Fréttir1

Birt þann 27. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ráðstefna um stafrænt frelsi 2012

Fjórða árlega ráðstefnan um stafrænt frelsi verður haldin 29. mars næstkomandi í Bíó Paradís. Viðfangsefni ráðstefnunnar í ár eru tvö, opið aðgengi að vísindalegu efni og samspil réttinda almennings og sérhagsmuna.

„Undanfarið ár hafa ógnir við frelsi netsins aukist verulega en á sama tíma eru netnotendur farnir að svara fyrir sig,“ segir Tryggvi Björgvinsson, formaður FSFÍ. „Nú er mikilvægt að netnotendur átti sig á stöðunni og snúi vörn í sókn. Þessi ráðstefna er skref í þá átt.“

Framgangur vísindanna er annað viðfangsefni ráðstefnunnar með kröfunni um opinn aðgang að niðurstöðum og gögnum rannsókna. Þessi krafa hefur orðið hærri undanfarna mánuði þar sem vísindamenn hafa byrjað að sniðganga stór vísindarit sem opna ekki aðgang fyrir alla að opinberlega fjármögnuðum rannsóknum.

Á ráðstefnunni verður einnig fjallað um réttindamál almennings, aðgengi að upplýsingum og þær aðferðir sem netverjar hafa þróað til að efla lýðræði og verja menningu.

Ráðstefnan er haldin af Félagi um stafrænt frelsi í samvinnu við OpenAccess.is. Aðgangur er ókeypis en gestir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á síðunni www.rdfc.is sem einnig geymir ítarlegri dagskrá. Flestir fyrirlestrar verða fluttir á ensku.

 

Um aðalfyrirlesarana

 

Glyn Moody

Fyrir og eftir SOPA
Aðgerðirnar í kringum lokun internetsins 18. janúar síðastliðin er þegar verið að túlka sem þáttaskil í stafrænum aktivisma. Í fyrsta skipti tóku stór netfyrirtæki sig saman ásamt milljónum netnotenda og tjáðu áhyggjur sínar vegna SOPA og PIPA löggjafarinnar sem á nú leið sína um bandaríska lagakerfið. En til að skilja af hverju þessi deila átti sér stað verðum við að líta ekki aðeins til síðustu ára heldur síðustu alda. Með það í huga er hægt að aðstoða internet aktivista til að leggja á ráðin til framtíðar, þegar hvatarnir á bak við SOPA/PIPA – og jafn skaðlegu ACTA og TPP löggjafirnar – reyna aftur og aftur að ýta í gegn svipuðum leynilegum samningum sem skaða internetið og alla þá sem nota það.

Glyn Moody hefur starfað sem tæknifréttamaður og fyrirlesari í aldarfjórðung. Hann er höfundur metsölubókarinnar, Rebel Code: Linux and the Open Source Revolution, sem er ein ítarlegasta saga frjáls hugbúnaðar á prenti.

 

Alma Swan

Opinn aðgangur í Evrópu: hvernig miðar?
Opinn aðgangur getur náð framgangi á ýmsum vettvöngum – með þróun löggjafar, tæknilegum úrbótum sem auka aðgengið og vitundarvakningu sem hraða upptöku þess. Í Evrópu hafa orðið framfarir á öllum þessum sviðum síðastliðin ár og vitundarvakningin er sérstaklega áberandi þessa stundina. Í þessum fyrirlestri mun Alma veita yfirsýn yfir hvað hefur gerst og ástæður sem liggja að baki svo við getum haldið áfram að færa okkur það í nyt næstu ár.

Alma Swan er framkvæmdastjóri SPARC í Evrópu. SPARC eru alþjóðlegsamtök háskóla- og rannsóknabókasafna sem hvetja til opins aðgangs að ritrýndu efni.

 

Aðstandendur ráðstefnunnar

Félag um stafrænt frelsi á Íslandi (FSFÍ) var stofnað í mars árið 2008. Markmið FSFÍ er að kynna, hlúa að og vernda stafrænt frelsi þannig að sjálfsögðum réttindum Íslendinga sé viðhaldið í stafrænum heimi. Áhersluatriði FSFÍ er að tækni, menning, samskipti og þekking okkar séu frjáls.

OpenAccess.is er íslenskur áhugahópur um opinn aðgang með það markmiðað stjórnvöld, háskólar og opinberar stofnanir sem styrkja rannsóknirog vísindastarf setji sér stefnu um birtingar efnis í opnum aðgangi. Einnig stefnir hópurinn að því að íslenskir háskólar skrifi undir Berlínarsamþykktina frá 2003.

 

Dagskrá

09:00 Kaffi og skráning
09:30 – 10:30 Aðalfyrirlestur: Opinn aðgangur í Evrópu: hvernig miðar?Alma Swan, SPARC Europe
10:30 – 10:50 Opinn aðgangur að gögnum til vísindarannsókna, GuðmundurÞórisson, Háskóli Íslands
10:50 – 11:15 Kaffipása
11:15 – 11:35 Þátttaka Íslands í OpenAIREplus – SólveigÞorsteinsdóttir, Landspítali Háskólasjúkrahús
11:40 – 12:00 Opinn aðgangur og rannsóknarsjóðir Rannís – HallgrímurJónasson, Rannís
12:00 – 13:00 Verðlaunaafhending og hádegisverður
13:00 – 13:50 8 örfyrirlestrar (vilt þú tala?)
14:00 – 15:00 Aðalfyrirlestur: Fyrir og eftir SOPA  – Glyn Moody,sjálfstætt starfandi blaðamaður
15:00 – 15:20 Þjófkenndur af FTT – Dagþór S. Haraldsson
15:20 – 15:50 Kaffipása (30 mínútur)15:50 – 16:10 Internetið í öllu sínu veldi – Jonas Öberg
16:15 – 16:35 Rafbækur og aðgengi – Birkir Gunnarsson
16:40 – 17:00 Gagnasöfnun í þágu frelsis í evrópskum stofnunum – Stefan Marsiske

 

Frekari upplýsingar

Upplýsingar um hvern fyrirlestur er á http://rdfc.is.
Hafa má sambandá rdfc@rdfc.is.

 

Heimild: Fréttatilkynning frá FSFÍ (birt í heild sinni).

Myndir: RDFC og Wikimedia Commons.

BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑