Tækni

Birt þann 8. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kynning á Linux stýrikerfum fyrir PC tölvur

Í þessari grein er stefnt að því að kynna Linux stýrikerfin og þá helst Ubuntu stýrikerfið sem er orðin vinsælust af þeim dreifingum sem eru í gangi og eru notendavænstar fyrir almenning.Við byrjum á smá söguyfirliti og hvernig grunnkerfin í Linux hafa þróast og hvernig uppbygging þeirra er en síðan munum við fara í gegnum það hvernig hægt er að ná í Ubuntu drefingu og prófa hana án þess að setja hana upp á tölvunni.

Síðan munum við fara í gegnum uppsetningarferlið og vísa í heimasíður þar sem farið er skref fyrir skref í gegnum uppsetninguna og leiðbeint hvernig hægt er að setja upp Ubuntu án þess að eyða út Windows stýrikerfinu.  Nokkrir möguleikar eru þar í boði.

Í síðasta hlutanum verður fjallað um þau forrit sem fylgja uppsett með Ubuntu kerfinu.  Einnig munum við fara lítillega í gegnum forritalista Ubuntu og hvernig skal sækja og setja upp forrit með pakkastjórnunarforritinu í Ubuntu.

Að lokum verður síðan tenglalisti og vísanir í þær heimildir sem notaðar hafa verið vinnslu greinarinar.Hvað er Linux?

Linux er stýrikerfiskjarni byggður á UNIX sem Linus Torvalds byrjaði að skrifa árið 1991, upp úr kennsluútgáfu af UNIX sem kallaðist minix. Nafnið er semsagt samsett úr Linus og Minix.Einn stærsti útgangspunktur þeirra sem skrifuðu upphaflega kjarnann var að hann virti svokallaðan POSIX staðal og í dag er stundum talað um ákveðin forrit að þau gangi á POSIX-samhæfðum stýrikerfium. Apple Macintosh stýrikerfinu var skipt yfir í náskyldan BSD-kjarna árið 2001 og telst því núna vera POSIX-samhæft stýrikerfi.

Annar stór útgangspunktur var að skrifa þennan kjarna sem frjálsan og opinn hugbúnað sem yrði öllum aðgengilegur ókeypis á Internetinu. Með því að hafa hugbúnað opinn er öllum gert kleyft að gera þær breytingar á forritum sem þeim sýnist og sníða þau að sínum þörfum og hugmyndum og dreifa þeim síðan áfram ef þeim hugnast það.
Þannig hafa Linuxkerfin þróast síðasta áratuginn þar sem fjölmargir einstaklingar og hópar starfa saman að því að gera kerfin betri, hraðari og aðgengilegri fyrir notendur sína með afar góðum árangri.

 

En hvað er stýrikerfi?

Stýrikerfi er í raun safn hugbúnaðar sem gerir notanda tölvunnar kleyft að vinna á hana í svokölluðu glugga umhverfi sem sýnir notandanum myndrænt allar aðgerðir sem hann framkvæmir.  Það má eiginlega segja að stýrikerfi sé byggt upp á mörgum lögum þar sem efsta lagið er það sem er notandanum sýnilegt en á bak við það er fullt af hlutum stöðugt að gerast og notandinn verður í raun aldrei var við.  Í grunninn er þetta sama að gerast í öllum stýrikerfum hvort seim þau heita Mac OS, Windows eða Linux en virknin er mismunandi og mismikil milli allra þessara kerfa og förum við ekkert nánar út í það enda meiningin að kynna hér Ubuntu stýrikerfið og hvernig hinn almenni tölvunotandi geti nýtt sér það.

 

Hvað er Linuxdreifing (Distro)?

Þegar Linux er sett upp á tölvum er almennt talað um að setja upp einhverja ákveðna dreifingu af Linux (t.d. Fedora, Ubuntu, OpenSuse). Þá er búið að velja saman einhverja gerð af kjarna, ásamt forritum og stjórntækjum sem vinna vel saman auk þess að föndra við hluti eins og útlit og sértæka virkni. Það eru til mjög sérhæfðar dreifingar, til dæmis ætlaðar sem stýrikerfi á síma eða til ræsingar af geisladiskum og USB-minnislyklum.

En þrátt fyrir útlitsmun eru dreifingarnar að mestu leyti svipaðar hvað virkni áhrærir, það er helst munur á hvaða forritapakkar koma foruppsettir með þeim, hvaða skjáborðsumhverfi hefur orðið fyrir valinu og hvaða tæki fylgja með til að halda utan um forrit og stýrikerfi.

Flestar dreifingar halda úti svokölluðum pakkageymslum (repository), einnig nefnt á íslensku hugbúnaðarsöfn. Það eru líka til pakkageymslur sem þjónusta fyrir margar dreifingar eða jafnvel fyrir einstök forrit, slíkt þarf að setja upp sérstaklega. Þessar pakkageymslur innihalda forritapakka til uppsetningar í gegnum svokallaða pakkastjóra (Package Manager), ekki ósvipað Windows update vefsvæðinu.
Pakkageymslur þessar eru vírusleitaðar, hugbúnaðurinn í þeim hefur verið prófaður og vottaður til að virka fyrir viðkomandi dreifingu. Pakkastjórinn sér um að setja forritin upp á réttan hátt og að setja upp í leiðinni þann aukahugbúnað sem þarf til að viðkomandi forrit virki. Öryggisviðbætur eru meðhöndlaðar á sama hátt.

 

Er Linux þá orðið eins og Windows?

Nei, aldrei í grunninn, því undirliggjandi kerfið er allt annað (og betra). Linux getur nálgast það – ef menn vilja. Microsoft fann hvorki upp gluggaumhverfið né skjáborðsumhverfið, það má hinsvegar segja að í krafti útbreiðslunnar hafi þeir sett „de-facto“ venjur og staðla við notkun einkatölva. Reyndar er talað um að með Windows hafi fólk fengið í kaupbæti vinnuferli sem kennt er við „American Corporative“ – segja má með nokkrum rökum að Linux sé bæði akademískara og evrópskara/alþjóðlegra en Windows.

Sum skjáborðsumhverfin fyrir Linux geta líkst MS-Windows mjög mikið og einstaka Linux dreifingar ganga eins langt í að líkjast því eins og siðlegt/löglegt þykir. Enn aðrar dreifingar samsama sig frekar útliti OSX stýrikerfisins frá Apple. Flestar Linux dreifingar vilja þó að það sé útlitsmunur, svo framarlega að það standi ekki í vegi fyrir notagildi tölvunnar.

Oft hefur verið kvartað yfir því að Linux styðji ekki nógu vel við ýmsar gerðir af vélbúnaði. Þetta er beinlínis rangt af því það eru margir framleiðendur vélbúnaðar sem styðja ekki nógu vel við Linux. Og síðustu árin er staðan sú að Linux styður orðið mun fleiri gerðir vélbúnaðar heldur en t.d. Windows. Eftir sem áður er staðan sú að oft líður einhver tími áður en tekist hefur að skrifa rekla fyrir glænýjan vélbúnað. Oft er það þannig að því vandaðri og dýrari sem vélbúnaðurinn er, því meiri líkur eru á að stuðningur sé fyrir hendi í Linux – ef búnaðurinn er til notkunar í fyrirtækjarekstri eru meiri líkur á að reklar séu skrifaðir strax. Ódýrt tilboðsdót er ólíklegara til að virka með Linux.

Sú staða er komin upp að stökkið sem þarf að taka til að skipta úr t.d. WindowsXP yfir í sumar dreifingar Linux er orðið lítið minna en að skipta úr WinXP yfir í Vista. Engar ýkjur.Hvort stökkið sem væri tekið þarfnast ákveðinnar leiðsagnar fyrir marga almenna notendur sem vanir eru gamla kerfinu sínu. Og reynslan hefur sýnt að þeir sem ekki hafa neina fyrri tölvureynslu eiga alveg jafn auðvelt með að byrja á Linux eins og öðrum stýrikerfum.
Við ætlum að reyna að halda úti greinargóðum leiðbeiningum fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér Linux, góður staður til að byrja gæti verið á Íslenska Linuxvefnum, www.linuxvefurinn.is

Stóri munurinn á Linux og Windows er samt frelsi, stundum of mikið fyrir suma, greitt með ábyrgð og nákvæmni.

 

Er Linux víruslaust?

Innan við 100 vírusar hafa verið sérskrifaðir fyrir Linux, helsta ástæðan er hve erfitt er að komast upp á milli notenda eða fá kerfisstjóraaðgang (root). Að auki eru allar pakkageymslur (repository) skannaðar reglulega.

Þetta þýðir samt ekki að menn eigi ekki að keyra vírusvörn í Linux.

Þetta þýðir samt ekki að menn eigi ekki að keyra vírusvörn í Linux. Ef verið er að skiptast á skjölum við Windows notendur t.d. með SAMBA eða tölvupósti, þá er hætta á að vírusar dreifist áfram til Win-notenda. Eins er til dæmi um Ooffice macro-vírus að nafni Bad Bunny sem náði að smita önnur Office-skjöl innan Linux vélar, en til þess þurfti að opna skjalið og keyra macro-skriftuna. Í slíku tilfelli skemmist í mesta lagi eitthvað hjá viðkomandi notanda, en stýrikerfið sjálft ætti að sleppa nema menn hafi farið óvarlega með kerfisstjóraréttindi. Í rauninni hafa Linux umsjónarmenn meiri áhyggjur af hlutum eins og innbrotum utanaðkomandi aðila og þá misnotkun þeirra á kerfinu, en það á einnig við um öll önnur nettengd stýrikerfi í dag.

Annað sem fólk ætti einnig að hafa í huga er tölvupóstur.  Þegar notað er tölvupósur á Linuxvél og viðkomandi fær t.d. póst sem er með viðhengi, þá ætti undantekningalaust að skanna öll viðhengi því það geta leynst vírusar og trójuhestar í viðhengjunum.  Sem dæmi um það eru myndir og þegar þær eru opnaðar keyrir skrifta sig upp sem dælir síðan út ruslpósti og vírusum til allra sem eru á tengiliðalistanum.  Einnig eru til trójuhestar sem keyra skript sem safna öllum upplýsingum um notanda tölvunar og senda til þess sem skrifaði vírusinn.  Í sumum tilfellum jafnvel kretitkortanúmer hafi fólk verslað á vefnum og lykilorð á vefsíðum og svo framvegis.  Því er það góð og gild regla sama hvaða stýrikerfi sem er notað, að keyra alltaf vírusvörn og láta hana skanna allan póst. Þetta gildir líka um Google póst, Hotmail og alla póstþjónustu á internetinu.

 

Hvaða Linux dreifingu (distró) á ég að fá mér?

Þegar Linux er sett upp á tölvum er almennt talað um að setja upp einhverja ákveðna dreifingu af Linux . Þá er búið að velja saman einhverja gerð af kjarna, ásamt úrvali af forritum og stjórntækjum sem vinna vel saman auk þess að föndra við hluti eins og útlit og sértæka virkni.

Það eru til mjög sérhæfðar dreifingar, til dæmis ætlaðar sem stýrikerfi á síma eða til ræsingar af USB-minnislyklum. Sumar dreifingar eru ætlaðar til rekstrar á þjónum/miðlurum og enn aðrar til uppsetningar á ákveðnum kerfum, til dæmis sem margmiðlunarflakkara. En þrátt fyrir útlitsmun eru dreifingar til almennra nota að mestu leyti svipaðar hvað virkni áhrærir, það er helst munur á hvaða forritapakkar koma foruppsettir með þeim, hvaða skjáborðsumhverfi hefur orðið fyrir valinu og hvaða tæki fylgja með til að halda utan um forrit og stýrikerfi. Ekkert kemur í veg fyrir að menn setji upp sitt eigið Linux kerfi frá grunni; kjarna, rekla, forrit og viðmót. Með dreifingum er bara verið að spara (gríðarlegan) tíma.

Fjöldi skráðra dreifinga er svo mikill að við fyrstu sýn gæti þetta litið út eins og frumskógur; í dag (2011) eru a.m.k. 3000 + skráðar dreifingar aðgengilegar. En þegar búið er að draga frá þær sem eru óvirkar eða mjög sérhæfðar og þrengja valið niður í þær sem henta til almennrar notkunar (e. “desktop linux”), þá er fjöldinn kominn niður fyrir ~20 dreifingar.

Munur á milli dreifinga getur verið mjög óskýr enda margar dreifingar byggðar á einhverri annarri. Dæmi um það er SimplyMepis sem er byggt á Ubuntu sem aftur er byggt á Debian. Flókið? Skiptir ekki máli til að byrja með.

Annað dæmi er Ubuntu (*buntu) fjölskyldan; margar dreifingar sem í grunninn eru eins. Hún samanstendur af Ubuntu Standard, Ubuntu LTS, Kubuntu, Xubuntu auk annarra tilbrigða (Ubuntu CE er „Christian Edition“ með biblíutextaforritum og ýmsu til að gera notkunina ánægjulega fyrir „sannkristið“ fólk, Ubuntu ME er svo svipað uppsett fyrir múslima). Ubuntu er með útgáfu af GNOME skjáborðsumhverfinu, Kubuntu er með KDE sem krefst ívið meira tölvuafls en er “fágaðra” í útliti, Xubuntu er svo með XFCE skjáborðinu sem er létt í keyrslu og hentar vel á gamlar vélar.
Munurinn á Ubuntu Standard og Ubuntu LTS er hinsvegar að með LTS (Long Term Support) er tryggt að stuðningur við dreifinguna á að vera til staðar í lengri tíma en almennt gerist, eftir uppsetningu á ekki að þurfa að gera neinar stórvægilegar uppfærslur á kerfinu í 3 ár.

Munur á milli dreifinga liggur helst í eftirfarandi atriðum:

 • mismunandi skjáborðsumhverfi: KDE/GNOME/XFCE/…
 • pakkastjórnun: .rpm eða .deb pakkar, yum/yast/apt pakkastjórar
 • kerfisslóðum: hvar forrit og annað er sett upp í kerfinu
 • val á forritum: því tengist einnig stærð á uppsetningardiski, CD eða DVD
 • fjölda notenda: hve mikill stuðningur er úti í samfélaginu við viðkomandi dreifingu

Við val á fyrstu Linux dreifingu skipta fyrsti og síðasti liðurinn meginmáli. Einnig horfa menn svolítið á hvort dreifingarnar setja beint upp stuðning við lokaðan hugbúnað eins og Flash, MPEG, Win32codec og vélbúnaðarrekla, eða hvort setja þurfi upp slíkt sérstaklega (sem er oftast lítið mál, það bara þarf hver notandi fyrir sig að samþykkja notandaskilmálana). Sumar dreifingar bjóða upp á margar tegundir skjáborðsumhverfa, jafnvel þannig að hægt sé að velja í hverri innskráningu hvaða viðmót maður vill. Eðlilega tekur slíkt magn upplýsinga mikið pláss og kemst varla fyrir nema á DVD diskum.

Annars er best að kíkja á DistroWatch og skoða „Major Distributions“ og eins að fara aðeins niður eftir síðunni og skoða „Page Hit Ranking“ sem gefur ákveðna hugmynd um vinsældir hverrar dreifingar.

 

Hvernig næ ég í Linux disk?

Hvernig á að brenna diskmynd?

Linux sýnidiskar og uppsetningardiskar eru oftast til niðurhals sem skrár með .iso viðskeytinu. Athugið að það skiptir máli hvaða tegund af örgjörva tölvan er með; flestar eldri tölvur eru 32-bita, ýmsar nýrri eru 64-bita, og svo getur skipt máli (aðallega fyrir 64-bita vélar) hvort örgjörvinn er frá Intel eða AMD. Oft eru mismunandi ISO skrár fyrir hverja af þessum útfærslum, spurt er um þessi atriði á niðurhalssíðum. Venjulega stendur á tölvunni hvaða gerð af örgjörva er innan í henni; neðan á fartölvum og aftan á borðtölvum/turntölvum.
Slíkar ISO skrár eru með „mynd“ af skráarkerfi CD-ROM eða DVD disks. Ef prófa á Linux á geisladisk, er náð í ISO-skrá fyrir viðkomandi örgjörva, hún sett yfir í brennaraforritið og eftir nokkrar mínútur er tilbúinn ræsanlegur diskur sem virkar fullkomlega. Það á alls ekki að brenna skrána á diskinn sem „CD-DATA disk”, þá er þetta orðinn venjulegur gagnadiskur með einni .iso skrá. Öllu skiptir að brenna diskmyndina þannig að diskurinn verði ræsanlegur, þ.e. „bootable CD-ROM.“

Skipunin að brenna ISO mynd á disk er breytileg eftir því hvaða brennsluhugbúnaður er notaður. Ef nýleg útgáfa af Easy CD Creator frá Roxio er notuð er smellt á File–>Record CD from CD Image. Í nýlegri útgáfu af Nero er File–>Burn Image valið. Disk Utility forritið í Mac getur gert þetta á svipaðan hátt. Þú opnar það og ferð í Images–>Burn og velur ISO-skrána þar.

 

Hvernig virkar tölvan mín með Linux?

Skemmi ég eitthvað?

Nei, til að skoða hvernig Linux virkar á tölvunni er hægt að ná sér í svokallaða „Live disk distribution“ eða sýnidreifingu sem keyrir kerfið upp af geisladiski. Þá er ræst upp af geisladrifinu; diskurinn hafður í geisladrifinu (CD/DVD) þegar tölvan er sett í gang.

Þegar sýnidreifingin er komin í gang er stundum beðið um lykilorð, næstum alltaf er það sama og nafn notandans, t.d. notandinn „demo“ er með lykilorðið „demo“. Þetta er aðallega haft svo fólk fái hugmynd um hvernig uppsett kerfi hagar sér, en skiptir í rauninni litlu máli að öðru leyti. Síðan ætti skjáborðið að birtast, misjafnt að útliti eftir hvaða dreifingu um er að ræða. Hægt er að prófa ýmis forrit, flakka um kerfið og t.d. athuga hvort uppsetningarforritið hefur náð að þekkja allan vélbúnað. Þegar hætt er í sýnikerfinu er tölvan alveg eins og áður, nema menn hafi verið að reyna að breyta henni. Til þess þarf maður að vita nokkuð hvernig eigi að bera sig að.

Eitt þarf samt að hafa í huga með slíkt stýrikerfi sem er keyrt af geisladiski; geisladrif eru mikið hægari en venjulegir harðir diskar, svartíminn á mörgum aðgerðum er væntanlega töluvert langur. Eins eru margar stillingar ekki frágengnar eins og ef um alvöru uppsett kerfi væri að ræða.

Eitt þarf samt að hafa í huga með slíkt stýrikerfi sem er keyrt af geisladiski; geisladrif eru mikið hægari en venjulegir harðir diskar, svartíminn á mörgum aðgerðum er væntanlega töluvert langur. Eins eru margar stillingar ekki frágengnar eins og ef um alvöru uppsett kerfi væri að ræða. Þar má nefna hluti eins og tegund lyklaborðs (það þarf stundum að fara í stillingarnar og setja upp íslenskt lyklaborð), skjástærð getur verið ágiskun út í loftið, og ekki er endilega hægt að vista skrár á harða diska (ekki búið að skilgreina alvöru notendur).

Í flestum tilfellum er boðið upp á að setja upp dreifinguna á harða disk tölvunnar, sé það valið fer í gang uppsetningarferli sem nánar er útskýrt hér. Eins gæti verið gott að skoða fyrst hvernig hægt er að skipta harða diskinum upp í disksneiðar, og þá jafnvel halda upp á gamla stýrikerfið og geta ræst upp í fleiri en eitt stýrikerfi. Meira um það hér.

Sumar tölvur sem hafa verið seldar með foruppsettu stýrikerfi eru stilltar þannig að þær ræsast ekki upp af geisladrifi, þá getur þurft að ýta á til dæmis <F12> hnappinn í ræsingu (það koma oftast upp skilaboð þessa efnis í byrjun – en örstutt), þá ætti að koma upp valmynd þar sem hægt er að velja um af hvaða diski eigi að ræsa. Velja þarf færslu sem gæti litið út eins og „ATAPI CD-ROM“. Ef þetta virkar ekki þá þarf að fara inn í BIOS stillingarnar. BIOS er lítið ræsiforrit sem fer í gang um leið og maður kveikir á tölvunni. Til að fara í stillingarnar er haldið niðri annaðhvort <F2> eða <del> takkanum um leið og texti fer að birtast á skjánum í ræsingu. Þetta fer eftir því hvaða BIOS er á móðurborði tölvunnar, þessi örforrit eru lítillega mismunandi. Eftir nokkrar sekúndur opnast stillingaforrit fyrir viðkomandi BIOS, þar getur maður notað örvalyklana til að flakka um, stundum þarf að nota <tab> lykilinn til að hoppa um og/eða bilslaána <space> til að staðfesta hluti. Venjulega sjást útskýringar á öllum valmöguleikum neðst á skjánum.
Þarna þarf maður að finna eitthvað sem heitir annaðhvort „Boot Sequence“ eða „Boot Options“. Þar er hægt að stilla röð ræsitækja eða „Boot Devices“. Gott er að hafa „ATAPI CD-ROM” sem fyrsta tæki, hugsanlega disklingadrif „Floppy Disk“ sem númer tvö, en allavega ekki gleyma að setja réttan harðan disk næstan þar á eftir, hann myndi ganga undir nafni eins og „HDD1“ eða „SDA1“ eða eitthvað í þeim dúr. Bara að það sé sami diskurinn og var í fyrsta sæti þegar byrjað var.

Ef menn halda að þeir hafi gert mistök, þá er bara að fara útúr BIOS með <ESC> og ekki vista neitt, ræsa aftur og fara aftur í BIOS-inn. Síðan er tölvan ræst upp með Linux sýnidreifingunni í geisladrifinu og ballið getur byrjað. Hægt er að skoða hér hvaða forrit er algengast að séu foruppsett í helstu Linux dreifingum.

 

Hvernig set ég upp Linux stýrikerfi?

Fyrsta skrefið er að fá sér sýnidreifingu „Live disk distribution“ á geisladiski. Reyndar er verið að vinna í forriti sem setur linux upp á tölvur beint úr Windows, kallast það Wubi (http://wubi-installer.org/) og er tengt Ubuntu. En venjulega er byrjað á því að koma sýnidreifingunni í gang og skoða hvort netkort og skjákort virki ekki eðlilega. Á skjáborðinu er oftast hnappur eða táknmynd sem gefur möguleika á að setja kerfið upp á harðan disk tölvunnar.

Áður en ákveðið er að smella á innsetningarhnappinn þarf að spyrja sig einfaldra spurninga: Er eldra stýrikerfi á disknum sem halda á gangfæru eða gögn sem á að flytja yfir í nýja kerfið? Vil ég geta sett upp fleiri en eina Linux dreifingu til að prófa en samt alltaf haldið gögnunum mínum ósnertum?

Fyrir flesta sem eru að fikta sig áfram er þetta ekkert vandamál; það ætti að vera búið að bjarga öllum gögnum (tölvupósti, myndum og skjölum, auk þess að punkta niður stillingar fyrir net o.fl.) yfir á skrifanlega geisladiska, flakkara eða minnislykla, nú eða aðra tölvu. Þá ætti að vera í lagi að prófa að setja uppfærslu með sjálfvirkri disksneiðingu, „Automatic Partition“ eða stundum líka kallað „Guided – use entire disk“. Í þessu tilfelli notar uppsetningarforritið allan diskinn fyrir kerfið og notandinn þarf ekki að hugsa um disksneiðar eða ræsingu annarra stýrikerfa. Þeir sem hafa áhuga á slíku geta lesið um það hér.

Flest uppsetningaforritin byrja á því að spyrja hvaða tungumál eigi að nota við uppsetninguna. Fæst þeirra hafa verið þýdd á íslensku (RedHat var það einu sinni) þannig að hér verður miðað við ensku sem uppsetningartungumál.

Síðan er oftast spurt um staðsetningu og klukku, þar yrði „Atlantic/Reykjavík“ fyrir valinu hér á Íslandi. Einnig er spurt um gerð og uppsetningu lyklaborðs, þetta er mjög mikilvægt að sé rétt gert, væntanlega er oftast um að ræða 104 lykla PC lyklaborð með “Icelandic latin” útliti. Hægt er að breyta þessu eftir að uppsetningu er lokið, en það er óneitanlega kostur ef þetta virkar á meðan uppsetningu stendur.

Síðan kemur röðin að áðurnefndri uppsetningu á hörðum diski, stundum kallað „Prepare disk space“. Velja „Automatic Partition” eða „Guided – use entire disk“, nema menn vilji nota eitthvað sérsniðið eins og minnst er á hér. Hér er líka oft spurt um hvort eigi að setja upp ræsistjóra eða “Boot Loader“, hvar eigi að setja hann upp og jafnvel hvaða tegund. Venjulega væri svarið við þessu að setja upp GRUB ræsistjórann í MBR (Master Boot Record) á fyrsta harða diskinum (hd0 eða sda). Þetta er stundum síðasta stigið þar sem maður getur hætt við áður en nokkrar breytingar eru gerðar á uppsetningu tölvunnar, annars getur það verið í blálok uppsetningarinnar.

Næst er oftast spurt um hvaða nafn maður vilji gefa tölvunni, hvaða nafni og lykilorði eigi að úthluta fyrsta notandanum á tölvunni og einnig hvaða lykilorð kerfisstjórinn (root) eigi að hafa. Þarna kemur í ljós munur á milli Linux dreifinga; í Ubuntu og skyldum dreifingum er fyrsti notandinn (þú) líka kerfisstjóri. Einungis kerfisstjóri getur sett upp forrit fyrir allt kerfið, breytt víðværum stillingum og búið til nýja notendur. Það er ekkert fyndið að gleyma lykilorðinu hans eða missa það í hendur óprúttinna aðila. Það ætti helst aldrei að skrá sig inn í grafíska skjáborðsumhverfið sem kerfisstjóri, og alls ekki á meðan tölvan er nettengd. Hinsvegar er búið að koma hlutum þannig fyrir í Ubuntu að aðalnotandinn hefur hlutverk kerfisstjóra og í hvert skipti sem verið er að gera kerfisbreytingar er notandinn spurður um lykilorðið sitt í stað lykilorðs kerfisstjóra eins og í öðrum dreifingum. Þetta á að vera til þægindaauka, hægt er að breyta þessu að vild eftir að kerfið er komið í gang. Skrifið niður öll notendanöfn og lykilorð um leið og þau eru framkvæmd.

Sum uppsetningaforritin láta þetta nægja og spyrja um staðfestingu á aðgerðum og hvort halda megi áfram í uppsetningu kerfisins. Önnur uppsetningarforrit halda áfram og spyrja um hluti eins og hvers konar tölvu maður vilji setja upp; þá er gjarnan val á milli einfaldrar borðvélar/fartölvu, vinnustöðvar (workstation) eða miðlara/þjóns (server). Munurinn felst aðallega í hvers konar hugbúnaður er settur upp og hve strangar reglur eigi að setja upp á eldvegg kerfisins. Eins er stundum spurt um hvaða skjáborðsumhverfi maður vilji setja upp; KDE/GNOME/XFCE/… en það á yfirleitt ekki við nema um stóra DVD uppsetningadiska sé að ræða.Í einstaka tilfellum getur maður síðan ráðið hvaða aukahugbúnað eigi að setja upp, eins hverjar netstillingar eigi að vera. Algengara er þó að um slíkt sé spurt þegar kerfið er ræst í fyrsta sinn.

Þegar uppsetningarforritið hefur fengið þær upplýsingar sem til þarf, er spurt um staðfestingu á valinu og því hvort halda megi áfram. Þegar smellt er á hnappinn sem leyfir áframhald fer í gang sjálft uppsetningarferlið; þá má fara og fá sér kaffibolla. Síðan er tölvan endurræst, geisladisknum er gjarnan ýtt út og gæti maður þurft að fjarlægja hann og staðfesta enn einu sinni. Síðan er ræst upp í fyrstu notkun stýrikerfisins.

Allt þetta ferli gæti tekið á bilinu 15-25 mínútur.

Hér er sýnishorn úr Ubuntu 11.04:

 

Hvernig á að búa til disksneiðar?

Harðir diskar eru notaðir til að geyma gögn tölvunnar (stýrikerfi/forrit/stilliskrár/vinnugögn) á milli þess sem þau eru notuð, við notkun eru þau lesin upp í vinnsluminni. Tölvur sem hafa verið keyptar með foruppsettu stýrikerfi eru oftast með allan diskinn forsniðinn í eitt stórt svæði eða disksneið (Partition).

Disksneiðar hafa ekkert sérstakt með Linux að gera, slíkt getur verið notað í flestum öðrum stýrikerfum. Nýlegar tölvur með mjög stórum diskum hafa stundum fleiri disksneiðar, eins hafa sumir stórir framleiðendur (IBM, HP, Dell) útbúið sérstaka disksneið undir gögn þau sem notuð voru við upphaflega uppsetningu (Windows uppsetningardiskur, öryggisafrit, reklar ofl.).Í Windows Explorer er hver disksneið sýnd sem sjálfstæður harður diskur (C:/ – D:/ – E:/ o.s.frv), í Linux eru disksneiðarnar tengdar inn í skráakerfið (möpputréð) sem möppur, maður getur ráðið hvar það er en fyrir nýbyrjaða er í best að leyfa uppsetningaforritinu að ráða.

Mjög stórar disksneiðar hafa þann galla að ýmis viðhaldsforrit geta verið mjög lengi að framkvæma vinnuna sína á þeim, til dæmis tekur lengri tíma að leita að skrá á stórri disksneið en lítilli. Disksneiðar verða samt að hafa pláss fyrir allt það efni sem maður vill geyma þar og helst meira en það.

Mjög stórar disksneiðar hafa þann galla að ýmis viðhaldsforrit geta verið mjög lengi að framkvæma vinnuna sína á þeim, til dæmis tekur lengri tíma að leita að skrá á stórri disksneið en lítilli. Disksneiðar verða samt að hafa pláss fyrir allt það efni sem maður vill geyma þar og helst meira en það.
Áður en ákveðið er að sneiða diskinn niður þarf að spyrja sig einfaldra spurninga: Er eldra stýrikerfi á disknum sem halda á gangfæru eða gögn sem á að flytja yfir í nýja kerfið? Vil ég geta sett upp fleiri en eina Linux dreifingu til að prófa en samt alltaf haldið gögnunum mínum ósnertum? Það þarf að vera með hugmynd um skipulagningu disksins.

 • Eitt Linux stýrikerfi og gagnadisksneið á einum harðdiski
 • Windows + Linux + gagnadiskur
 • GRUB ræsistjórinn

Í stað þess að koma hér með yfirlit um allar mögulegar útfærslur er betra að taka hér örfá dæmi um mismunandi uppsetningar á diski. Hægt er að finna allskyns ýtarlegri upplýsingar á internetinu fyrir önnur tilfelli, eins og þegar diskarnir eru fleiri.

 

Eitt Linux stýrikerfi og gagnadisksneið á einum harðdiski

Ef hugmyndin er að hafa aldrei fleiri en eitt stýrikerfi á tölvunni, þá er skynsamlegt að halda samt vinnugögnum sínum (ýmis skjöl, mp3 tónlistarskrár, ljósmyndir og fleira) aðskildum frá stýrikerfinu. Sé það gert er tiltölulega lítið mál að skipta aftur um stýrikerfi, það verður minni áhætta á gagnatapi við ýmsar kerfisbreytingar og utanumhald verður einfaldara (t.d. öryggisafritun).

Í þessu tilfelli er farið í uppsetningarferli Linux dreifingar; þegar komið er að „Disk Management“ er hakað við diskinn og valið „Manually edit partition table“ eða eitthvað í þeim dúr. Sé diskurinn með disksneiðum sem ekki á að halda upp á, er þeim eytt. Stundum er þarna möguleiki á að láta uppsetningaforritin stinga upp á disksneiðingu, það er allt í lagi að prófa það og bakka síðan út ef það hentar ekki. Ef um stóra harða diska er að ræða og á að  nota hann allan undir eitt distro er ágætt að skipta honum upp með eftirfarandi hætti.

 1. 10 Gb undir swap skrá (skyndiminni á harða diskinum)
 2. 20 til 30 Gb undir stýrikerfið sjálft
 3. Rest af disknum sem Home þar sem öll gögn eru vistuð.

Með því að skipta diskinum upp með þessum hætti er hægt að skipta út dreifingu eða setja hana upp á nýtt án þess að tapa þeim gögnum sem eru á Home svæðinu.  Stýrikerfið sjálft tekur ekki það mikið pláss, (Ubuntu 11.04 sem dæmi tekur aðeins rúm 4 gb eftir grunnuppsetningu svo það segir sig sjálft, að 20 til 30 gb undir kerfið dugar manni ansi lengi og með stórt Swap diskaminni þegar keyrð eru mörg forrit í einu á mörgum skjáborðum.

Nánari kynning á Ubuntu dreifingunni verður í næsta hefti og þar verða ýmsar leiðbeiningar einnig um einstök forrit, uppsetningu þeirra og notkunn.  Einnig er hægt að fara inn á www.linuxvefurinn.is og smella á leiðbeiningar og lesa sér til þar.

Jack Hrafnkell Daníelsson

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑