsta Diablo leiknum. Galdrarnir sem galdramaðurinn hefur aðgang að skala allt frá því að skjóta eldingum, eldi og ís að óvinum sínum og upp í að geta hægt á tímanum og flutt sig frá einum stað til annars á augabragði (jafnvel í gegnum veggi). Galdramaðurinn notar orku til að nota sterkustu galdra sína, en venjulegu eldboltarnir og eldingafleygarnir nota enga orku.

 

Demon Hunter


Djöflaveiðarinn sameinar hæfileika Amazon og Assassin hetjanna úr Diablo 2. Hann notar lásaboga sem aðalvopn en hendir einnig sprengjum og leggur gildrur. Djöflaveiðarinn getur orðið ósýnilegur og getur þannig komið sér fyrir á góðum stað til þess að taka út óvini sína, áður en þeir ná til hans. Djöflaveiðarinn notar Hatur og Aga til að virkja hæfileika sína. Hatur er notað fyrir árásir, en Agi er notaður fyrir varnir eins og gildrur og ósýnileika.

Þegar búið er að velja hetjuna þarf að velja nafn á hana, sem er eins og margir vita oft með því erfiðasta í tölvuleikjum. Þegar það er komið er leikurinn byrjarður.

 

Í byrjun leiksins er hetjan á göngustíg rétt fyrir utan bæ sem heitir New Tristam og það sprettur upp lítill gluggi sem hjálpar manni að byrja leikinn. Hetjan fer í bæinn en á stuttri leiðinni er farið lauslega yfir stjórntækin sem spilarinn þarf að kunna. Þegar komið er í bæinn byrjar sagan og gamanið. Eftir stutta spilun er maður fljótlega búinn að ná tökum á stjórntækjum leiksins og þrátt fyrir einfaldleika þeirra eru þau öflug.

Breytingin frá fyrri leikjum er á sumum sviðum gríðarleg en á öðrum smávægileg.


Skjáskot úr Diablo 3

Í gegnum leikinn finnur spilarinn fjöldan allan af bókum (e. Journals) og ef þær eru teknar upp fáum við innsýn í söguþráðinn því sá sem skrifaði bókina les fyrir okkur innihaldið. Maður stoppar nefnilega ekki í þessum leik til þess að lesa bækur, þú heldur áfram að slátra skrímslum og ófreskjum, þó að bókin væri nýjasta verk George R. R. Martin (höfundur Game of Thrones). Eftir því sem þú spilar meira falla fleiri skrímsli, uppvakningar og aðrar furðuverur fyrir hendi þinni og færðu oft aðgang að skemmtilegum stuttum frásögnum um þær skrímsla tegundir sem voru nógu óheppnar að verða á vegi þínum.

Þegar komið er lengra í leikinn sjást helstu breytingar frá fyrri leikjum og má þar nefna bónusa fyrir að framkvæma ákveðna hluti. T.d. mætti nefna að maður fær XP-bónus fyrir það að drepa ákveðið magn óvina innan ákveðins tímaramma, drepa fleiri en 5 óvini í einu höggi, valda mikilli eyðileggingu á umhverfinu á stuttu tíma. Já, þú last rétt. Eyðilegging og umhverfi. Í Diablo 3. Vertu spennt/ur.


Skjáskot úr Diablo 3

Í Diablo 3 notar Blizzard grafíkvél sína til að keyra leikinn. Grafíkvélin býður upp á umhverfi sem hægt er að breyta og þegar leikurinn er spilaður sést oft að með þessari tækni er komin meiri dýpt í leikinn. Spilarinn fer inn í hús sem er í niðurnýðslu, opnar hurð og þá getur rotnandi þakbiti dottið í gólfið, í dýflissum eru hangandi ljósakrónur sem hægt er að losa svo að þær detti á óvinina, brjóta stoðir fyrir veggir svo að þeir detti niður o.s.frv. Þarna er komið kerfi sem lífgar upp á bardagavöllinn og sem dæmi má nefna að þegar bókahrúgur og skrifborð eru nálægt bardagasvæðum splundrast hrúgurnar við öflug högg og borðin brotna og veltast um.

Þarna er komið kerfi sem lífgar upp á bardagavöllinn og sem dæmi má nefna að þegar bókahrúgur og skrifborð eru nálægt bardagasvæðum splundrast hrúgurnar við öflug högg og borðin brotna og veltast um.

Eins og í mörgum nútíma leikjum er svokallað afrekakerfi (e. achievements) sem heldur utan um hvaða afrek spilarinn hefur uppfyllt, sem dæmi má nefna fær maður afrek fyrir að drepa skrímsli með ljósakrónu, finna 500 gull, klára hluta af sögu leiksins. Afrekakerfið er sniðug aðferð fyrir leikjaframleiðendur því það oft við endingartíma leikjanna þar sem að margir sækjast eftir því að ná sem flestum ef ekki öllum afrekunum og er það í sjálfu sér afrek að ná öllum afrekunum.

Fleiri nýjungar er að finna í leiknum, eins og til þess að taka upp gull sem dettur af óvinum er nóg að láta hetjuna labba yfir það svo hún taki það upp. Í mörgum bardögum koma rauðar kúlur þegar óvinur er drepinn og ef spilarinn labbar á þessar kúlur þá fær hann meiri heilsu og þarf því ekki að notast við Health Potion. Búið er að endurgera hvernig spilarinn notar Health Potion og hvernig hann notar eiginleika hetjunnar og er það meistaralega gert því til að notast við Health Potion þarf bara að ýta á Q og eiginleikana er hægt að stilla á vinstri og hægri músarhnappa og talnalyklana 1-4. Allar þessar breytingar eru greinilega gerðar til þess að auka flæði í spilun leiksins og það skilar sér svo sannarlega því leikurinn er skemmtilega hraður.


Skjáskot úr Diablo 3

Rúnirnar koma aftur í Diablo 3 en með nýrri (og sniðugri) notkunarmöguleika. Í Diablo 3 hafa eiginleikar hetjanna þann möguleika að nýta sér eina rún. T.d. getur Munkurinn betrumbætt högg sitt þannig að hann skýst í átt að óvininum og Galdramaðurinn getur látið eldingu sína til að hoppa á milli margra óvina. Þarna losnar spilarinn við það að vera alltaf að leitast eftir vopni eða brynju með nægu plássi fyrir rúnirnar.

Harðkjarna spilarar geta fengið sitt úr Diablo 3 því hann, eins og fyrri leikirnir, býður upp á harðkjarna spilun (e. Hardcore Mode). Í þessari spilun er hetjan einungis með eitt líf, eins og í raunveruleikanum, því er ekki hægt að lífga hana við ef hún. Draugur hennar getur talað við aðra en andinn kemur aldrei aftur í leikinn.

Í fullri útgáfu leiksins mun Diablo 3 innihalda uppboðshús (e. auction house) af nánast óheyrðri stærð í tölvuleikjaheiminum. Uppboðshúsinu verður skipt í tvennt, eitt fyrir gull sem spilarinn finnur í leiknum en hitt er fyrir alvöru peninga. Það er rétt, þú átt eftir að geta keypt þér hluti á hetjuna þína með alvöru peningum.

Það er rétt, þú átt eftir að geta keypt þér hluti á hetjuna þína með alvöru peningum.

Fjölspilunin í Diablo 3 er frábær og auðvelt er að hoppa inn í leik hjá öðrum og fyrir aðra að hoppa inn í þinn leik. Ekkert vesen, virkar vel, hratt og örugglega. Spilunin í fjölspiluninni fer náttúrulega eftir því hvernig hópi þú lendir í en flestir sem ég hef spilað með hafa verið frábærir og eru að spila sér til skemmtun og til þess að hafa gaman. Vert er að minnast á að allt sem skrímsli missa þegar þau eru drepin er þitt. Já, því það sem þú sérð detta er þitt, hinir sjá ekki þessa fínu bardagaexi sem endakallinn missti þannig að hún er þín til að nota eða selja, en þá sérð þú auðvitað ekki trylltu galdrabrynjuna sem félagi þinn fékk. Með þessu stórsniðuga kerfi er komið í veg fyrir svokallað Ninja-Looting þar sem spilarinn grípur öflugan hlut þrátt fyrir að annar spilari í hópnum geti nýtt hlutinn betur. T.d. að Galdramaður myndi grípa risasverð sem Barbari gæti notað.

 

Það sem Diablo 3 Beta prufuútgáfan hefur sýnt okkur er að við  megum búast við leik með miklum hraða, frábæru flæði og góðri grafík með flottu umhverfi.

Það sem Diablo 3 Beta prufuútgáfan hefur sýnt okkur er að við  megum búast við leik með miklum hraða, frábæru flæði og góðri grafík með flottu umhverfi. Mæli eindregið með leiknum og þrátt fyrir að vera námsmaður þá mun þessi fara á listann yfir leiki sem verður keyptur. Því þetta er leikur sem hægt er að spila  í 10-15 mínútur eða 4 klukkustundir. Gott að hoppa í fjölspilun með vinum og/eða ókunnugum.

Daníel Páll Jóhannsson og Helgi Eiríksson

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑