Fréttir

Birt þann 12. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

EVE Fanfest 2011

eftir Bjarka Þór Jónsson &
Daníel Pál Jóhansson

Tekið úr 1. tbl. Nörd Norðursins

Sjöunda EVE Online Fanfest hátíðin og ráðstefnan var haldin í Laugardalshöll 24.-26. mars síðastliðinn.  Um er að ræða hátíð þar sem EVE Online spilarar víðsvegar að úr heiminum koma saman. Hátíðin verður sífellt stærri og fjölmennari með árunum og var hátíðin í ár sú fjölmennasta hingað til en um 3.000 manns sóttu vinsælustu viðburði hátíðarinnar – og þar af komu 1.000 til 1.200 erlendis frá. Í dag eru fleiri sem spila EVE Online en búa á Íslandi, eða í kringum 360.000 manns. Í Sjónvarpsfréttum 26. mars tjáði Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, að það mætti gera ráð fyrir því að erlendir ferðamenn í tengslum við hátíðina væru að koma með að minnsta kosti 300 milljónir kr. beint í efnahag Íslands. Hilmar sagði einnig frá því að núverandi gjaldeyrishöft væru illa útfærð fyrir fyrirtæki á borð við CCP – en nánar um það í næsta tölublaði!

Laugardalshöllin leit mjög vel út að innan þar sem búið var að breyta henni í hálfgert geimskip. Það voru heldur fáir klæddir búningum tengdum tölvuleikinum en síðasta dag hátíðarinnar lögðu nokkrir það á sig að klæða sig upp. Þarna var meðal annars sérstök búð tileinkuð tölvuleiknum þar sem bolir og leðarjakkar voru til sölu, spilakassi til að drepa tíma og Quafe mötuneyti.

 

HÁTÍÐIN SETT OG DAGSKRÁIN KYNNT

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, opnaði hátíðina um kl. 14:30 og veitti einum hátíðargesti verðlaun fyrir að leggja í lengsta ferðalagið til að mæta á hátíðina – en hann kom alla leið frá Ástralíu. Kynnar klæddir glitfötum og fjólubláum pípuhatt tóku við eftir stutt ávarp borgarstjóra þar sem þau kynntu dagskrá hátíðarinnar sem var þétt og áhugaverð. Á hverjum degi voru þrjú svæði tileinkuð hringborðum þar sem starfsfólk CCP ræddi við áhugasama um ákveðin efni innan EVE Online, til dæmis markaðsfræði, hernað, netþróun, aðdáendasíður, konur í EVE, EON Magazine og tengsl EVE Online við tölvuleikinn DUST 514 sem er væntanlegur frá CCP. Auk hringborðanna voru stærri salir tileinkaðir stærri viðburðunum og á meðan á öllu þessu stóð var keppt í einstaklingskeppni, eða PVP (Player vs. Player), í EVE Online á sérstöku svæði.

 

LÝÐRÆÐISHÖNNUN

Design Democracy var dagskráliður sem stóð vel á annan klukkutíma. Þar var meðal annars starfsmaður CCP fenginn til að skapa geimskip í anda EVE Online á staðnum. Á meðan hann hannaði skipið fylgdust gestir með á risaskjá og skutu inn hugmyndum sem skiluðu sér oftar en ekki á geimskipið. Hugmyndirnar voru allt frá því að vera hvort geimskipið ætti að vera gluggalaust eða ekki og hvaða liti ætti að nota í ákveðin verk. Einn gestanna vildi ólmur fá loftnet á geimskipið og varð starfsmaður CCP við þeirri ósk með því að bæta við loftneti sem var á stærð við geimskipið sjálft. Stemningin var mjög góð og gestir skemmtu sér konunglega.

 

HLJÓMSVEITASLAGUR OG REYNSLUSÖGUR

Þegar líða tók á fyrsta kvöld hátíðarinnar var kveikt á rafrænu hljóðfærunum og hljóðnemanum og bjórar opnaðir. Bjórþyrstir gestir fylltu sal þar sem leikmenn og starfsmenn börðust í svokölluðum hljómsveitarslag í dagskráliðnum Battle of the Bands. Mikil stemning myndaðist í salnum og tónlistin heyrðist langar leiðir. Í öðrum sal var kveikt á hljóðnema og gátu spilarar komið upp á svið til og deilt sögum úr EVE Online með öðrum. Sögurnar spönnuðu allt frá harðkjarna EVE Online sögum yfir í létt spjall um hluti sem tengjast EVE Online ekki beint. Ein íslensk stelpa kom á sviðið til að segja frá reynslu sinni í Hættuspilinu sem CCP gaf út á sínum tíma og notaði þann gróða til að byggja og efla EVE Online. Önnur stelpa mætti á sviðið og tók strax fram að hún spilaði ekki EVE Online en kærastinn hennar gerði það. Hún stóð ein uppi á sviðinu til að kasta til hans ástarjátningu og sagðist vera tilbúin að reyna sitt besta til að komast inn í heim kærastans – EVE Online – og salurinn fagnaði. Gestir og starfsmenn skemmtu sér konunglega.

 

LYKILATRIÐI EVE

Síðdegis á föstudaginn hófst dagskráliðurinn EVE Keynotes þar sem CCP fór yfir helstu breytingar og fréttir úr heimi EVE. Þar hamraði CCP á því að það eru ekki endilega stórir hlutir og miklar breytingar sem gera leikinn betri, heldur litlu atriðin.

Þar hamraði CCP á því að það eru ekki endilega stórir hlutir og miklar breytingar sem gera leikinn betri, heldur litlu atriðin.

Þeir hafa verið að vinna í stórum hlutum en vildu þó fyrst og fremst benda á það sem mætti teljast til minniháttar breytinga, en þegar úr öllu er á botninn hvolft eru það þessir þættir sem gefa leiknum meiri dýpt og leyfir spilaranum að sökkva sér enn betur í leikinn. Grafík leiksins er í stöðugri þróun og voru sýnd nokkur dæmi um betri grafík og raunverulegri skyggingu en áður.

Spilarar eiga eftir að geta breytt persónu sinni í EVE Online betur og ber helst að nefna að hægt verður að bæta við örum, húðflúrum og götum. Spilarinn mun geta stjórnað staðsettningu húðflúranna og gert þau persónulegri en áður. Hægt verður að velja á milli einstakra flúra og yfir í full flúraða ermi (e. sleeve). Leikmenn geta einnig valið nokkra staði fyrir götin. CCP náði skemmtilegri tengingu við þessa uppfærslu þar sem húðflúrastofan Reykjavík Ink var með bás á hátíðinni og voru yfir tuttugu gestir búnir að fá sér húðflúr tengd EVE hjá þeim við hátíðarlok. Einnig er verið að vinna að klæðnaði fyrir persónur EVE og vinnur CCP náið með fatahönnuðum við gerð þeirra. Hugmyndin er að koma með nokkra þematengda fatapakka á næstunni. Leturgerð sem notuð er í umhverfi leiksins verður einnig breytt en margir hafa verið að kvarta yfir því að það sé erfitt að greina á milli tölustafsins „1“ og bókstafsins „L“ og á milli núll og O. Einnig verða breytingar á grunnteikningum (e. blueprints) þannig að auðveldara verður að greina á milli teikninga.

Fleiri breytingar voru nefndar. Byssustæði (e. turrets) geimskipa munu nú hreyfast og haga sér raunverulega, opið spjallsvæði fyrir EVE notendur verður opnað, heimasvæði fyrir persónur EVE er í vinnslu þar sem persónan getur farið úr geimskipinu og slakað á og munu spilarar geta gert herbergin persónulegri með mismunandi hlutum og húsgögnum. Leikmenn eiga einnig eftir að geta bætt  félagsmerki sínu (e. corporation logo) á geimskipið sitt.

Hátíðargestir voru yfir höfuð mjög sáttir með breytingarnar og uppfærslurnar og voru öllum breytingunum fagnað með lófaklappi og öskrum. CCP eru þakklátir fyrir allar kvartanir og væl sem þeim hafa borist í tengslum við leikinn þar sem þeir byggja endurbætur leiksins gjarnan á því.Vel gert CCP!

 

ÍÞRÓTTARVIÐBURÐUR ÁRSINS – SKÁKBOX

Föstudagskvöldið klukkan átta hófst íþróttarviðburður ársins – Skákbox! Skákbox er blanda af skák og boxi og má segja að þar mætist hugur og líkami. Íþróttin hefur náð vinsældum í Rússlandi en aldrei hefur áður verið keppt í þessari íþróttagrein hér á landi. Reglurnar voru einfaldar: hver lota samanstóð af fjórum mínutum af skák og strax þar á eftir tóku við þrjár mínútur af boxi. Til að sigra þurfti að sigra í skák eða rota andstæðinginn. Í hringnum mættust þeir Björn „Left Rook“ Jónsson og Daníel „Pretty Boy“ Þórðarson og gátu áhorfendur styrkt Sjónarhól samhliða bardaganum.

Áður en leikurinn hófst var keppnin og leikreglur kynntar fyrir nánast fullri Laugardalshöll. Bartónar, Karlakór Kaffibarsins, sungu þjóðsögn Íslands og að honum loknum voru þeir Björn og Daníel kynntir til leiks. Innkoma þeirra beggja var rosaleg. Tónlistin og stemningin bókstaflega hristi höllina.

Fyrsta lotan var heldur róleg en seint í annari lotu voru hraði og spenna komin í leikinn. Snemma í þriðju lotu náði Björn drottningu Daníels í skákinni og í sömu lotu fór að blæða úr nefi Björns eftir öflugt högg Daníels. Snemma í fjórðu lotu kom sigurvegarinn í ljós og var það Björn sem sigraði í skákinni.

 

CCP KYNNIR

Á CCP PRESENT fór CCP yfir það helsta tengt hátíðinni þar sem meðal annars kom í ljós að yfir 6.000 manns horfðu á skákboxið í gegnum netið og að yfir 100.000 Bandaríkjadalir hafi runnið til góðgerðarmála í gegnum EVE Online frá árinu 2004.

Farið var stuttum orðum um leikina sem CCP er að vinna að; DUST 514 og World of Darkness. Það var hamrað á að margt smátt getur breytt miklu og var vísað í breytingar sem hafa átt sér stað úr PLEX kerfinu. CCP tók fram að þeir vilja koma uppfærslum og endurbótum eins fljótt og hægt er í leikinn í stað þess að taka marga mánuði eða jafnvel ár til að fullkomna hlutina – sem á endanum eru hvort eð ekki fullkomnir.

Samstarf CCP við IBM og Nvidia var kynnt þar sem allir voru sammála um að samstarfið væri gott og að fyrirtækin hjálpuðu hver öðru að þróast í rétta átt. Carbon, leikjavélin sem notuð er í EVE Online, var kynnt og sagt frá mikilvægi hennar. Stærsti hluti EVE Online kóðans er Carbon kóði og gerir leiknum meðal annars kleift að gera einn stóran heim sem keyrir á mörgum netþjónum. Sýnd voru nokkur dæmi um hvaða krafti Carbon býr yfir og var grafíkin alveg ótrúlega flott. Ekki er hægt að kaupa leyfi til að nota Carbon sem CCP nota aðeins innanhús. Að lokum var örstutt sýning á EVE keyrða á spjaldtölvu og farsíma.

Sjónarhóli var afhentur risastór IOU-miði að verðmæti 1.000.000 ISK og tekið fram að framundan mætti sjá átök á yfirborði plánetna (tengist líklega DUST 514), löglega orku (e. boosters) á börum, fjárhættuspil, smygl á sjaldgæfum hlutum sem aðeins væri hægt að skiptast á með því að hittast og að í stað laganna varða geti spilararnir sjálfir tekið á smyglurum.

CCP vill ekki líta á EVE sem tölvuleikjaheim, heldur sem raunverulegan heim.

CCP vill ekki líta á EVE sem tölvuleikjaheim, heldur sem raunverulegan heim.

 

 

 

Í lokin var magnað myndskeið spilað – tvisvar – með yfirskriftinni EVE FOREVER. Ef þú hefur ekki þegar séð það er hægt að nálgast það á YouTube síðu CCP. FOKK JÉ!

 

PARTÝ ÁRSINS

Booka Shade, FM Belfast og fleiri góðir slógu svo botninn í hátíðinni með hörku stuði langt fram á nótt. Legendary!

 

Á netinu hafa verið sögusagnir um að CCP hafi gefið upp að DUST 514 myndi eingöngu vera gefinn út fyrir PlayStation3. Við hjá Nörd Norðursins höfðum samband við CCP og fengum upplýsingar um að engar tilkynningar hefðu verið gefnar út á hátíðinni varðandi DUST 514. Við verðum því víst að bíta í það súra epli og bíða og sjá hvort sögusagnirnar reynast réttar eða ekki. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um hvort leikurinn verði gefinn út fyrir PlayStation3 eða Xbox 360 eða þær báðar, en það er þó ljóst að leikurinn kemur ekki út á þessu ári.

Við getum ekki beðið eftir næsta EVE Online Fanfest. Dagskráin í heild sinni var umvafinn léttleika þar sem talað var beint til fólksins. Það kom aldrei upp sú tilfinning að menn væru staddir á fyrirlestri sem aldrei myndi ljúka. Húmor, góður undirbúningur, líflegar umræður og áhugavert efni hélt dagskránni gangandi.

 

Fyrir þá sem vilja glugga enn frekar í hátíðina þá tókum við ljósmyndir sem eru aðgengilegar á Flickr síðunni okkar og nokkur myndskeið sem hægt er að horfa á YouTube rásinni.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn2 Responses to EVE Fanfest 2011

  1. Pingback: EVE Fanfest 2012: Samantekt | Nörd Norðursins

  2. Pingback: Afmælispistill | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑