Leikjarýni

Birt þann 19. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Warhammer 40.000: Kill Team

eftir Daníel Pál Jóhannsson

Warhammer 40.000: Kill Team var gefinn út í júlí á Xbox Live Arcade og PlayStation Network kerfin og kostar hann $10 eða 800 Microsoft punkta.THQ sáu um gerð leiksins en eins og þeir hafa sýnt og sannað með Dawn of War seríunni, þá kunna þeir sitt þegar kemur að því að flytja söguna og skemmtunina við Warhammer 40K yfir á tölvuleikjaform.

Saga leiksins er sú að Orka Kroozer geimskip er á leið til plánetu sem er í eigu Keisarans. Svokallað Kill Team af Space Marines er sent til að ráðast á geimskipið og samanstendur liðið af fjórum mismunandi hermönnum. Þeirra verkefni er að stöðva geimskipið áður en það kemst til plánetu Keisarans.

Í byrjun leiksins byrjar spilarinn á því að velja sér hvernig Space Marine hann vill vera en hann hefur val á milli fjögurra mismunandi hermanna. Þeir eru Sternguard Veteran og Techmarine, en þeir eru með öflug skotvopn, og Vanguard Veteran og Librarian, en þeir eru öflugir í návígi. Spilarinn stýrir sínum Space Marine með stýripinnunum á fjarstýringunni og er sá vinstri notaður til að hreyfa leikmanninn meðan sá hægri segir til um hvaða átt hermaðurinn á að skjóta. Það er auðvelt og fljótlegt að læra á stýringuna í leiknum og er hún ekki eitthvað sem heldur aftur að spilaranum. Hver Space Marine hefur sinn sérstaka kraft sem hægt er að nýta í bardögum t.d. að skjóta margfalt hraðar eða senda frá sér bylgju af hugarorku sem drepur alla sem fyrir henni verða. Þessi kraftur er algjör bjargvættur en ekki er hægt að nota hann endalaust því hann þarf tíma til að verða aftur virkur eftir notkun.

 

 

Eftir því sem lengra er komið í leikinn fær spilarinn aðgang að betri skot- og návígis vopnum sem munu hjálpa honum við þá stóru bardaga sem framundan eru. Það er gaman að sjá vopnin úr Warhammer 40.000 koma til lífsins í leiknum og á margan hátt eru þau svipuð og maður hefði ímyndað sér, miðað við borðspilið. Óvinirnir eru ekki af skornum skammti í leiknum og er mjög gaman að berjast við það mikla magn af Orkum sem koma aðsvífandi að leikmanninum með sínum Choppaz og Shootas.

Tveir spilarar geta spilað leikinn saman á sömu tölvu en ekki í gegnum netið. Þó það sé risastór mínus að það sé ekki netspilun, þá er mikil skemmtun í því að spila saman. Báðir spilarar eru á sama skjá en það er einmitt ýtt undir þá hegðun að halda sig saman, því ef annar spilarinn nær Power-Up og hinn spilarinn er nálægt, fá báðir það sem Power-Upið hefur upp á að bjóða.

 

 

Það tekur í kringum 4 til 6 klukkutíma að klára leikinn og er það ekki slæmt fyrir leik af þessari tegund. Það er hægt að fara aftur í hann og hafa gaman af þó að sagan sé á hreinu, og auðvitað eru faldir hlutir í borðunum sem hægt er að keppast um að safna. Þeir sem kaupa leikinn og klára fyrsta borðið fá einstakt návígisvopn, Power Sword, til að nota í fjölspilun í Warhammer 40.000 Space Marine sem á að koma út 6. september 2011. En það verður leikur í fullri lengd.

Ég mæli með Warhammer 40.000: Kill Team, eða allaveganna að sækja þér leiklinginn og prufa hann. Þetta er auðvitað, eins og gefið er til kynna, ekki leikur í fullri lengd, enda er hann í ódýrari kanntinum þannig að verðið ætti ekki að fá veskið til að titra eins og með marga stóra leiki í dag. Leikurinn spilast vel og þó það komi fátt á óvart, þá er ekki mikið sem slær niður gæði leiksins og er þetta fínn leikur til að grípa í þegar vinur kíkir í heimsókn.

Grafík 7,0
Hljóð 7,0
Saga 6,5
Spilun 7,0
Endurspilun 6,0

Samtals 6,7

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑