Bíó og TV

Birt þann 9. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

8 sjónvarpsþættir fyrir veturinn

Nú þegar vetur er að ganga í garð eykst sjónvarpsefni til muna og fyrir þá sem vilja þættina sína með yfirnáttúrulegu ívafi og/eða nördalegum elementum, þá er af nógu að taka.
Þetta er stutt samantekt af þeim þáttum sem eru í áhorfun hjá greinarhöfundi eins og er.

 

 

The Walking Dead

Labbandi dauðir fjallar um það sem stundum er kallað Zombocalypse þ.e.a.s. þegar heimurinn er undirlagður af uppvakningum og þeir fáu sem lifa af þurfa að berjast fyrir lífi sínu.

Þættirnir komu skemmtilega á óvart á síðasta ári og margir hafa beðið eftir öðru tímabilinu sem hófst nýlega með eftirvæntingu. Það eru samt nokkur spurningamerki við það hvort nýju þættirnir eigi eftir að verða jafngóðir og þeir fyrstu og þá helst vegna þess að Frank Darabont, hvorki meira né minna en skapari þáttanna, var látinn fjúka af AMC sjónvarpsstöðinni. Önnur ástæðan er sú að þeir skáru niður fjármagn talsvert fyrir þetta tímabil og ætla samt að hafa fleiri þætti sem gæti þýtt færri uppvakninga og meira persónudrama. En eitthvað eru þeir að gera rétt þar sem þriðja tímabilið hefur þegar verið staðfest vegna mikils áhorfs.

Ég hef ekki séð nýju þættina (þeir eru í biðröðinni hjá mér) en mæli með fyrstu seríunni sem sankaði að sér verðlaunum. The Walking Dead er byggt á myndasögum með sama nafni.

IMDb síða The Walking Dead

 

The Fades

The Fades er annar af tveimur breskum þáttum sem glíma við samskonar efni þ.e.a.s. unglinga í fátækrahverfum og yfirnáttúrulega atburðir. Misfits eru hinir þættirnir (ég fjalla um þá hér að neðan) en ég hef heyrt góða hluti um aðra þætti sem heita Being Human.
Þessir þættir fjalla um unglingsstrák sem fær post-apocalyptic drauma og byrjar að sjá dánar manneskjur. Einn hina dauðu, hinn illi Vold…ég meina Polus, hefur fundið leið til að verða mannlegur aftur og það verður að stöðva hann!
Andrúmsloftið sem skapast í þessum þáttum er mjög drungalegt og þeir eru vel gerðir á allan hátt.

The Fades er lýsandi dæmi um muninn á amerísku og bresku sjónvarpsefni. Einungis voru 6 þættir í seríunni sem var dælt út á BBC3 á einum mánuði frá síðastliðnum september, þannig að þegar maður heyrði um þættina þá var serían búin.

IMDb síða The Fades

 

Supernatural

Sjöunda tímabil Supernatural var að hefjast nýlega. Þættirnir um bræðurna sem berjast við yfirnáttúruleg öfl eru komnir til daga sinna en eiga þó einstaka sinnum góða spretti. Sumir leikararnir standa sig vel, svo sem engillinn Castiel (Mischa Collins) og púkinn Crowley (Mark Sheppard). Bræðurnir eru samt gamlir vinir mínir svo ég verð að hafa þá með á þessum lista og ég fylgist áfram með þáttunum.

Vegna stigvaxandi áhorfs hefur höfundur þáttanna bætt við fleiri seríum; upprunalega áttu þær að vera þrjár, síðan fimm og núna erum við semsagt í þeirri sjöunda svo að talsverð lopateygjun er í gangi.

IMDb síða Supernatural

 

American Horror Story

Þetta er einn af mínum uppáhaldsþáttum núna. Það er í raun ekkert voðalega frumlegt við þessa þætti enda ber nafnið það með sér. Í grófum dráttum fjalla þættirnir um dæmigerða brotna fjölskyldu þ.e.a.s. hjón sem eru að reyna bjarga hjónabandinu og óánægða táningsdóttur þeirra. Þau flytja í hús með skuggalega fortíð og hlutir fara að gerast (ég sagði ykkur að þetta væri ekki frumlegt).

Greinarhöfundur er af gamla skólanum þegar kemur að hryllingi og hefur meira gaman af uppbyggingu og draugagangi heldur en slasher myndum nútímans svo að þetta hittir í mark. Það eru gæðaleikarar í hverju hlutverki og það er virkilega gaman að sjá hina gamalreyndu Jessica Lange sýna góða takta. Það verður athyglisvert að sjá hvort fólkið á bak við þættina nær að halda athygli manns með efni sem er vanalega bara í stakri bíómynd.

IMDb síða American Horror Story

 

Community

Það þarf varla að kynna þessi þætti fyrir þá sem hafa áhuga á sjónvarpsþáttum og leita sér fanga á öðrum stöðum en það sem sýnt er í íslensku sjónvarpi. Þetta eru grínþættir fyrir nördahópinn og eru helst þekktastir fyrir mjög frumleg handrit og skemmtilegan hóp af fjölbreyttum karakterum.

Þættirnir fjalla um hinn sjálfumglaða Jeff Winger sem er dæmdur til að fara í samfélagsskóla í Colorado til að fá aftur að vinna sem lögfræðingur (hann laug um að hafa tekið BA próf). Þar hittir hann samansafn af furðulegum karakterum svo sem pop-kúltúr sérfræðinginn Abed (mitt uppáhald) og hinn gamla fordómafulla Chevy Chase sem fer á kostum.

Þættirnir byrjuðu 2009 og núna var þriðja tímabilið að hefjast. Fyrir þá sem hafa ekki séð þættina og vilja komast beint í góða stöffið mæli ég sérstaklega með annarri seríunni sem var alger snilld og sköpunargáfa handritshöfundanna fékk að njóta sín (en fengu ekki eina tilnefningu fyrir Emmy-verðlaun sem segir allt sem segja þarf um það fyrirbæri).

IMDb síða Community

 

Man Up

Gamanþættir um vel giftan fjölskyldumann í góðu starfi og tvo vini hans. Hljómar ekki spennandi hingað til en þeir eru allir harðir nördar sem tilbiðja George Lucas og spila Modern Warfare saman á kvöldin. Rauði þráðurinn er sá að þeir hafa tapað karlmennsku sinni (feður þeirra voru stríðshetjur) og eru að reyna endurskilgreina hana í nútímaþjóðfélagi (hilarity ensues).

Það má hafa gaman af þessum þáttum þó að þeir séu ekki í sama flokki og Community, leikararnir eru viðkunnanlegir og þetta er fínt léttmeti þegar maður er í þannig stuði.

IMDb síða Man Up

 

Grimm

Annar af tveimur nýlegum sjónvarpsþáttum (hinn er Once Upon a Time) sem er byggður lauslega á gömlum barnaævintýrum í stíl H.C. Andersen og Grimmbræðra.

Í heimi þáttanna ganga ófreskjur eins og varúlfar, nornir o.s.frv. á meðal oss en enginn getur séð hið sanna form þeirra því þau eru í mannslíki. Undantekningin er einhver af Grimm ættinni eins og hetjan okkar, lögreglumaðurinn Grimm, sem byrjar allt í einu að sjá þær (af hverju hann sá þær ekki fyrr en á fullorðinsaldri skil ég ekki). Þessar verur eru samt ekki alltaf vondar, sumar t.d. hjálpa Grimm við að leysa málin. Ég var ekki mjög hrifinn af pilotinum (slæmur leikur, frekar campy) en þetta gæti batnað.

IMDb síða Grimm

 

Misfits

Þriðja tímabil hinna bresku þátta Misfits var að hefjast fyrir stuttu en það eru þættir sem hafa sópað að sér verðlaunum og eru með stóran underground aðdáendahóp.

Misfits fjallar um hóp vandræðaunglinga sem fær ofurkrafta og kann hreinlega ekki að nota þá enda lenda hlutirnir alltaf í rugli. Þegar ég byrjaði að horfa á þættina þá fannst mér þetta einstaklega fráhrindandi hópur en svo small allt saman og þetta urðu uppáhaldsþættirnir mínir.

Í þriðju seríunni ber helst að nefna að einn vinsælasti leikarinn, Robert Sheehan, sem leikur hinn kjaftfora Nathan Young, er ekki lengur með. Þess vegna mæli ég með því að fólk horfi á fyrstu og aðra seríuna (seríurnar eru bara 6 þættir hver) og meti hvort þeir vilji horfa á framhaldið án hans. Að vísu kemur annar í hans stað en það verður ekki auðvelt að toppa karakterinn Nathan.

IMDb síða Misfits

– Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn2 Responses to 8 sjónvarpsþættir fyrir veturinn

Skildu eftir svar

Efst upp ↑