Fréttir

Birt þann 21. janúar, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Microsoft kaupir Activision Blizzard

Tækni- og leikjarisinn Microsoft ákvað að byrja árið með risabombu og tilkynnti að fyrirtækið hefði náð samkomulagi við Activision Blizzard um kaup á fyrirtækinu fyrir tæplega 70 milljarða Bandaríkjadali sem gera um 9 billjónir íslenskra króna eða 9 þúsund milljarða á núverandi gengi.

Þetta eru stærstu kaup Microsoft hingað til og með þeim er Microsoft orðið þriðja stærsta leikjafyrirtæki í heimi á eftir kínverska fyrirtækinu Tencent og japanska fyrirtækinu Sony.

Þessi kaup eru háð samþykki stjórnvalda og samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjum. Á meðan þau fara yfir það munu Xbox-deild Microsoft og Activision Blizzard áfram starfa sem sjálfstæðar einingar. Áætlað er að kaupin klárist einhvern tímann á tímabilinu júlí 2022 til júní 2023 sem markar fjárhagsárið 2023 hjá Microsoft.

Í september 2020 gekk Microsoft frá kaupunum á útgefandanum ZeniMax Media/Bethesda, sem gefur út leiki eins og Fallout, Doom, The Elders Scrolls, Quake o.fl. fyrir um 8 milljarða dollara. Árið 2014 keyptu þeir sænska fyrirtækið Mojang (Minecraft) fyrir um 2.5 milljarða dollara.

Með þessum kaupum er fyrirtækið að styrkja enn meira við tölvuleikjaútgáfu fyrirtækisins og bætist þetta við kaup á smærri fyrirtækjum eins og Ninja Theory, Undead Labs, Compulsion Games, Playground Games, inXile Entertainment og Obsidian Entertainment árið 2018. Árið 2019 bættist Double Fine Productions við í Xbox fjölskylduna.

„Í gegnum marga áratugi hafa stúdíó og hópar innan Activision Blizzard fært fólk hamingju og skemmtun, við erum einstaklega spennt að fá þetta tækifæri að vinna með þessu hæfileikaríka, duglega og metnaðarfulla fólki innan Activision Publishing, Blizzard Entertainment, Beenox, Demonware, Digital Legends, High Moon Studios, Infinity Ward, King, Major League Gaming, Radical Entertainment, Raven Software, Sledgehammer Games, Toys for Bob, Treyarch, og öllum öðrum innan Activision Blizzard“ sagði Phil Spencer yfirmaður Xbox í tilkynningu um kaupin.

Spencer sagði að Microsoft stefni á að bæta við eins mörgum af Activision Blizzard leikjum sem þeir geta við Xbox Game Pass þjónustu þeirra á PC og leikjavélunum ásamt nýjum og eldri titlum úr safni fyrirtækisins.

Það er óhætt að segja að síðasta ár hafi reynst bandaríska fyrirtækinu Activision Blizzard vel þó svo að ótal fréttir um slæma meðferð starfsfólks hafi verið reglulega í fréttum og mikil pressa hafi verið sett á Bobby Kotick forstjóra þess að stíga til hliðar, og á sama tíma afnema spillinguna og þá vondu menningu sem var leyft að grassera í fyrirtækinu árum saman sem bitnaði mest á kvenfólki og fólki í minnihlutahópum.

Spencer sagði síðan „við virðum mjög menningu hvers stúdíós fyrir sig, við trúum að listrænt frelsi og sjálfstjórn fari vel saman með að koma fram við hverja persónu af virðingu og reisn. Við krefjumst þess af öllum vinnuhópum og leiðtogum. Við hlökkum til að færa okkar menningu og samheldni til allra þeirra frábæru vinnuhópa og starfsmanna Activision Blizzard.“

Ef að þessi kaup ganga í gegn mun Microsoft eiga nokkrar af stærstu leikjaseríur heims eins og Call of Duty, Diablo, WarCraft og Overwatch ásamt eSports verkefnum Activisions. Einnig eldri titla frá Sierra eins og King’s/Police/Space/Hero Quest leikina ásamt ótal eldri seríum. 

Við bætast tæplega 10 þúsund starfsmenn Xbox deildar Microsoft og mun fyrirtækið eiga yfir 30 virk leikjafyrirtæki.

Það er talið að hin margumdeildi forstjóri Activision, Bobby Kotick, muni láta af störfum þegar kaupin ganga í gegn. Hann stendur í ströngu í dag þar sem fyrirtækið á í mörgum málaferlum við bæði einstaklinga og ríkisstofnanir í Bandaríkjunum út af meðferð þeirra á starfsfólki og því vinnuumhverfi sem hefur viðgengist hjá Activision Blizzard árum saman.

Það er óskandi að ef að þessi kaup gangi í gegn að Phil Spencer og Microsoft muni taka til í skipulagi Activision Blizzard og bæði sópa út því starfsfólki sem hefur náð að búa til þetta eitraða vinnuumhverfi og ná að búa til betri vinnustað fyrir allt sitt starfsfólk og sem besta tölvuleiki fyrir okkur spilarana.

Hvernig Sony mun bregðast við þessu útspili Microsoft verður forvitnilegt að fylgjast með. Microsoft hefur verið að auka áhersluna á Game Pass áskriftarþjónustuna og gefið út leiki samdægurs á Game Pass og þeir fara í almenna sölu. Að fá Call of Duty o.fl. leiki strax þangað inn og jafnvel ekki á PlayStation gæti orðið mikil breyting á leikjalandslaginu og styrkt stöðu Xbox mikið. Microsoft hefur þó sýnt það með Minecraft að þeir hafa haldið áfram útgáfu leikja þeirra á leikjavélar Sony og Nintendo, svo það eru margir möguleikar í stöðunni.

Það eru búnir að vera þráðlátir orðrómar um að Sony sé að vinna að samkeppni við Game Pass sem gangi undir nafninu Project Spartacus og eigi að samtvinna PlayStation Plus og PS Now þjónusturnar í nýtt áskriftarmódel. Við vonandi sjáum meira af því þegar líður á árið.

Heimild: Xbox Wire Wall Street Journal Vísir

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑